1.6.2008 | 20:43
Hrynur ýsan næst?
Athyglisvert var að hlusta á ræðumann á Sjómannadeginum í Reykjavík sem lýsti því skilmerkilegan hátt hvernig stækkun ýsukvótans og minnkun þorskkvótans verður til þess að brottkast á þorski eykst vegna þess að báðar þessar fisktegundir eru á svipuðum slóðum, aukin ýsuveiði þýðir að meira af þorski kemur um um borð og verður að henda honum.
Einnig eru athyglisverðar hugleiðingar Einars Júlíussonar sem færir að því rök í Morgunblaðinu í dag að vegna þess að ýsukvótinn hefur verið aukinn of mikið muni það leiða til stórfelldrar minnkunar stofnsin á næstu árum.
![]() |
Ekki forsendur til að greiða skaðabætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.6.2008 | 00:29
Seyðisfjarðarslys í M.R.?
Í heimsókn í gamla íþróttahús M.R. fyrir tveimur árum heyrði ég að til stæði að breyta húsinu í bókasafn. Ég hélt að þetta væri grín og gerði ekkert með það. Á útskriftarhátíð í fyrradag, þar sem dótturdóttir mín var meðal þeirra sem útskrifuðust, tilkynnti rektor þetta hinsvegar og það var staðfest í frétt Morgunblaðsins.
Húsið er elsta íþróttahús landsins, þar starfaði einn af fyrstu sérmenntuðu íþróttakennurum landsins og þar var vagga handboltans.
Flestir helstu íþróttagarpar landsins stæltu þar líkama sín langt fram eftir síðustu öld sem og helstu ráðamenn þjóðarinnar. Nú stendur hið sama til þarna og á Seyðisfirði í fyrra, þar sem litlu munaði að innréttingar áfengisútsölunnar þar yrðu eyðilagðar þótt ytra byrði hússins fengi að standa.
Það er ævintýri að koma inn í íþróttasalinn, sem er aðeins um 16 metra langur og 9 metra breiður, eða 144 fermetrar og ímynda sér hvernig hægt var að spila þar handbolta. Um salinn leikur sami ilmur merkilegrar fortíðar og í skólanum öllum.
Alls er húsið um 25 metra langt og því rúmlega 200 fermetrar eða líkast til um 2% af flatarmáli skólalóðarinnar. Það hlýtur að vera hægt að finna bókasafni stað á skólalóðinni án þess að ráðast á íþróttahúsið.
Án innréttinganna er húsið ekki meira virði en elsta kirkja landsins myndi vera ef henni yrði breytt í pakkhús.
Á skólalóðinni má sjá möguleika til að koma bókasafni fyrir neðanjarðar, til dæmis á milli Íþöku og íþróttahússins eða jafnvel undir bílastæðinu eða túninu fyrir framan skólann.
Á Seyðisfirði var komið í veg fyrir menningarslys. Frá upphafi hefur það verið sérstaða M.R. að standa vörð um góð gildi, venjur og hefðir og þess vegna er það enn sárara en ella ef þar verður nú staðið að menningarslysi fyrir fljótræði.
Þess vegna get ég ekki annað en endað þennan pistil á því að spyrja: Et tu, M.R.?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)