6.8.2008 | 23:21
Ekki fyrsta tilraunin.
Siglingarnar milli lands og Eyja, sem nú er verið að rannsaka, minna mig á tilraun sem við gerðum fyrir mörgum árum, Ragnar Bjarnason og ég, til að komast til Eyja til að skemmta þar, með því að sigla frá ströndinni út í Eyjar á vélbáti frá Eyjum. Ekki var um aðra möguleika að ræða vegna veðurs, ófært til flugs og áætlun Herjólfs passaði okkur ekki.
Gera átti tilraun til að sigla bátnum upp í ós Hólsár fyrir austan Þykkvabæ. Báturinn var með fullkomlega löglegan björgunarbúnað fyrir okkur og sjávaraldan komst ekki inn í ósinn. Skemmst er frá því að segja að þessi tilraun mistókst algerlega og báturinn komst ekki til okkar inn ósinn.
Hann sigldi því til Þorlákshafnar ef ég man rétt (eða var það Stokkseyri eða Eyrarbakki?) og síðan var siglt til Eyja.
Mig grunar að menn hafi leitað margra ráða í gegnum tíðina til að komast þessa leið og að það hafi ekki alltaf verið gæfulegar aðferðir sem mönnum datt í hug. Ég segir frá þessu til að vara menn við því að reyna að framkvæma svona tilraun aftur. Hér gildir hið fornkveðna að kóngur vill sigla en byr verður að ráða.
![]() |
Lögregla rannsakar siglingar til Eyja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.8.2008 | 14:16
Kirkjugrið íþróttanna.
Úr Íslandssögunni þekkjum við það þegar menn flúðu í kirkju sem griðarstaðar þar sem ekki mætti beita ofbeldi eða vopnum. Í nútímanum hafa íþróttaleikvangar veraldar verið griðastaðir fyrir keppnisfólk sem vill koma saman og etja kappi í drengilegum leik þar sem stjórnmálaátök eru utan vallar og íþróttafólk frá öllum þjóðum er hlutgengt.
Það hafa verið undantekningar. Á leikunum 1936 í Berlín heilsuðu keppendur frá þremur þjóðum þáverandi þjóðhöfðingja Þýskalands, Adolf Hitler, með nasistakveðju. Þeir sem þetta gerðu hafa síðan setið uppi með skömmina.
1956 vantaði keppendur frá Ungverjalandi á Ólympíuleikana í Melbourne vegna innrásar Sovétmanna í Ungverjaland. Þetta var slæmt en ekkert við því að gera. Besta knattspyrnulandslið heims tvístraðist og keppti ekki. Þá var alræðisstjórn í Sovétrikjunum sem fótumtróð mannréttindi þegna sinna og réðst inn í nágrannaríki en samt kepptu íþróttamenn frá Sovétríkjunum á þessum leikum eins og öðrum leikum frá og með 1952.
1992 gátu íþróttamenn frá Júgóslavíu ekki verið með vegna sundrungar ríkjanna, sem höfðu myndað ríkið. Fyrir bragðið komust íslenskir handboltamenn inn í stað Júgóslavíu.
1980 sniðgengu Bandaríkjamenn leikana í Mosvku á þeim forsendum að Sovétmenn hefðu ráðist inn í Afganistan og hrakið Talibana frá völdum. Í ljósi sögunnar sést hvað þetta var hæpið vegna þess að rúmum 20 árum síðar réðust Bandaríkjamenn ásamt fleirum inn í Afganistan til að hrekja Talibana frá völdum.
1984 svöruðu Sovétmenn fyrir sig með því að sniðganga leikana í Los Angeles.
Keppendur frá Suður-Afríku voru utangarðs lengi vel meðan kynþáttaðskilnaðarstefna stjórnarinnar ríkti þar. Rökin fyrir þessu keppnisbanni voru meðal annars þau að þessi aðskilnaðarstefna mismunaði íþróttamönnum innan Suður-Afríku og það stríddi gegn Ólympíuhugsjóninni.
1968 mótmæltu tveir bandarískir hlauparar á verðlaunapalli kynþáttamisrétti í landi sínu með því að reiða krepptan hnefa á loft þegar þjóðsöngurinn var spilaður. Síðan hefur sem betur fer ekkert svipað gerst við verðlaunaafhendingar.
Ég tel að mótmæli af þessu tagi eigi ekki heima á íþróttaleikvöngunum. Ef svo væri myndi stefna í algert óefni. Spánskir keppendur eða hverjir sem væru gætu til dæmis mótmælt fyrir hönd Baska og hægt væri að hafa uppi hvers kyns mótmælaaðgerðir aðrar.
Öðru máli gegnir um hefðbundnar mótmælaaðgerðir utan íþróttanna og íþróttavallanna, svo framarlega sem þær trufla ekki mótshaldið sjálft eða eyðileggi þá stemningu griða og friðar sem er grunnur allra íþróttasamskipta.
Sovétríkin héldu Ólympíuleika í Moskvu 1980 og flestar þjóðir heims, þar á meðal Íslendingar, sendu þangað keppendur. Það breytti ekki því að þvílík harðstjórn og kúgun ríkti í Sovétríkjunum að full þörf var á berjast gegn því, - utan íþróttanna.
![]() |
Mótmælendur handteknir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
6.8.2008 | 11:26
Loforð Íslendinga um "sveigjanlegt umhverfismat."
Ýmsir undrast þann óróa sem hefur gripið stóriðjusinna vegna ákvörðunar umhverfisráðherra um vandað og heildstætt mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka og tengdri orkuöflun. En þessi ótti er skiljanlegur hjá þeim sem hafa í meira en áratug vanist hugsunarhættiinum í frægu ákalli íslenskra stjórnvalda til álrisa heimsins, sem Andri Snær Magnason afhjúpaði eftirminnilega í Draumalandinu.
Í þessu makalausa bænar- og betliskjali, sem sendur var til erlendra stórfyrirtækja, var þeim boðið fylrir hönd Íslendinga "lægsta orkuverð" og "sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum" sem ekki þyrfti að hafa áhyggjur af eins og það var orðað.
Ég hef setið á fundum með fulltrúum fyrirtækja sem telja sér hag í því að fá á sig græna ímynd. Forráðamenn þessara fyrirtækja vilja helst tengja þau við vönduð vinnubrögð, þar með talin vandaðar aðferðir við mat á umhverfisáhrifum ef raska þarf náttúruverðmætum.
En virkjanaframkvæmdafíklarnir eru ennþá bundnir í þá hugsun bænar- og betliskjalsins fræga að sé erlendum fyrirtækjum ekki boðið upp á "sveigjanlegt umhverfismat" fælist þau frá framkvæmdum hér á landi. Þessir stóriðjuframkvæmdafíklar vilja greinilega laða hingað þau erlend fyrirtæki sem annars leituðu til fátækra og vanþróaðra þjóða þar sem ekki þarf að hafa áhyggjur af af því að taka tillit til umhverfismála eða skoða aðra möguleika til landnýtingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)