5.8.2008 | 10:45
"Í upphafi skyldi endinn skoða."
Þetta gamla máltæki er í fullu gildi hvað snertir orkuöflun, orkudreifingu og orkunotkun og nauðsynlegt að skoða þessi mál í samhengi. Í löggjöf ýmissa landa erlendis eru meira að segja ákvæði um að innifalið í mati á umhverfisáhrifum sé mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna sjálfra meðan á þeim stendur, þ. e. gerð mannvirkjanna á byggingartímanum.
Þar getur verið um að ræða mikil áhrif sem aðeins eiga sér stað á meðan mest er umleikis en geta valdið varanlegum neikvæðum áhrifum. Þeir sem andæfa skipulagðari, framsýnni og heildstæðari vinnubrögðum virðast gera það í þeirri von að frekar hægt að komast upp með hvað sem er ef málin eru skoðuð sem minnst og sem dreifðast svo að sumt dettur upp fyrir og annað uppgötvast ekki fyrr en of seint.
Í ferðum mínum um Leirhnjúks-Gjástykkissvæðin hef ég fundið fjölmörg sláandi dæmi um þetta sem ég mun fjalla nánar um þegar ég hef tekið það saman.
Dæmi um að í upphafi skyldi endinn skoða er það að ef öll fáanleg orka á Íslandi verður virkjuð fyrir álver skapast aðeins störf í álverunum fyrir 2% af vinnuaflinu í landinu. Augljóst er að slíkt leysir engan atvinnuvanda þótt mest sé gumað um það af því af virkjanafíklunum.
![]() |
Formsatriði ráða niðurstöðunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (54)
5.8.2008 | 00:23
Kemst blæjubíllinn næst hestunum?
Ég uppgötvaði á föstudag að ég þyrfti sem skjótast að fara eina hraðferð enn á Leirhnjúks-Gjástykkissvæðið til taka viðbótarmyndir sem skjótast á Leirhnjúkssvæðinu og bæta í safn mitt. Hækkun bensínverðs hefur bitnað mjög hart á fluginu og því varð sparneytnasti, ódýrasti og einfaldasti bíll, sem völ er á, fyrir valinu, - Fiat 126.
Þetta var í fyrsta skipti sem ég fer svo langa ferð á opnum blæjubíl og í svo misjöfnu veðri, því að það voru skúrir og úði á köflum í ferðalaginu. Auk þess var lofthitinn dottinn niður um allt að 15 stig. En ferðalagið kom mér mjög á óvart því að ýmsar gamlar hugmyndir mínar eins og þær að opnir bílar nýtist ekki við íslenskar aðstæður vegna kulda og vætu, reyndust vera byggðar á fordómum.
Í fyrsta lagi var ekki kalt þótt ekið væri í þaklausum og opnum bílum báðar leiðir, því að miðstöðvarloftið myndaði kyrrt, hlýtt loft bak við framrúðuna og mælaborðið. Framrúðan heitir vindhlíf eða windshield á ensku og hún er það. Í öðru lagi kastaði framrúðan regnvatninu aftur fyrir bílinn þannig að allt var þurrt bæði í fram- og aftursætum. Hún reyndist því líka regnhlíf.
Svona bíll er í raun vélknúið smátjald eða tjaldvagn. Á tjaldstæði í Vallhólmanum, skammt frá Varmahlíð, var hægt að tjalda blæjunni yfir og sofa vært í góðum hita í afturhallandi ökumannssætinu í nótt, því að hægt er að tjalda blæjunni á tvennan hátt á þessum bíl, bæði ná í fullri hæð yfir bæði fram- og aftursæti en einnig hafa fulla hæð einungis yfir framsætinu og minnka þannig svo mjög svefnrýmið, að maður heldur á sér hita líkt og í svefnpoka.
Eftir að óhjákvæmilegt varð að nota hjálma á vélhjólum missa vélhjólamenn möguleikann á að vera í sólbaði á þeysum sínum. Á svona örbíl er maður hins vegar úti í sólskininu og jafnvel léttklæddur eins og á hesti.
"Og golan kyssir kinn" líkt og segir í ljóðinu, þetta er dásamlegur ferðamáti, - allt er svo bjart og ferskt. Fyrir bílstjórana fyrir aftan mann er ekki hægt að hugsa sér betri farkost til að horfa fram yfir, því að sjónlína þeirra liggur í gegnum framrúðuna eina og engin yfirbygging skyggir á á opnum bíl.
Á reiðhjóli hleypir maður að vísu sjálfum sér og golan kyssir kinn, en það að hleypa á skeið á opnum blæjubíl eins og á hesti er líklega það næsta sem hægt er að komast því að endurlifa gömlu hestaþeysudagana í sveitinni í gamla dag.
Meira en þúsund kílómetra hraðferð á opnum bíl: Tóm hamingja!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)