10.1.2009 | 22:15
Athyglisverð samtök í uppsiglingu.
Hagsmunasamtök heimilanna verða stofnuð í stofu 101 í Háskólanum í Reykjavík næstkomandi fimmtudagskvöld, - enn eitt dæmið um grasrótarsamtök utan þings sem sprottið hafa upp að undanförnu til að knýja á um nauðsynlegar umbætur og breytingar í íslensku samfélagi.
Íslandshreyfingin - lifandi land er grasrótarhreyfing utan þings sem finnur til mikillar samkenndar með þessum nýju samtökum og hagsmunir íslenskra heimila og fyrirtækja sem nú horfa fram á ástæður, sem verður að takast á við, eru stóra málið fyrir almenning um þessar mundir.
Í síðustu ályktun stjórnar Íslandshreyfingarinnar er ákall um tafarlausar aðgerðir áður en holskeflan skelli yfir. Það sem stjórnvöld hafa gert er alltof lítið og því þarf að mynda þrýsting á frekari aðgerðir með því að grasrótarsamtökin fari af krafti ofan í málin og taki foyrstuna um mótun aðgerða ef hin seinvirku stjórnvöld halda áfram að draga lappirnar.
Allar þessar hreyfingar eiga það sameiginlegt að berjast gegn þeirri skammsýni, skammgróðasjónarmiðum og tillitsleysi gagnvart komandi kynslóðum sem vaðið hefur uppi.
Íslandshreyfingin tók þetta upp fyrir kosningarnar 2007 sem baráttu fyrir siðbót í þessu efni.
Það hefur verið syndgað á ótal sviðum að þessu leyti, og til langs tíma litið verður tjónið mest hvað snertir eyðileggingu náttúruverðmæta landsins, því að það tjón verður aldrei hægt að bæta um þúsundir ára.
Nú eru uppi áform um enn frekari og skefjalausari ásókn en nokkru sinni fyrr og því aldrei brýnna en að standa vaktina um mestu verðmæti landsins en nú, bæði auðlindir og mannauð.
P.S. Er búinn þótt seint sé að leiðrétta villu sem var í upphaflega blogginu varðandi fundarstaðinn sem er Háskólinn í Reykjavík en ekki Háskóli Íslands.
![]() |
Fyrirtæki hanga í snöru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 13.1.2009 kl. 02:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.1.2009 | 21:59
Ekki ósvipað og í heimsstyrjöldinni.
Bæði Bretar og Þjóðverjar dreifðu flugmiðum yfir lönd hvorir annarra þar sem almenningur var varaður við afleiðingum þess að sýna mótþróa. Hvorug þjóðin lét þessar hótanir, eins og þessi skilaboð voru í raun, beygja sig.
Þjóðverjar beittu loftárásum í borgarastyrjöldinni á Spáni, samanber illræmd árás á Guernica og héldu að loftárásirnar í orrustunni um Bretland myndu knýja Breta til uppgjafar. Viðbrögð bresku þjóðarinnar urðu þveröfug.
Þjóðverjar notuðu hernaðarárásina "Bestrafung" eða Refsingu til þess að leggja Belgrad í rúst í apríl 1941 en gátu aldrei knúið þjóðina til uppgjafar því að skæruliðar héldu velli í fjalllendi landsinsog börðust allt til stríðsloka.
Hinar margfalt verri loftárásir bandamanna á Þýskaland breyttu ekki því að þar var barist löngu eftir að ósigur var óumflýjanlegur.
Eina dæmi þess að loftárásir hafi knúið þjóð til uppgjafar eru loftárásir Bandaríkjamanna á Japan frá maí til ágúst 1945, þegar þeir lögðu meirihluta bygginga í borgum Japans í rúst og beittu auk þess tvívegis kjarnorkusprengjum.
Aldrei hefur þó komið til þess almenningur hafi risið upp og kastað stjórnvöldum frá völdum. Ólíklegt er að almenningur á Gasa komi í veg fyrir starfsemi Hamas. Ástæðan er sú að fólkið lifir hvort eð er við óbærilegar aðstæður neyðar, skorts og vonleysis og finnst það ekki hafa neinu að tapa lengur.
Aukið mannfall óbreytra borgara, kvenna og barna á Gasa eykur aðeins á viðbjóðinn í þessum hernaðaraðgerðum Ísraelsmanna.
![]() |
Ísraelar vara við árásum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)