Lög-óregla.

Ég sagði frá því í bloggpistli um daginn að á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar ríkti hættuástand í klukkustund í hádeginu einn daginn vegna þess að umferðarljósin voru óvirk. Lögreglan var látin vita af þessu en þótt harður árekstur yrði fljótlega af þessum sökum á gatnamótunum og aftur væri hún beðin um að koma og afstýra fleiri slysum, kom hún ekki og var því svarað til að enginn gæti farið í þetta útkall, þeir hefðu enga menn í það.

Þetta eru flókin gatnamót með hraðri umferð sem kemur að gatnamótunum úr fjórum áttum eftir meira en tuttugu akreinum en svarið sýnir að í þessu tiltekna hádegi þurfti lögreglan líklega að sinna enn brýnni útköllum ef hún hefur þá getað sinnt þeim heldur vegna manneklu. ´

Er einhver þarna úti sem syngur kannski:

"Ekki benda á mig, segir ráðherrann.

Í þessu hádegi var ég að reka annan lögreglustjóra....

 

eða....

....í þessu hádegi var ég að æfa með sérsveitinni."

            


mbl.is Mulið undir Ríkislögreglustjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stál og hnífur.

Seint verður fólk á eitt sátt hvar eigi að draga mörkin fyrir eign tækja og tóla. Allir mega eiga stóra búrhnífa og syngja "stál og hnífur er merki mitt..." en eign byssunnar, hins skæða stáls, er hins vegar takmörkuð með lögum. "Byssurnar drepa engan heldur mennirnir sem beita þeim" er algeng röksemd þeirra sem vilja sem minnstar takmarkanir á byssueign.

Á bannárunum var saknæmt að eiga bruggtæki (öðru nafni "búsáhöld") og frá einum bruggaranum er komin röksemdin að alveg eins væri hægt að kæra hann fyrir nauðgun eins og brugg því hann "ætti tólin."

Morðin í Finnlandi sýna hins vegar nauðsyn þess að draga einhvers staðar línu. Búrhnífurinn og byssa veiðimannsins eru nauðsynleg áhöld, að ekki sé nú talað um hin holdlegu "tól", en erfitt er að rökstyðja að bruggáhöld og áhöld til fíkniefnaneyslu séu nauðsynjavörur.  


mbl.is Brottrekstrarsök að eiga tólin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breyttir tímar.

Ég bloggaði um það um daginn að Valdi koppasali gæti blómstrað ef hann flytti austur í Skriðdal. Þar er annar af tveimur malarvegaköflunum á leiðinni kringum landið og þar tapaði ég tveimur hjólkoppum um daginn. En ef ég hefði verið á nýjum bíl hefði ég engum koppum tapað því að bæði stálfelgur og álfelgur á nýjustu bílum eru ýmist þannig að hjólkoppa er ekki þörf eða að kopparnir eru skrúfaðir fastir.

Ég vil þakka Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur fyrir skemmtilega frétt um Valda. Hugsanlega er þar tilefni til stuðnings við einstakt safn hans og viðfangsefni, sem er tákn um þá gömlu tíma þegar vegirnir og hjólabúnaður bíla sáu til þess að ævinlega var nóg af koppum við vegarbrúnir landsins.  


mbl.is Koppabransinn riðar til falls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laun þrautseigjunnar, verðskulduð þökk.

Það er kalt á toppnum, sama hver hann er. Eiður Smári Guðjohnsen hefur fengið að kenna á því. Hann er undir smásjá fylgismanna liðs hans á Spáni og hann er undir smásjá okkar hér heima á skerinu sem hann fór frá til að sækja fram á því sviði þar sem augljósir hæfileikar hans nytu sín.

Tugmilljónir drengja um allan heim verða að láta sér nægja að dreyma um að verða knattspyrnustjörnur. Það þarf sterk bein til að þola bæði frægð og frama en ekki síður mótlætið. Öll erum við mannleg með kostum okkar og göllum, ávinningum og mistökum, Eiður Smári jafnt sem við hin.

Eiður er gagnrýndur harðlega þegar eitthvað bjátar á eða hann stenst ekki grimmar kröfur um að sýna gargandi snilld í hverjum leik. Að ekki sé nú talað um umtalið þau tímabil sem hann verður að þrauka á bekknum leik eftir leik og vita ekki hvort eða hvenær kemur til hans kasta. 

Þá vill gleymast að svo margir afreksmenn eru í liði Eiðs að þeir verða flestir að sætta sig við það sama og hann. 

Enn og aftur vísa ég til Muhammads Alis, sem talinn er mesti þungavigtarhnefaleikari allra tíma og jafnvel mesti íþróttamaður allra tíma,þótt hann tapaði fyrir Joe Frazier, Ken Norton, Leon Spinks, Larry Holmes og Trevor Berbick.

Síðustu tveimur bardögunum tapaði hann kominn langt  á leið ofan af toppi líkamlegrar getu og haldinn Parkinsonveiki.

Hann barðist þrívegis við Frazier og Norton og lauk viðureignunum við báða með tölunni 2 vinningar gegn einum, Ali í vil.

Á tindi getu sinnar 1967 hefur Ali vafalaust verið besti þungavigtarhnefaleikari allra tíma. En það eitt hefði aldrei nægt til að skipa honum á þann stall sem hann er nú.

Því veldur sá eiginleiki sanns meistara að kunna að vinna úr ósigrum sínum og veikleikum og eflast við það. Viðbrögð við ósigrunum og mótlætinu segja meira um mannkosti en viðbrögð við sigrum. Enginn kunni það betur en Ali, og síðustu árin á keppnisferlinum var það viljinn einn, kjarkur og óbilandi þrautseigja sem hélt honum á floti.

Ali segist nú heyja merkilegasta og mesta bardaga lífs síns, baráttuna við Parkinsonsveikina. Hann segir: Úr því að Guð úthlutaði þessu verkefni til mín lít ég á það sem áskorun sem mér sé ljúft, skylt og heiður af að fá að fást við. Ég vil ekki bregðast því trausti sem forlögin sýna mér með því að fela mér þetta erfiða verkefni."

Þetta hlýtur að vera fyrirmynd fyrir alla, hvort sem þeir eru íþróttamenn eða fást við annað. Kjarkur og þrautseigja, þolinmæði sem þrautir vinnur allar. Þess vegna tek ég undir þakkarorð Spánverjanna: Þakka þér, Eiður Smári! 


mbl.is Takk, Guddy
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flókin hröðun.

Athyglisverð var fréttin um í rússneskum leiðangri norðan Rússlands hefði mælst ört vaxandi uppstreymi metans úr hafinu, sem verður æ íslausara. Síðan búast menn við ekki síðra uppstreymi úr freðmýrunum þegar hlýnun loftslagsins bræðir frerann þar. Metan veldur fimmfalt meiri gróðurhúsaáhrifum en koldíoxíð og afleiðingin getur orðið æ hraðari hlýnun.

Fyrirbærið hlýnun lofthjúpsins er nokkuð flókið og það hringdu bjöllur hjá mér þegar kynnti mér sjónvarpsþátt um fyrirbæri sem kallað er "dimming" á ensku en ég lagði til að það yrði kallað rökkvun á íslensku. Rökkvunin, sem stafar af því þegar smáar agnir vegna bruna þyrlast upp í loftið hamla sólarljósinu för til jarðar, er umtalsverð en kólnunaráhrif þessara agna nægja samt ekki til að stöðva hlýnunina sem nú ríkir í lofslagi jarðarinnar. 

Ein þekktasta rökkvun sögunnar var af völdum Skaftárelda 1783 þegar létt og fíngerð aska þeyttist upp í hvolfið, byrgði fyrir sólu og olli kólnun um mestalla jörðina í nokkur ár.  

Bjöllurnar hjá mér hringdu því að hlýnunin bendir til þess þess að gróðurhúsalofttegundirnar hafi enn meiri áhrif en menn halda og að hlýnunaráhrif þeirra væru því ótrúlega mikil. Að þessu leyti er því hugsanlegt að rökkvunin hafi komið til bjargar til að varna því að hlýnunin verði allt of hröð, því að slíkt getur leitt til mikilla vandræða víða um lönd. 

Allt er best í hófi.  

Munurinn á rökkvun og áhrifum gróðurhúsalofttegunda er sá að gróðurhúsaáhrifin eru mun varanlegri.  


Bloggfærslur 25. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband