"Stórasta land í heimi!" "We wus robbed!"

Stundum verða mismæli eða skökk orðanotkun fleygari en ef setningarnar hefðu verið rétt sagðar. Þetta á við um upphrópun forsetafrúarinnar í hita leiksins sem enn var ekki kólnaður eftir frækilegan sigur sem tryggði íslenska handboltalandsiðinu silfurverðlaun á Ólympíuleikunum. En meiningin var góð og falleg, hrifningin fölskvalaus og einlæg.

Alþýðleiki, hlýhugur, hreinskilni og einlægni eru aðalsmerki Dorritar og hafa hrifið íslensku þjóðina og þess vegna þykir okkur vænt um þetta atvik eins og hana sjálfa.

Svipað hefur gerst áður. Eftir bardaga Max Schmeling og Jack Sharkey um heimsmeistaratitilinn í hnefaleikum 1932 var mjótt á munum í úrskurði dómaranna þriggja. Tveir dæmdu Sharkey sigur en einn Schmeling. Joe Jakobs, snjall umboðsmaður Schmelings, varð æfareiður og hneykslaður þegar úrskurðurinn var kveðinn upp,- fannst hann greinilega lyikta af hlutdrægni gagnvart hinum þýska umbjóðanda sínum sem þarna hefði verið rændur sigri.

Jakobs hrópaði svo hátt að heyrðist í beinni útvarpsútsendingu beggja vegna Atlantshafsins: "We wus robbed!" sem hægt væri að þýða með orðunum "við var rændir!" "

Þetta urðu einhver fleygustu ummæli íþróttasögunnar og er oft vitnað til þeirra og þau jafnvel hrópuð upp enn í dag þegar úrskurðir þykja byggjast á hlutdrægni, svikum eða spillingu. Þau hefðu aldrei orðið svona fleyg ef Jakobs hefði einfaldlega hrópað: "We were robbed!"

Og hugsanlega hefðu ummæli Dorritar ekki náð því flugi sem þau hafa náð ef hún hefði hrópað: "Ísland er stærsta land í heimi!"

Hvort sem það er rétt eða rangt eru orðin "til Akureyris" eignuð Björgvini Halldórssyni og notuð á svipaðan hátt og setning Hallbjarnar: "Hér á landi á."

Þegar Marínó heitinn Ólafsson, stórskemmtilegur hljóðmaður Sjónvarpsins hér í den, vildi leggja áherslu á að eitthvað væri brallað í hljóðsetningu sem sjónvarpsáhorfendur gætu með engu móti fundið út að væri fólgið í tæknibrellu, sagði hann í hálfkæringi: "Það grunar engum neitt" með sérstakri áherslu á "engum".

Ég hef oft notað þetta síðan að gamni mínu en ævinlega greint frá uppruna notkunar þágufallsins til að útskýra notkun þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Marinó var hreinn snillingur. Man  þegar hann hann var að hljóðsetja  síðbúnar fréttamyndir í beinni útsendingu úr gamla "dubbing" stúdíóinu og  var með  segulbandslykkju sem lá yfir   að minnsta kosti tvo  stóla  frammi á gangi og   svo í  afspilarann. Það  grunaði  engum neitt !!!  s  Góður  drengur Marinó .Blessuð sé minning hans.

Eiður (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 21:01

2 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Mér þykir óskaplega vænt um Dorrit, sérlega af því hún talar með hjartanu.

Úrsúla Jünemann, 26.8.2008 kl. 21:05

3 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Inntak þessarar færslu er að mínum dómi þess efnis, að sjálfur vildi kveðið hafa.

Hlynur Þór Magnússon, 26.8.2008 kl. 21:32

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég geymi í farteski mínu nokkrar ótrúlegar sögur af Marínó sem ég þarf sem fyrst að fara skrá niður svo að það fari í ekki í glatkistuna.

Ómar Ragnarsson, 26.8.2008 kl. 22:24

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

She is our fairy queen,
married to Mister Bean,
she is so nice,
better than Rice,
the beautifuliest I have seen.

Þorsteinn Briem, 26.8.2008 kl. 22:46

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Marinó var ein stærsta og mesta manneskja sem ég hef kynnst um ævina.

Lára Hanna Einarsdóttir, 27.8.2008 kl. 01:31

7 identicon

Hver sagði nú þetta "I´m so sad that I could spring" (ég er svo saddur að ég gæti sprungið)

Það er nú orðið mjög frægt í minn fjölskyldu þegar ég sagði einhvertímann að ég og maðurinn minn værum með sameiginlegan "FJÁRGANG" en ekki fjárhag!

Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 27.8.2008 kl. 13:30

8 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Svo er sagt, að Benedikt G. Waage, þáverandi forseti ÍSÍ, hafi ávarpað Bretakonung í London 1948: "How do you do, mister king".

Ágúst Ásgeirsson, 27.8.2008 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband