Hraðaval fyrir vegina.

Á rúmlega þúsund kílómetrta langri ökuleið milli Denver og Yellowstone er ekið á mjög mismunandi vegum. Colorado og Wyomingríki eru Klettafjallaríki með krókótta og bratta fjallvegi í bland við beina vegi um flatar heiðar. Á þessari leið hefur skynsamlegt val á hámarkshraða vakið athygli okkar hjóna.

Á vegum sem svipar til meginhluta hringvegarins heima er hámarkshraðinn hér vestra sá sami og heima.

Um leið og vegurinn verður mjórri og krókóttari minnkar þessi hraði. En á breiðum köflum, sem svipar til nýjustu vegarkaflanna heima, svo sem í Norðurárdal í Borgarfirði og nafna hans í Skagafirði er hámarkshraðinn 65 mílur eða 105 kílómetrar/klst.

Þessi breiddarmunur á vegum er alveg lygilega mikið öryggisatriði vegna þess að á mjórri vegunum er miklu minna svigrúm fyrir mistök í akstrinum.  

Hér vestra hika menn ekki við að laga hámarkshraðann að aðstæðum. Ef ameríska aðferðin væri notuð heima myndi hraðinn milli Hveragerðis og Selfoss vera 80 km/klst, á nýjustu breiðu köflunum 100 km/klst og á tvöfaldri Reykjanesbrautinni 110 km/klst.

Í akstri um þvera og endilanga Svíþjóð virðist þetta vera svipað og í Bandaríkjunum. Á bestu vegum leyfa Svíar meiri hraða en Norðmenn en slysatíðnin er þó ekki hærri í Svíþjóð en í Noregi á sambærilegum vegum. Niðurstaða mín er: Sveigjanlegra hraðaval með tilliti til aðstæðna en nú tíðkast víða heima.

Sjálf hámarkshraðatalan skiptir ekki öllu máli heldur hvernig hún passar við aðstæðurnar.  


Er 150 % hærra verð eðlilegt?

Við Helga fórum í kjörbúð í smábænum West-Yellowstone í Montana í gærkvöldi. Þar keypti hún vinsælt bandarískt meðal á 2400 krónur og taldi sig hafa gert afar góð kaup vegna þess að þegar hún keypti nákvæmlega sama meðalið heima fyrir skemmstu, kostaði það rúmlega 6000 krónur.

Ljóst virðist að þessi mikli verðmunur liggi hjá heildsalanum því að heima var meðalið, sem ekki er lyfseðilskylt, keypt hjá Hagkaupum. Svipuð verðlagning á sér áreiðanlega stað hvað snertir margar fleiri vörur sem ekki eru inni í innkaupakörfunum heima. Ef vel ætti að vera þyrfti að skoða verðlagið á mörgum vörum í mörgum löndum en auðvitað er það ekki hægt.

Þess vegna er hægur leikur hjá innflytjanda að smyrja vel á. Doktor Gunni, hvað er til ráða?   


Kurlin og grafirnar.

Fjármálakreppan, sem nú skekur Bandaríkin og þar með allan heiminn, er þess eðlis íslenska orðalagið um að öll kurl séu komin til grafar á vel við. Það sér maður vel á fjölmiðlum á ferð hér vestra. Alveg frá því að fjölmiðlar fóru að kafa ofan í húsnæðislánasukkið í upphafi var ljóst að ferill peninganna, sem nú hefur komið í ljós var stóran part bara tölur í tölukerfum, var svo flókinn að nær engin leið væri að rekja það allt.

Þetta hefur komið enn betur í ljós síðustu daga. Af því má ráða að það sé mikill barnaskapur af ráðamönnum annarra þjóða að halda að auðvelt sé að sjá yfir hvað er að gerast og hvað muni geta gerst, - að sjá hvar áföllin dynja yfir og hvar þau muni síður dynja yfir.

Fundur flestra helstu ráðamanna þjóðar og fjármagns á sunnudagskvöldi og fram á aðfararnótt mánudags var ekkert annað en neyðarfundur, sem var haldinn vegna þess að aðgerðir mega ekki dragast stundinni lengur og hafa líklega þegar dregist of lengi.

Þetta minnir mig á neyðarfund, sem ég hef heimildir um að haldinn var á tíunda tímanum morgun einn þegar á byggingu Kárahnjúkavirkjunar stóð. Símatorg fjármálaráðuneytis og Landsvirkjunar logaði því að bjarga þurfti sjö milljörðum króna fyrir klukkan tíu, og ekki hægt að gera það nema með láni á óheyrilega háum vöxtum. Og það var keyrt í gegn. 

Nú er verið að tala um heildarupphæð allt að 8800 milljarða króna í potti skulda þjóðarinar. Ótal pípur fjármálastofnana og fyrirtækja liggja inn í þann pott og kannski var neyðarfundurinn, sem var nýlokið þegar þetta er bloggað vestur í Bandaríkjunum, um það að bjarga þurfti óheyrilega hárri fjárhæð fyrir klukkan níu í fyrramálið. Hver veit? Það er svo langt í frá að öll kurl séu komin til grafar.   


mbl.is Ráðamenn funduðu fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband