Er Geir Haarde genginn í Vinstrigræna?

Sá í gær í 24 stundum brot úr bloggpistli Sigurjóns Þórðarsonar þar sem spurt var hvort ég væri genginn í Samfylkinguna. Ég var úti á landi þegar bloggpistill þessi birtist upphaflega og sá hann ekki fyrr í gær, þegar hann þótti svo merkilegur að hann dúkkaði upp í 24 stundum.

Þetta er furðuleg spurning, einkum vegna þess að Íslandshreyfingin getur sem stjórnmálaflokkur með ekki talist eiga svipaða aðild að meiri- og minnihlutum í Reykjavík eins og til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn á að bæjarstjórn Mosfellsbæjar.

Samkvæmt áliti lagaprófessors, sem ég leitaði til, á Íslandshreyfingin ekki lagalega aðild að F-listanum í Reykjavík vegna þess Íslandshreyfingin var ekki til þegar kosið var og listinn borinn fram. Prófessorinn sagði að ef laganemi spyrði sig nánar um álit á þessu myndi hann ráðleggja honum að bera þessa spurningu upp í guðfræðideild!

Ég gekk því ekki í Samfylkinguna við það að Ólafur F. og Margrét gengu til samstarfs við Dag, Svandísi og Óskar í Tjarnarkvartettinum og ég varð hvorki félagi í Sjálfstæðisflokknum né í Samfylkingunni þegar Ólafur F. gekk til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn í meirihluta og Margrét hélt áfram samstarfi sínu við Samfylkinguna í minnihlutanum.

Geir Haarde gekk ekki í flokk Vinstrigrænna vegna samstarfs Sjálfstæðismanna við Vinstrigræna í Mosfellsbæ og á sama hátt gekk Steingrímur J. Sigfússon ekki í Sjálfstæðisflokkinn.

Er þetta ekki nógu skýrt? Þarrf að spyrja frekar og þurfti yfirleitt að spyrja?


Bakgrunnur sem ekki má gleymast.

Kínverjar sýndu mátt sinn og megin sem þeir byggja á metnaði fjölmennustu þjóðar heims sem reist hefur veldi sitt á grunni stórfenglegrar fornaldar frægðar. Sem merk þjóð áttu þeir það skilið og þjóðarstolt þeirra og samheldni vegna leikanna er skiljanleg.

En athyglin að því sem þessi uppgangur byggist á má ekki slævast. Í lítilli frétt að morgni s.l. fimmtudags greindi frá því að í Kína væri leyfilegt að mótmæla, - allir gætu sótt um leyfi til þess.

Slík leyfi væru hins vegar nær aldrei veitt heldur væri viðkomandi kippt út úr samfélaginu. Tugþúsundir slíkra væru á "endurhæfingarhælum." Mótmælendur væru einfaldlega sviptir því litla frelsi sem þeir höfðu og þeir fjarlægðir.

Þetta má ekki gleymast. En það má heldur ekki gleymast hvernig við Íslendingar tókum þátt í þessu með Kínverjum á sínum tíma þegar Falun Gong-fólk vildi komast til Íslands.

Á Íslandi var gengið enn lengra en í Kína að því leyti til að því var slegið föstu fyrirfram að þetta fólk myndi mótmæla. Enn auðveldara var fyrir Íslendinga en Kínverja að fjarlægja þetta fólk og koma í veg fyrir hugsanleg mótmæli þess með því einfaldlega að meina því að koma til landsins. Samkvæmt landslögum okkar hafði það leyfi til að mótmæla en í raun var því bannað það fyrirfram.

Endurhæfingarhælin voru flugstöðvarnar í Evrópu þar sem það var stöðvað og endurhæfingarmeðferðin fólst í þeim lærdómi sem það átti að draga, - að kúgunin á sér engin landamæri.


mbl.is Ólympíuleikunum slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurtekning á Kennedy/Johnson - Nixon.

Í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum 1960 háði John F. Kennedy harða baráttu í forkosningum við Lyndon B. Johnson og hafði betur. Kennedy þótti glæsilegur og aðlaðandi boðberi nýrra tíma og kynslóðaskipta en Nixon hafði verið varaforseti Eisenhowers, fulltrúa hins gamla tíma.

Johnson var alger refur og snillingur í að nota þingið sér og sínum málum til framdráttar.

Reynsluleysi Kennedys í utanríkismálum þótti hans helsti veikleiki en baráttan við Johnson hafði hins vegar verið hörð og gagnkvæm andúð ríkti alla tíð á milli Kennedybræðra og Johnsons.

En þrátt fyrir þetta bað Kennedy Johnson um að verða varaforsetaefni sitt og réði þar mestu að reyndari og öflugri mann í viðskiptum við þingið var ekki að fá.

Kennedy var, eins og Obama nú, ásakaður um að hafa með þessu vali dregið úr trúverðugleika þess að hann væri sannur boðberi nýrra tíma. En hann var líka tortryggður vegna reynsluleysið og dæmið með Johnson gekk upp, - naumlega þó. Nixon gat ekki lengur hamrað eins og áður áhættunni sem væri fólgin í því að velja reynslulítinn forseta.

Reynsla Johnsons í þinginu kom sér vel eftir kosningar, en þó aldrei eins vel og þegar hann varð sjálfur forseti, því að það má þessi refur eiga að hann kom mun fleiri mannréttinda- og réttindamálum í gegn á sinni forsetatíð en nokkrum forseta Bandaríkjanna hefur tekist.

Nú er bara að sjá hvort svipað gerist nú þegar æskan og glæsileikinn taka höndum saman við reynsluna og yfirvegunina.


mbl.is Obama leiðir naumlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin skömm að tapa fyrir svona liði.

Enginn er betri en mótherjinn leyfir. Þetta orðtak á við um íslenska liðið. Það er enginn skömm að tapa fyrir franska liðinu, sem var einfaldlega besta liðið á leikunum.Íslenska liðið gerði sitt besta og aðeins betur ef það var það sem þurfti og ekki er hægt að ætlast til meira.
mbl.is Töpuðum ekki gullinu heldur unnum silfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það gengur enn betur næst!

Einu sinni varð mér það á í beinni útsendingu að segja setninguna "það gengur betur næst" og var merking þess misskiin af þeim sem á hlýddu. En síðan hefur þetta verið mottó mitt í lífinu því að setningin þýðir þrennt mikilvægt: 1. Viðurkenning á því að öllu eru takmörk sett. 2. Að þrátt fyrir allt hefði mátt gera betur. 3. Að læra af reynslunni og stefna hærra á grundvelli fenginnar reynslu.

Strákarnir komust að vísu miklu lengra en hægt var að krefjast af þeim og eiga skilið þjóðhátíð á Íslandi. Árangur þeirra getur verið okkur öllum lýsandi fyrirmynd. Og eitt atriði er mikulvægt í þessu sambandi. Þegar staðið er á tindinum getur leiðin ekki legið annað en niður á við.

Það góða við silfrið er að enn hefur hæsta mögulega tindi ekki verið náð og enn er því möguleiki á að ná hærra.

Auðvitað má alls ekki taka þessum orðum mínum á þann veg að við eigum rétt á að heimta meira. Strákarnir gerðu hið ómögulega og við segjum öll: Takk, takk, takk!, - Vilhjálmur Einarsson og allir nýju silfurmennirnir!


mbl.is Íslendingar taka við silfrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sem betur fer engin Frakkagrýla.

Svíagrýlan magnaða lifði góðu lífi lengi vel þar til Alfreð Gíslason stýrði strákunum sínum til sigurs á henni á eftirminnilegan hátt. Íslendingar hafa tekið Frakka til bæna í boltanum og því ætti engin Frakkagrýla að trufla þá.

Í Spánverjaleiknum komust strákarnir upp með það að klúðra óvenjulega mörgum dauðafærum, Undir venjulegum kringumstæðum í jöfnum leik refsa bestu landslið heims grimmilega fyrir slíkt. Það gerðist ekki í leiknum sæla.

Björgvin Gústafsson varði ótrúlegustu skot og Logi Geirsson komst upp með djarfar skottilraunir.
En við skulum vona að allt þetta geti flokkast undir meistaraheppni og að í þessum síðasta leik Íslendinga á Ólympíuleikunum verði sú heppni Ólympíumeistaraheppni.


mbl.is „Ísland tekur Frakkar á bólið"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Usain Bolt, hvað nýtt og hvað ekki?

Usain Bolt er einstakur í því að setja heimsmet bæði í 100 og 200 metra hlaupi á Ólympíuleikum. Hins vegar er ekki rétt hjá DV í dag að hann sé einstakur í því að vinna bæði í 100 og 200 metra hlaupi. Það gerðu þeir Jesse Owens og Bobby Moorow 1936 og 1956 og bættu við sig gulli í 4x100 metra boðhlaupi. Owens sigraði auk þess í langstökki, hampaði gulli í fjórum greinum og átti heimsmet í þessum sömu greinum sem stóðu lengi.

Carl Lewis er hinn eini sem hefur leikið eftir Owens að vera besti spretthlaupari heims og besti langstökkvarinn á sama tíma.

Bolt er 1,96 m á hæð og þarf því færri skref en menn sem eru styttri. Hæð manna virðist þó ekki skipta öllu í þessu efni. Þegar heimsmet Jesse Owens var loks bætt um eitt sekúndubrot var annar þeirra, sem það gerði, Ira Murcison, aðeins 1,58 m á hæð.

Tíu árum seinna var það svo risavaxinn vöðvabolti, Bob Hayes sem færði metið niður í 10,0 sekúndur.

Bill Cosby sagði skemmtilega frá því hjá Jay Leno um daginn hvernig Murcison, þessi litli maður, vakti svo mikla athygli þegar hann hljóp, að Cosby, sem var lipur hástökkvari á yngri árum, setti persónulegt met með því að vera svo óheppinn að renna undir rána og lenda á dýnunni í keppni á móti þar sem Murcison var að hlaupa, en um leið var Cosby svo heppinn að allir voru að horfa á Murcison einmitt þá stundina, líka starfsmennirnir sem áttu að fylgjast með hástökkinu, og héldu því að Cosby hefði farið yfir!

Eftir allt var Cosby því heppinn að renna undir rána!

Á gullaldarárum spretthlauparanna hér heima á árunum 1947-51 gnæfði Hörður Haraldsson yfir aðra, 1,92 m á hæð.

Á þessum árum voru tveir Jamaíkumenn, Herbert MacKenley og Arthur Wint, bestu 400 metra hlauparar heims og Wint, var svipuð týpa og landi hans Bolt er nú.


Bloggfærslur 24. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband