11.8.2008 | 21:22
Rússnesk Súdetahéruð.
Eilífðarmál þjóðernisminnihluta eru flókin og oft erfitt að skera úr um réttmæti þess að í einu ríki eru slíkir hópar ekki taldir eiga rétt á sjálfstæði en í öðru ríki að eiga þennan rétt. Eftir fyrri heimsstyrjöldina var sett fram sú lausn og framtíðarsýn að fólk fengi að ráða þessu sjálft. Þetta gerðu íbúar Saar-héraðsins 1935 með atkvæðagreiðslu.
Hins vegar gátu þeir sem réðu ferðinni ekki alltaf sætt sig við þetta og Versalasamningarnir báru þess merki. Í Súdetahéruðunum í Tékkóslóvakíu voru þýskumælandi íbúar sem ekki fengu að vera í þýska ríkinu vegna þess að þá voru landfræðileg landamæri Tékkóslóvakíu óverjandi hernaðarlega og Frakkar töldu mikilvægt að Þýskaland væri umkringt ríkjum sem væru með eins sterka hernaðarlega stöðu gagnvart Þjóðverjum og unnt væri.
Fjöllin voru því látin ráða. Þetta nýtti Hitler sér og æsti Súdetaþjóðverja upp þangað til menn stóðu frammi fyrir því haustið 1938 að láta Evrópustyrjöld skella á eða að gefa eftir að leyfa Súdetaþjóðverjum að sameinast Stór-Þýskalandi, sem þá hafði innlimað Austurríki með glæsilegum fagnandi mannfjölda við innreið Hitlers í Vínarborg.
Chamberlain sagði þegar hann undirritaði friðarssamkomulag í Munchen sem fól í sér innlimun Súdetahéraðanna í Þýskaland: "Hve hræðilegt, hrikalegt og ótrúlegt væri það ef við færum að grafa skotgrafir og setja á okkur gasgrímur vegna deilna i fjarlægu landi milli fólks sem við þekkjum ekki."
Chamberlain hefur réttilega verið álasað fyrir það að hafa misreiknað sig gróflega þegar hann hélt að með þessu hefði hann "tryggt frið um okkar daga" með hinu illræmda rsamkomlagi. Þvert á móti gaf þetta Hitler byr undir báða vængi við þá iðju sína að gera samningana á blaðinu, sem Chamberlain veifaði við heimkomuna, ekki pappírsins virði.
Samt var Chamberlain aðeins að uppfylla þá göfugu hugsjón Wilsons Bandaríkjaforseta að þjóðarbrot fengju að ráða sjálfir hvar í ríki þau skipuðu sér.
Öll sagan síðan sýnir hve erfitt það er í raunveruleikanum að setja eina reglu sem gildir um öll svona deilumál.
Þjóðverjar uppskáru svo beiskan ósigur og skömm í stríðslok að nánast þegjandi og hljóðlaust sættu allir sig við það að um 14 milljónir manna voru neyddar til að flytja frá átthögum sínum í Evrópu eftir stríðið til þess að skapa friðvænlega tíð.
Dæmi um þetta er Austur-Prússland þar sem þýskt fólk, sem hafði búið þar mann fram af manni í aldir, var neytt til brottfarar og þetta svæði gert að hluta Rússlands sem á ekki einu sinni landamæri að því landi sem það er hluti af. Engu hefur samt dottið í hug að breyta þessu til baka.
Baskaland? Kosovo? Suður-Ossetía? Abkasía? Kúrdistan? Hver af þessum svæðum eiga rétt á að vera sjálfstæð ríki? Öll? Engin? Sum? Og þá hver?
Pólitík er skrýtin tík og alþjóðapólitík sýnist oft kolrugluð tík.
![]() |
Rök Rússa sömu og Hitlers" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.8.2008 | 12:42
Dýrasti vegarkafli landsins.
Vegarkaflinn milli Hveragerðis og Selfoss stefnir í að verða jafn illræmdur og slysakaflarnir við Kúagerði á Reyknanesbraut og í Norðurárdal í Skagafirði voru. Gerður hefur verið kaldur útreikningur á því að hvert mannslíf sem glatist í slys,i kosti þjóðfélagið hátt í 200 milljónir króna. Kostnaður vegna örkumla og áverka eru eftir því.
Þá er ekki metið til fjár tilfinningalegt og andlegt tjón.
Vegurinn Hveragerði-Selfoss er því að verða dýrasti vegarkafli landsins vegna þess að menn telja of dýrt að lagfæra hann!
Ég þurfti að aka þennan vegarkafla á fornbíl um daginn og sums staðar reyndist hraði minn ekki nægur þegar ökumenn þurftu að komast fram úr mér.
Þessi vegarkafli sker sig hins vegar úr á leiðinni frá Reykjavík austur á Selfoss hvað það snertir að vegaröxlin er ónothæf alla leið til þess að víkja fyrir framúrakandi umferð. Það er raunar engin vegöxl !
Bíllinn sem ég var á er líklegast mjósti bíll landsins og þarf því lítið rými til að víkja. En þetta rými er bókstaflega ekki neitt, einmitt á þeim kafla þar sem mest þörf er fyrir það.
Raunar er öll leiðin austur til skammar hvað þetta snertir því að nothæfir kaflar til að nota vegöxlina eru fáir vegna þess að vegagerðin virðist ekki hafa neinn áhuga á að halda vegöxlunum við eða hafa þær nothæfar, þar sem þær þó eru.
Ef maður víkur út á öxlina má maður hvenær sem er búast við því að aka fram á grófa möl eða skorninga og getur slíkt út af fyrir sig valdið slysum, því að í sumum tilfellum verður ökumaður sem ekur úti á öxlinni, að gefast fyrirvaralaust upp og víkja sér inn á veginn í veg fyrir umferðina sem þar er.
Það er með ólíkindum að í áætlunum um tvöföldun Suðurlandsvegar skuli áætlað að þessi versti vegarkafli verði lagaður síðast. Þessu verður að breyta og tvöfalda kaflann milli Hveragerðis og Selfoss þegar í stað.
Á meðan beðið er eftir því má prófa að lækka hámarkshraðann. Ef hann verður minnkaður niður í 80 km munu menn aðeins tefjast um rúma mínútu á þessari leið, en um 2,5 mínútur ef hraðinn verður lækkaður niður í 70 km.
Ég held að það ætti að lækka hraðann fyrst niður í 80 og sjá til. En svona lækkun er til lítils ef ekki fylgir því eftirlit og þess vegna held ég að númer eitt ætti að vera að setja sérstaklega fé í það að koma tafarlaust á eftirliti með því að gildandi hraðatakmörk, hver sem þau eru, svo og aðrar umferðarreglur, séu haldin.
Þetta kostar peninga en þeir eru smámunir miðað við kostnaðinn af slysunum á dýrasta vegarkafla landsins.
![]() |
Harður árekstur á Suðurlandsvegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)