19.5.2008 | 17:48
Mikið var !
"Hófsemdarmennirnir" sem ætluðu að reisa "hóflega" stórvirkjun við Ölkelduháls á Hellisheiði og éta þar með heiðina upp til agna fyrir virkjanir undrast úrskurð Skipulagsstofnunar sem Davíð Oddsson kallaði "kontórista út í bæ" þegar hún lagðist síðast gegn stórvirkjun árið 2001. Þá var valtað yfir úrskurðinn og gefið í skyn að eins kynni að fara fyrir Skipulagsstofnun og Þjóðhagsstofnun og hún lögð niður. Skömmu síðar kom jákvæður úrskurður stofnunarinnar um þá endemis virkjun sem Villinganesvirkjun yrði. Ölkelduháls er svipað svæði og Sogin við Trölladyngju þar sem búið er að valda miklum umhverfisspjöllum án þess að Skipulagsstofnun eða Umhverfisstofnun væru spurð. Raunar eru Sogin enn merkilegra svæði en Ölkelduháls. Þegar talsmaður Hveragerðinga var inntur í útvarpsfrétttum eftir viðbrögðum við þeirri gagnrýni að náttúruverndarfólk væri á móti atvinnuuppbyggingu og virkjunum var svarið einfalt og gott: Með Bitruvirkjun eru skaðaðir möguleikar á atvinnuuppbyggingu sem byggist á nýtingu náttúruverðmæta fyrir ferðaþjónustu, útivist og ímynd svæðisins. Þess utan beinist andstaðan gegn Bitruvirkjun aðeins að einni af fjórum virkjunum á svæðinu. Til dæmis hafa Hvergerðingar látið Hverahlíðarvirkjun ligggja á milli hluta þótt hún liggi nálægt bænum. Vitað er að sveitarstjórn Ölfushrepps getur valtað yfir úrskurð Skipulagsstofnunar með stuðningi Orkuveitu Reykjavíkur. En úrskurðurinn veldur því að aldrei þessu vant verður þó á brattann að sækja með slíkt enda ekki einhugur um málið í núverandi borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík. Loksins á brattann að sækja fyrir virkjanafíklana. Mikið var ! |
![]() |
Bitruvirkjun út af borðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)