Seyðisfjarðarslys í M.R.?

Í heimsókn í gamla íþróttahús M.R. fyrir tveimur árum heyrði ég að til stæði að breyta húsinu í bókasafn. Ég hélt að þetta væri grín og gerði ekkert með það. Á útskriftarhátíð í fyrradag, þar sem dótturdóttir mín var meðal þeirra sem útskrifuðust, tilkynnti rektor þetta hinsvegar og það var staðfest í frétt Morgunblaðsins.

Húsið er elsta íþróttahús landsins, þar starfaði einn af fyrstu sérmenntuðu íþróttakennurum landsins og þar var vagga handboltans.

Flestir helstu íþróttagarpar landsins stæltu þar líkama sín langt fram eftir síðustu öld sem og helstu ráðamenn þjóðarinnar. Nú stendur hið sama til þarna og á Seyðisfirði í fyrra, þar sem litlu munaði að innréttingar áfengisútsölunnar þar yrðu eyðilagðar þótt ytra byrði hússins fengi að standa.  

Það er ævintýri að koma inn í íþróttasalinn, sem er aðeins um 16 metra langur og 9 metra breiður, eða 144 fermetrar og ímynda sér hvernig hægt var að spila þar handbolta. Um salinn leikur sami ilmur merkilegrar fortíðar og í skólanum öllum.  

Alls er húsið um 25 metra langt og því rúmlega 200 fermetrar eða líkast til um 2% af flatarmáli skólalóðarinnar. Það hlýtur að vera hægt að finna bókasafni stað á skólalóðinni án þess að ráðast á íþróttahúsið. 

Án innréttinganna er húsið ekki meira virði en elsta kirkja landsins myndi vera ef henni yrði breytt í pakkhús.

Á skólalóðinni má sjá möguleika til að koma bókasafni fyrir neðanjarðar, til dæmis á milli Íþöku og íþróttahússins eða jafnvel undir bílastæðinu eða túninu fyrir framan skólann.

Á Seyðisfirði var komið í veg fyrir menningarslys. Frá upphafi hefur það verið sérstaða M.R. að standa vörð um góð gildi, venjur og hefðir og þess vegna er það enn sárara en ella ef þar verður nú staðið að menningarslysi fyrir fljótræði.

Þess vegna get ég ekki annað en endað þennan pistil á því að spyrja: Et tu, M.R.?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er nú svo lítið pláss að það er ofmælt að þarna hafi verið "vagga handboltans" - frekar að reyfarnar hafi verið þarna. Annars hélt ég að þessi margumtalaða vagga handboltans hafi verið í Hafnarfirði.

Og hvaða "helstu íþróttagarpar landins" voru að iðka íþróttir þarna? Ætli þeir séu ekki frekar fáir íþróttagarparnir sem komu úr MR? Og "sem og helstu ráðamenn þjóðarinnar" - tja, það var þá ekki sama fólkið eða hvað? Eða voru þeir Geir Haarde og Davíð Oddsson manna liprastir í fimleikunum? Æ hvað það er leiðinlegt þetta MR snobb.

Ég svo sammála því, Ómar, að það þarf að huga mjög vel að því að ekki séu menningarleg verðmæti látin fara forgörðum fyrir framan nefið á okkur; af því að það er verið að redda hlutunum. Af því að skammtímalausnir eru látnar ráða. 

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 01:17

2 identicon

Æji, kommon.  Þetta er pínu lítil kompa þar sem alltaf þurfti að breyta leikreglum svo við gætum spilað þar blak og körfu og svo framvegis. 

Sem emmerringur get ég ekki annað en fagnað.  Best væri nú samt bara að rífa kofann og byggja almennilegt bókasafn með tengibyggingu yfir í Íþöku. 

Erna (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 11:03

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Það kemur að því að það megi ekki farga venjulegu sorpi vegna menningarsögulegs gildis þess ef svona ofstopa verndunarfasismi á að vaða uppi. Hvert er sögulegt gildi húss sem upphaflega var byggt 1882 en búið er að endurbyggja tvisvar þannig að öllu upphaflegu byggingarefninu hefur verið fargað?

Er húsið enn byggt 1882? Var menningar- og sögulegum verðmætum kastað á glæ þegar fúasprekinu var fargað?? Er öxin hans afa enn öxin hans afa þegar búið er að skipta 6 sinnum um skaft og tvisvar um blað?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 1.6.2008 kl. 13:55

4 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ómar. Er þér hjaranlega sammála. Það hlýtur vera hægt að bjarga líkamsrækt MR inga á annan hátt en að skemma húsið að innan. Er til í baráttu með þér. Kom of seint inn í bráttuna gegn Kárahnúkavirkjun. Stoppum þetta. Pósturin minn er starf@heimsnet.is

Sigurður Þorsteinsson, 1.6.2008 kl. 14:29

5 Smámynd: Júlíus Valsson

Verndum íþróttahúsi M.R. og heiðrum um leið minningu Jóa Sæm.

Júlíus Valsson, 1.6.2008 kl. 16:06

6 Smámynd: Júlíus Valsson

"íþróttahús" auðvitað

Júlíus Valsson, 1.6.2008 kl. 16:07

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef ekki farið ofan í saumana á "helstu íþróttahetjum þjóðarinnar en man þó strax eftir þremur M.R. ingum sem voru í fararbroddi á gullaldarárunum í kringum 1950, Clausens-bræðrum og Herði Haraldssyni.

Ómar Ragnarsson, 1.6.2008 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband