Kemst blæjubíllinn næst hestunum?

Ég uppgötvaði á föstudag að ég þyrfti sem skjótast að fara eina hraðferð enn á Leirhnjúks-Gjástykkissvæðið til taka viðbótarmyndir sem skjótast á Leirhnjúkssvæðinu og bæta í safn mitt. Hækkun bensínverðs hefur bitnað mjög hart á fluginu og því varð sparneytnasti, ódýrasti og einfaldasti bíll, sem völ er á, fyrir valinu, - Fiat 126.

Þetta var í fyrsta skipti sem ég fer svo langa ferð á opnum blæjubíl og í svo misjöfnu veðri, því að það voru skúrir og úði á köflum í ferðalaginu. Auk þess var lofthitinn dottinn niður um allt að 15 stig. En ferðalagið kom mér mjög á óvart því að ýmsar gamlar hugmyndir mínar eins og þær að opnir bílar nýtist ekki við íslenskar aðstæður vegna kulda og vætu, reyndust vera byggðar á fordómum.

Í fyrsta lagi var ekki kalt þótt ekið væri í þaklausum og opnum bílum báðar leiðir, því að miðstöðvarloftið myndaði kyrrt, hlýtt loft bak við framrúðuna og mælaborðið. Framrúðan heitir vindhlíf eða windshield á ensku og hún er það. Í öðru lagi kastaði framrúðan regnvatninu aftur fyrir bílinn þannig að allt var þurrt bæði í fram- og aftursætum. Hún reyndist því líka regnhlíf.  

Svona bíll er í raun vélknúið smátjald eða tjaldvagn. Á tjaldstæði í Vallhólmanum, skammt frá Varmahlíð, var hægt að tjalda blæjunni yfir og sofa vært í góðum hita í afturhallandi ökumannssætinu í nótt,  því að hægt er að tjalda blæjunni á tvennan hátt á þessum bíl,  bæði ná í fullri hæð yfir bæði fram- og aftursæti en einnig hafa fulla hæð einungis yfir framsætinu og minnka þannig svo mjög svefnrýmið, að maður heldur á sér hita líkt og í svefnpoka.

Eftir að óhjákvæmilegt varð að nota hjálma á vélhjólum missa vélhjólamenn möguleikann á að vera í sólbaði á þeysum sínum. Á svona örbíl er maður hins vegar úti í sólskininu og jafnvel léttklæddur eins og á hesti.

"Og golan kyssir kinn" líkt og segir í ljóðinu, þetta er dásamlegur ferðamáti, - allt er svo bjart og ferskt. Fyrir bílstjórana fyrir aftan mann er ekki hægt að hugsa sér betri farkost til að horfa fram yfir, því að sjónlína þeirra liggur í gegnum framrúðuna eina og engin yfirbygging skyggir á á opnum bíl.

Á reiðhjóli hleypir maður að vísu sjálfum sér og golan kyssir kinn, en það að hleypa á skeið á opnum blæjubíl eins og á hesti er líklega það næsta sem hægt er að komast því að endurlifa gömlu hestaþeysudagana í sveitinni í gamla dag.

Meira en þúsund kílómetra hraðferð á opnum bíl: Tóm hamingja!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar,

Hárrétt ad lítill opinn bíll er nánast trygging fyrir akstursgledi (og thad jafnvel thó hægt sé farid).

Sjálfur ek ég daglega Citroen bragga til og frá vinnu (90km hvora leid!) og kollegarnir stórøfunda mig í hvert sinn sem sólin gægist fram.  Thá rúllar madur toppnum aftur (eins og loki á sardínudós) og nýtur nátúrufegurdarinnar í stadinn fyrir ad bølva ødrum vegfarendum. 

Reyndar verd ég ad geta thess ad thar sem ég bý í Danmørku er vedurfarid øllu stødugra en á Fróninu.  En thad er einmitt eini gallinn vid thetta allt saman.  Ad hafa ekki Esjuna og Akrafjallid i panoramaútsýni.

Og thegar theyst er af stad á morgnana um 6:30 leytid, er hitastigid oft ekki yfir 10 grádum.  En thad gerir bara ekkert til, thvi vélin í vidunrinu er loftkæld, svo ekki skortir á heita loftid i farthegarýminu...

 Hlakka mikid til thegar ég flyt aftur á Frónid og tek vidundrid med, thad verdur yndislegt!

Birgir Birgisson (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 07:13

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég er haldinn sömu fordómum og þú. Blæjubílar eru allt í lagi fyrir Sunnudagsrúnta á sólardegi, en ekki fyrir daglega notkun. Eftir að hafa lesið færsluna langar mig að prófa. Samt er ég ekki viss um að Holland sé rétta landið. Hér er maður yfirleitt fastur í umferðarsultu, svo ef að rignir verður maður sennilega blautur. Kannski er það hugmynd að fá sér bíl með rafmagnsblæju, svo hægt sé að skella henni upp ef byrjar að rigna.

.

Annars er það skemmtileg tilviljun að færslan fjallar um blæjubíla og fyrsta athugasemdin kemur frá eiganda Bragga. Ég rambaði á skemmtilegan bíl fyrir stuttu. Hann heitir Burton og er kit fyrir Citroen 2CV. Þar sem boddíið er úr trefjaplasti er bíllin mjög léttur, sparneytinn og sprækur. Væri gaman að leika sér með svona einhvern daginn. Hægt er að sjá hann hér: http://www.burtoncar.com/

Villi Asgeirsson, 5.8.2008 kl. 10:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband