"Stórasta land í heimi!" "We wus robbed!"

Stundum verða mismæli eða skökk orðanotkun fleygari en ef setningarnar hefðu verið rétt sagðar. Þetta á við um upphrópun forsetafrúarinnar í hita leiksins sem enn var ekki kólnaður eftir frækilegan sigur sem tryggði íslenska handboltalandsiðinu silfurverðlaun á Ólympíuleikunum. En meiningin var góð og falleg, hrifningin fölskvalaus og einlæg.

Alþýðleiki, hlýhugur, hreinskilni og einlægni eru aðalsmerki Dorritar og hafa hrifið íslensku þjóðina og þess vegna þykir okkur vænt um þetta atvik eins og hana sjálfa.

Svipað hefur gerst áður. Eftir bardaga Max Schmeling og Jack Sharkey um heimsmeistaratitilinn í hnefaleikum 1932 var mjótt á munum í úrskurði dómaranna þriggja. Tveir dæmdu Sharkey sigur en einn Schmeling. Joe Jakobs, snjall umboðsmaður Schmelings, varð æfareiður og hneykslaður þegar úrskurðurinn var kveðinn upp,- fannst hann greinilega lyikta af hlutdrægni gagnvart hinum þýska umbjóðanda sínum sem þarna hefði verið rændur sigri.

Jakobs hrópaði svo hátt að heyrðist í beinni útvarpsútsendingu beggja vegna Atlantshafsins: "We wus robbed!" sem hægt væri að þýða með orðunum "við var rændir!" "

Þetta urðu einhver fleygustu ummæli íþróttasögunnar og er oft vitnað til þeirra og þau jafnvel hrópuð upp enn í dag þegar úrskurðir þykja byggjast á hlutdrægni, svikum eða spillingu. Þau hefðu aldrei orðið svona fleyg ef Jakobs hefði einfaldlega hrópað: "We were robbed!"

Og hugsanlega hefðu ummæli Dorritar ekki náð því flugi sem þau hafa náð ef hún hefði hrópað: "Ísland er stærsta land í heimi!"

Hvort sem það er rétt eða rangt eru orðin "til Akureyris" eignuð Björgvini Halldórssyni og notuð á svipaðan hátt og setning Hallbjarnar: "Hér á landi á."

Þegar Marínó heitinn Ólafsson, stórskemmtilegur hljóðmaður Sjónvarpsins hér í den, vildi leggja áherslu á að eitthvað væri brallað í hljóðsetningu sem sjónvarpsáhorfendur gætu með engu móti fundið út að væri fólgið í tæknibrellu, sagði hann í hálfkæringi: "Það grunar engum neitt" með sérstakri áherslu á "engum".

Ég hef oft notað þetta síðan að gamni mínu en ævinlega greint frá uppruna notkunar þágufallsins til að útskýra notkun þess.


Fyrst REI-klúðrið og svo þetta.

Klúðrið vegna fyrirhugaðra kaupa OR á hlut Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesjar lyktar af því sama og gerst hefur áður í rekstri orkufyrirtækja. Tekin er áhætta með fjármuni og eignir almennings þar sem mál geta endað með vandræðum. Orkuveita Reykjavíkur er ekki fyrsta fyrirtækið sem sett hefur verið í þessa stöðu.

Þegar ákveðið var að rannsaka ekki fyrirfram með borunum það sjáanlega misgengissvæði, sem bora þurfti jarðgöng í gegn milli Kárahnjúka og Fljótsdals, var það að sögn fjölmiðlafulltrúa virkjunarinnar látið ógert vegna þess "að við ætluðum þarna í gegn hvort eð var."

Þetta reyndist langdýrasti, erfiðasti og tafsamasti hluti gangagerðarinnar og munaði litlu að það tækist ekki. En í undirmeðvitund þeirra sem réðu ferð blundaði áreiðanlega vissan um það að þjóðin myndi borga hvert það tjón sem af þessu hlytist. 

Ég hafði um það heimildir á sínum tíma um að á tíunda tímanum einn morgun á árinu 2005 hefði þurft að koma með hraði á neyðarsímafundi milli fjármálaráðuneytisins og Landsvirkjunar til að ganga frá því fyrir klukkan tíu að redda sjö milljörðum króna með bankaláni sem bauðst á ofurvöxtum.

Í kosningabaráttunni 2007 gafst mér tækifæri til að sitja fund Viðskiptaráðs þar sem einn ræðumanna rakti með óhrekjandi tölum hvernig Landsvirkjun hefði sannalega verið rekin á gersamlega óviðunandi hátt árin á undan. Fjölmiðlafulltrúi Landsvirkjunar sat líka fundinn en gat ekki svarað þessari ádeilu.  


mbl.is Um milljarður í dráttarvexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gildi hins persónulega.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fær rós í hnappagatið frá mér og fleirum fyrir það hvernig hann hefur tekið á máli Pauls Ramsesar. Ráðherra hefur vafalaust haft það í huga í upphafi að lögin eru fyrir fólkið en ekki öfugt.

Þetta mál hefur orðið svo stórt í hugum fólks vegna þess að það er svo persónulegt, - við þekkjum öll orðið þessa fjölskyldu, - þau eru "hæfilega fá". Kann að hljóma ankannalega en það er ekki trygging fyrir því að við skynjum mikilsverð mál að það séu margir sem þeim tengist, einhver nafnlaus fjöldi.

Til dæmis var vitað að sex milljónir Gyðinga hefðu verið drepnir í Helförinni en við gátum ekki skynjað það til fulls fyrr en gerð var sjónvarpsþáttaröð um afmarkaða fjölskyldu, sem lenti í Helförinni og við kynntumst fjölskyldumeðlimunum persónulega á skjánum heima í stofum okkar og voru sett í þeirra spor.

Annað dæmi er Geysis-slysið. Hvers vegna er það enn svo ljóslifandi í hugum þeirra sem fylgdust með því? Ég var aðeins níu ára en þetta slys er mér efst í huga af atburðum þessara ára nær 60 árum síðar.

Ég hygg að svarið liggi í því að þau, sem saknað var og jafnvel talin af en síðar bjargað á dramatískan hátt, voru "hæfilega fá", - nógu fá til þess að allir lærðu nöfn þeirra og kynntust kjörum þeirra hvers um sig og vandamanna þeirra. Þar með var þetta mál orðið eins og eigið fjölskyldumál.

Björn Bjarnason er maður skipulagðra vinnubragða og afkasta, en jafnframt vandvirkni. Hann hefur vafalaust lagt talsverða vinnu í þetta mál sem á yfirborðinu virðist aðeins snerta tvær manneskjur.

Björn þarf ekki að sjá eftir því að hafa lagt vinnu og tíma í það því að það eykur okkur öllum skilning á því að rétt eins og við skynjum heiminn út frá okkur sjálfum sem eintaklingar, snerta öll mál fjöldans hvern og einn einstakling sem því tengist og að því leyti skiptir fjöldinn ekki máli.


mbl.is Grátið af gleði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband