28.9.2008 | 03:29
Framararnir! Frækið lið!
Það er stutt síðan ég skrifaði bloggpistil með þessari yfirskrift, en það var þegar Fram vann FH og hleypti öllu í uppnám í deildinni. Þá héldu sumir að Fram hefði með þessu gagnast Keflvðíkingum einum, því enginn bjóst við að Fram gæti unnið tvö efstu liðin í deildinni og allra síst á lokasprettinum þegar toppliðin tjölduðu öllu sem til var.
En auðvitað gerði Fram ekki upp á milli toppliðanna heldur vann þau bæði og réði þar með úrslitum á toppnum auk þess að tryggja sér Evrópusæti.
Hvílík umskipti frá undanförnum áratug!
Keflvíkingar geta ekki sakað Framara um að hafa unnið með FH-ingum með frammistöðu sinni í dag fremur en FH-ingar voru súrir yfir því að Framarar tóku upp á því að vinna þá um daginn.
Sem Framari síðan ég var enn ófæddur óska ég mínum mönnum til hamingju með frábæran endasprett og karakter og vísa til baráttusöngsins sem ég birti um daginn.
![]() |
FH Íslandsmeistari 2008 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.9.2008 | 03:18
Talking lady, viðbótar"kóari."
Sagnir eru um íslenska blaðakonu, sem er mælsk mjög á íslensku en ekki síður á aðrar tungur. Er sagt að þegar spurt var um hana í löndum, þar sem hún hafði verið á ferð, hafi útlendingarnir, sem spurðir voru, svarað: "Do you mean the talking lady?"
Hún hefur komið mér í hug í síðustu tveimur ferðum mínum um Bandaríkin. Hingað til höfum við hjónin rætt um aksturinn og bestu akstursleiðir með aðstoð korta og ferðabóka og við höfum því verið nokkurs konar tveggja manna áhöfn líkt og í ralli.
En nú hefur bæst við nýr ferðafélagi með tilkomu GPS leiðsögutækjanna, sem hægt er að leigja með í ferð á bílaleigubílum. Að minnsta kosti köllum við Helga hana alltaf Talking Lady og dáumst að mælsku hennar og rökvísi.
Á leið og við settumst upp í bílinn í gærkvöldi til að aka til Yellowstone talaði Helga þannig um Talking Lady að ókunnugur á ferð með okkur hefði rekið í rogastans. Svona er þessi kona orðin sprellifandi i hugum okkar frá því í síðustu ferð.
Í stuttu máli sagt: Talking Lady er konan sem hefur ljáði GPS leiðsögutækjunum rödd sína. Og sú kona hlýtur að vera til einhvers staðar.
Ef ekki er farið að ráðum hennar út í hörgul verður hún stundum nær óðamála og stoppar varla við að heimta að beygt sé til hægri eða vinstri eða snúið við. Hún refsar okkur fyrir að fara ekki að ráðum hennar með því að lengja áætlaðan ferðatíma, sem birtist jafnharðan á skjánum, og lengir sömuleiðis vegalengdina, sem eftir er að aka, miskunnarlaust.
Þessi viðbótar aðstoðarökumaður eða "kóari" eins og stundum er sagt til styttingar, er sem sé ýtinn og neytir allra bragða við að ráða ferðinni.
Þeir sem eru einir í bíl gætu gætu vel farið að gera hana enn meira lifandi en hún er þegar orðin í huga okkar hjóna með því að pæla í því hvort sá tími muni koma að hún láti ekki nægja að fylgja einfaranum að húsinu eða hótelinu sem hann ætlar í, heldur áfram allt inn á herbergi.
Svona geta nú litlir hlutir orðið lifandi og skemmtilegir á ferðalögum. Ég hef meira að segja búið mér til í huganum mynd af því hvernig Talking Lady GPS-tækjanna lítur út. Næsta skref í gerð GPS-tækjanna er að maður sjái hana á skjánum um leið og hún malar og leiðir mann alla leið inn í rúm.
Bloggar | Breytt 29.9.2008 kl. 03:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)