28.8.2008 | 06:25
Afrek sem ekki mega gleymast, 1950 og 2009.
Glæsileg og eftirminnileg þjóðhátíð sem náði hámarki í gærkvöldi með orðuveitingu í gærkvöldi mun lifa í sögu þjóðarinnar. Silfurverðlaun smáþjóðar í flokkaíþrótt á Ólympíuleikum er heimsviðburður í íþróttum. Einu sinni áður hefur þjóðin þó átt álíka stóran hóp íþróttamanna sem vann afrek sem varla verður endurtekið af nokkurri smáþjóð. Það var árið 1950.
Frjálsar íþróttir eru samkvæmt hefð aðalgrein ÓL og einhver fjölmennasta íþróttagrein heims. Aldrei hefur smáþjóð náð svipuðum árangri á Evrópumeistaramóti í þeirri grein og 1950. Íslendingar áttu hóp frjálsíþróttamanna þetta sumar sem var með kandídata fyrir tólf verðlaunapeninga á þessu móti, þar af sjö gullverðlaun.
Þetta var í þremur af fimm spretthlaupagreinum, þremur af fjórum stökkgreinum og einni kastgrein.
Heim kom hópurinn með þrjá gullpeninga, tvö gull og eitt silfur. Þrír peningar náðust ekki vegna þess að viðkomandi keppendurnir gátu aðeins keppt í einni grein. Einn keppandinn fékk ekki að keppa í grein sem hann náði í besta tímanum í Evrópu þetta sumar.
Keppni í langstökki og stangarstökki fór fram á sama tíma og Torfi Bryngeirsson valdi aukagrein sína, langstökk og vann gull í henni en varð að sleppa aðalgrein sinni, stangarstökkinu.
Örn Clausen valdi aðalgrein sína, tugþrautina og vann silfur, en varð að sleppa að keppa í langstökki og 110 metra grindahlaupi þar sem hann átti möguleika á verðlaunum. Örn var í hópi þriggja bestu tugþrautarmanna í heimi í þrjú ár í röð. Hann varð að keppa á óhentugum lánsskóm vegna þess að skór hans urðu eftir á Reykjavíkurflugvelli.
Haukur Clausen varð fimmti í aukagrein sinni, 100 metra hlaupi, hársbreidd frá bronsinu, en fékk ekki að keppa í aðalgrein sinni, 200 metra hlaupi., í hverri hann náði besta tíma í Evrópu það árið og setti Norðurlandamet sem stóð í sjö ár.
Hörður Haraldsson hafði unnið Hauk hér heima en tognaði og komst ekki á mótið.
Ásmundur Bjarnason átti möguleika á bronsi í 200 metra hlaupi en varð fimmti.
Skúli Guðmundsson hefði átt góða möguleika á gulli í hástökki en komst ekki á mótið, líklegast af fjárhagslegum ástæðum.
Hársbreidd munaði að Guðmundur Lárusson hreppti brons í 400 metra hlaupi.
Boðhlaupssveitin í 4x100 komst í úrslit og átti ágæta möguleika á bronsi.
Gunnar Huseby sigraði í kúluvarpi og kastaði 1,5 metrum lengra en næsti maður!
Árið eftir vann þessi hópur Dani og Norðmenn í einni og sömu landskeppninni.
Sjá menn fyrir sér að hægt verði að endurtaka þetta? Sú skýring stenst ekki að Íslendingar hafi notið aðstöðumunar vegna afleiðinga heimsstyrjaldarinnar. Á Íslandi var aðstaða til æfinga sú lélegasta í Evrópu, sumarið styst og kaldast og æft inni á veturna í húsum á borð við hið agnarsmáa ÍR-hús.
Örn Clausen hafði aðeins aðstöðu til að keppa einu sinni á hverju sumri í tugþraut. Miðað við nýja stigatöflu, sem skilaði Erni í þriðja sæti á heimslistanum 1950, hefði Örn unnið gullið í Brussel, en þar var keppt eftir gömlu töflunni.
Innflutningshöft og fjárskortur ríktu. Torfi var svo heppinn að vinna í hlutkesti par af nýjustu gerð af hlaupaskóm, sem KR-ingum fengu innflutningsleyfi fyrir. Örn keppti í kastgreinum í skóm Jóels Sigurðssonar sem voru þremur númerum of stórir.
![]() |
Orðuveiting á Bessastöðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)