17.8.2008 | 20:47
Stalín er ennþá hér.
Frægasti Georgíumaður allra tíma er Jósef heitinn Stalín. Hann tók þennan uppruna sinn greinilega alvarlega því hann innlimaði héruðin, sem nú er mest deilt um, inn í Georgíu og við erum ekki enn búin að bíta úr nálinni með það.
Hér um árið var sett á svið í Reykjavík leikritið Stalín er ekki hér, en í Georgíu er sannarlega hægt að segja: "Stalín er ennþá hér." Jón Björgvinsson fréttaritari útvarpsins, sem er í Tblisi, spurði nokkurra forvitnilegra spurninga í hádegisfréttum vegna þess uppátækis forseta Georgíu að senda herlið inn í Suður-Ossetíu.
Gerði hann þetta vegna þess hve hann er óreyndur og áttaði sig ekki á afleiðingunum?
Gerði hann þetta til þess að fylkja þjóðinni á bak við sig og láta erfið mál, sem hafa ógnað völdum hans, hverfa í skuggann?
Gerði hann þetta vegna þess að það gæti þrýst á það og flýtt fyrir því að Georgía kæmist inn í NATÓ, samanber ummæli Merkel nú?
Gerði hann þetta vegna þess að Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna hvíslaði einhverju í eyra hans?
Er þetta liður í klækjastjórnmálum í aðdragandi forsetakosninga í Bandaríkjunum þar sem varaforsetinn á þátt í því að koma af stað atburðarás sem komi sér vel fyrir frambjóðanda Republikanaflokksins?
Þegar mönnum finnst einkennlegt og lykta af vænisýki þegar Rússar ásaka Bandaríkjamenn fyrir að vera á ógnandi hátt að umkringja þá ættu menn að líta til fortíðarinnar þar sem Rússar gátu sannanlega sagt að þennan leik væri verið að leika gagnvart þeim.
Í fyrra skiptið var það Adolf Hitler sem leynt og ljóst stefndi að umkringingu með því að gera bandalag við nágrannaþjóðir Rússa, Ungverjaland, Júgóslavíu, Rúmeníu og Búlgaríu að vestanverðu og Japani að austanverðu. Samvinnan byggðist á því að Þjóðverjar sendu hermenn inn í þessi lönd við vesturlandamæri Rússa með samþykki ráðamanna.
Að vísu var þeim sem sömdu um bandalag við Hitler í Júgóslavíu steypt af stóli daginn eftir, en
fengu í staðinn yfir sig "Bestrafung" eða refsingu, miskunnarlausar loftárásir og hernám.
Stalín var eftir á sakaður um að hafa verið of andvaralaus yfir því hvernig nasistar færðu sig sífellt upp á skaftið í bakgarði Sovétríkjanna, enda hefði tilgangurinn komið í ljós í innrásinni Barbarossa, mestu innrás allra tíma.
Þessi umkringing öxulveldanna kostaði ca 20 milljónir Sovétmanna lífið og slíku gleyma þjóð, sem fyrir því verður, ekki svo fljótt.
Seinni umkringingin átti sér stað á árunum 1949-1963 með stofnun NATÓ að vestanverðu og SEATÓ í suðaustanverðri Asíu og var John Foster Dulles utanríkisráðherra Bandaríkjanna helsti smiður þeirrar stefnu. Segja má að þeirri umkringingu hafi endanlega lokið í Kúbudeilunni 1963 þegar Bandaríkjamenn kváðust ætla að hætta við að setja upp eldflaugastöðvar í Tyrklandi í skiptum fyrir flutning á rússneskum eldflaugum frá Kúbu. (Raunar höfðu Bandaríkjamenn hvort eð er verið búnir að hætta við eldflaugarnar í Tyrklandi en settu málið svona upp svo að Krjústsjoff gæti bjargað andlitinu heima fyrir.)
Það má ekki bara horfa á aðra hliðs málsins og einblína á grimmd Rússa í átökunum nú og í Tsetseníu og að stjórnarfarið í landinu hneigist í alræðisátt heldur er engu að síður nauðsynlegt að reyna að skilja tilfinningar og gerðir þeirrar þjóðar sem andspænis NATO- útþenslunni stendur.
Þótt okkur finnist fráleitt að líkja saman umkringingu Hitlers og því sem er að gerast núna á vestur- og suðvesturlandamærum Rússland, finnst Rússum það greinilega ekki.
Í þeirra augum er hernaðarlega það sama að gerast 2008 og 1940-41, - voldug þjóð í vestrinu myndar bandalag við þjóðir í bakgarði Rússlands og sendir hermenn þangað.
Vonandi verður sá leikur að eldinum sem hófst með aðgerðum Georogíumanna og hefur síðan verið svarað með stigmögnuðum hernaðaraðgerðum Rússa ekki til þess að atburðarásin fari úr böndunumm.
![]() |
Georgía getur gengið í NATO" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.8.2008 | 02:53
Hallbjörn, dæmi um frumkvæði.
Hallbjörn Hjartarson er gott dæmi um það hverju aðeins einn maður getur orkað í sveitarfélagi sínu. Ekki er að efa að hefði hann átt heima á Blönduósi hefðu kántrísafn þar, kántríútvarpsstöð og kántríhátíð dregið að sér margfalt fleira fólk en á Skagaströnd því það munar miklu að vera í alfararleið.
En Hallbjörn hefur haldið tryggð við sína heimabyggð og smám saman hefur fólk áttað sig á því að það sem hann gerir og hefur gert er ekkert til að breiða yfir heldur þvert á móti að kunna að þakka það.
![]() |
Kántrýdagar fara fram á Skagaströnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.8.2008 | 00:43
Fyrir fjórtán árum í Kópavoginum.
Hið breska mál um hávaðakynlífið er ekkert nýtt fyrir Íslendinga. 1994 kom upp sams konar mál í blokk í Kópavoginum, og þurfti ekki drynjandi tónlist til að gera allt vitlaust, parið sá sjálft um að halda vöku fyrir blokkaríbúum heilu næturnar að sögn með óhljóðum úr eigin börkum. Málið fjaraði út en þó minnir mig að það hafi ekki verið fyrir atbeina dómsvaldsins.
Á sínum tíma afgreiddi ég málið með eftirfarandi stöku:
Þau listdans í lostanum stíga.
Hann lætur ei deigan síga
tímunum saman, -
tryllt er það gaman,
en þarf maðurinn aldrei að míga?
![]() |
Bannað að heimsækja kærustuna vegna hávaðakynlífs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)