Ekki allt óumflýjanlegt.

Það er vafalaust rétt hjá lögreglustjóra að átök hafi verið óumflýjanleg. Sumir hafa gagnrýnt að skjaldvarðasveit skyldi standa þarna strax. En án þess hefðu bílstjórar tekið enn minna mark á aðvörunum og frestum. Bílstjórum var gerð grein fyrir því aftur og aftur að nú væri komið til alvörunnar, þetta blasti við þeim og þeir tóku samt ekki mark á því.

En sumt sem sást í sjónvarpinu virtist ekki óumflýjanlegt. Ég ætla aðeins að láta eitt dæmi nægja. Á mynd sést hvar lögreglumennirnir hafa komið sér fyrir öðrum megin við gult band en hinum megin við þetta gula band er fólkið.

Þrekvaxinn maður er að tala við lögregluna og heldur sig sín megin við gula bandið. Hann snertir ekki bandið og er þar sem honum er skipað að vera.

Skyndilega stökkva 4-5 lögreglumenn fram og ráðast á manninn. Hann reynir að komast undan á flótta en þetta er eins ójafn leikur og þegar ljónahópur ræðst á dádýr. Þeir hafa manninn undir og djöflast á honum. Mjög ljót sjón.

Var þetta óumflýjanlegt?


mbl.is Það sem gerðist var óumflýjanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn forsetabíllinn eftir 2019?

Afhendingin á hinum glæsilega forsetabíl er fagnaðarefni. Næsta skref í þessu máli getur hins vegar verið stigið árið 2019 þegar 75 ár verða frá því er Goðafossi var sökkt og með honum hinum raunverulega fyrsta forsetabíl, gjöf frá Roosevelt Bandaríkjaforseta. Þá er lögum samkvæmt aflétt grafarhelgi af flakinu.

Engu máli skiptir í hvaða ástandi sá bíll er vegna þess að einu ófrávíkjanlegu kröfurnar, sem eru gerðar til að bíll sé upprunalegur, eru að fyrir hendi sá hluti grindar sem er með grindarnúmeri og vélarblokk með blokkarnúmeri.

Með þetta er í höndum má endurnýja allt annað með viðurkenndum hlutum eða jafnvel kaupa heilan og góðan bíl og setja hann ofan á grindina.

Samkvæmt frásögn manns í sjónvarpsþætti um slysið, sem ég gerði í nóvember 1994, og komst af þegar skipið sökk, stóð bíllinn í kassa frammi á skipinu. Þegar skipið sökk stökk hann ofan á kassann og af honum í sjóinn. Dramatískara gerist það varla.

Viðmælandi minn taldi að bíllinn hefði verið af gerðinni Packard Clipper, sem var nokkuð straumlínulagaðri og nýtískulegri í útliti en bíllinn sem var afhentur í dag.

Ef þessi bíll verður sóttur niður að Titanic Íslands og stendur um síðir á hlaðinu á Bessastöðum á íslenska forsetaembættið bíl með sögun, sem ekkert annað þjóðhöfðingjaembætti í heimi getur leikið eftir að eiga.


mbl.is Fyrsti forsetabíllinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. maí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband