7.8.2008 | 13:16
Slysin í íþróttasögunni.
Það slys í íþróttasögu Íslands að feðgarnir Arnór og Eiður Smári skyldu aldrei leika saman í landsleik minnir mig á annað slys, sem kom að ofan 1950 þegar Haukur Clausen fékk ekki að keppa í bestu grein sinni, 200 metra hlaupi, á EM í Brussel. Hann varð samt fimmti í 100 metra hlaupi á mótinu og náði eftir mótið besta árangri í Evrópu í 200 metra hlaupi á móti í Svíþjóð.
Þar setti hann Íslandsmet sem stóð í 27 ár og Norðurlandamet sem stóð í sjö ár. Nánar er fjallað um þetta í bókinni Mannlífsstiklur. Tveimur árum siðar var Örn bróðir Hauks settur í keppnisbann, sem síðar var úrskurðað að hefði verið ólögmætt en þá var það of seint og þeir tvíburabræðurnir hættir keppni vegna þessara mála, aðeins 23ja ára gamlir.
Örn hafði þá verið þriðji besti tugþrautarmaður heims í þrjú ár og síðar kom í ljós að tviburabróðir hans hefði ekki getað orðið síðri tugþrautarmaður og ef þeir hefðu haldið áfram, var sá möguleiki alveg inni í myndinni að á verðlaunapalli á ÓL í Melbourne hefðu staðið tveir tvíburabræður. Þá hefðu þeir verið 27 ára gamlir, á þeim aldri þegar tugþrautarmenn eru að ná hámarki afreksgetu sinnar. Þeir hættu allt of ungir.
Þarna er kannski verið að spá of langt fram í tímann um hluti sem hvort eð er hefðu aldrei orðið að veruleika. Eftir stendur slysið 1950 og glæsilegur íþróttaferill þeirra tvíburabræðra sem á sér enga hliðstæðu í íþróttasögu heimsins.
![]() |
Eiður Smári: Ákvörðunin kom að ofan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
7.8.2008 | 12:50
Úreltar forsendur.
Það er nú að koma fram sem ég benti á í bókinni Kárahnjúkar- með og á móti, að komast hefði mátt af með lægri stíflur og minna miðlunarlón ef menn hefðu miðað við hlýnandi veðurfar og meira rennsli en samkvæmt forsendum um rennsli, sem byggjast á gömlum mælingum.
Það hefði þýtt minni leirfoksvandamál vegna þess að með því að hækka lónið til þess að vinna það upp sem tapaðist í miðlun við það að sleppa gerð Eyjabakalóns, var viðbótin við Hálslón að mestu á landi með mun minni halla en er neðar í lónstæðinu.
Stíflurnar þurftu ekki að vera svona háar og hefðu orðið ódýrari.
![]() |
Mikið innrennsli í Hálslón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.8.2008 | 11:23
Kjarnorkuúrganginn næst?
Í útvarpsfrétt um olíuhreinsistöðvar á dögunum benti talsmaður olíufélags á að engin ný stöð hefði risið síðustu tuttugu ár vegna þess, eins og hann orðaði það "að það vill enginn hafa slíka stöð í bakgarðinum hjá sér." Í olíuríkinu Noregi eru aðeins tvær stöðvar, önnur hjá Bergen en hin fyrir sunnan Osló, en engin í ótal byggðarlögum norður eftir öllu þessu langa landi, þar sem byggðavandamálin eru hin sömu og hér á landi.
Talsmenn kjarnorkuendurvinnslustöðva fullyrða að þær séu ekkert óöruggari en olíuhreinsistöðvar og mengunarslys fátíðari en í olíuflutningunum sem fylgja olíuhreinsistöðvunum. Þeir sem vilja gera íslenskt dreifbýli að athvarfi fyrir olíuhreinsistöðvar geta alveg eins reynt að lokka til sín starfsemi sem tengist "hreinsun", varðveislu og úrvinnslu úr kjarnorkuúrgangi.
Eftir situr spurningin: Af hverju vilja Norðmenn ekki leysa byggðavanda sinn með því að fara þá leið sem sagt er að 99,9% líkur séu á að verði farin fyrir vestan? Ég fékk svarið á ferð þar í landi. Stöðvarnar tvær hjá okkur fylgdu á sínum tíma með olíuvinnslunni. Fleiri reisum við ekki vegna hættu á olíuslysi og neikvæðrar ímyndir fyrir landið og hinar dreifðu byggðir þess sem fylgja myndi slíkum stöðvum.
Sem hreinust og óspilltust ímynd Noregs skapar okkur velvilja, viðskiptavild og ferðamannatekjur sem við viljum ekki hætta á að skemma.
![]() |
Olíuhreinsistöð: Umhverfismat er næsta skref |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)