Akureyrarvígið fallið.

Ég þurfti að fara með 27 ára bíldruslu, sem þó er í góðu standi, í skoðun á Akureyri á föstudag. Ég hef notað þennan gjaldalausa fornbíll til að gripa í þegar ég er á ferð fyrir norðan í kvikmyndatökuferðum til að spara mér bílaleigukostnað.

Ég hafði talið þessum gamla bíl best borgið þar vegna þess að salt skemmdi ekki bíla eins fyrir norðan og hér fyrir sunnan.

En nú er þetta saltlausa vígi fallið og enda þótt reynt sé að halda saltaustrinum í hófi skilst mér að sjá megi á hemlabúnaði og öðrum hlutum bíla á Akureyri að saltið dreifist og hafi áhrif.

Sagt er að með notkun saltsins megi minnka svifryksmengun með því að nota ekki sand. Ég dreg þetta í efa og held að þetta sé enn eitt dæmið um það hve tregir menn eru til að viðurkenna hvað naglarnir valda mikilli svifryksmengun og slíta götunum að auki.

Auk þess er besta leiðin til að minnka svifryksmengunina að fjarlægja rykið.

Nú segja menn kannski: Hvað koma innabæjarmál Akureyringa Reykvíkingnum við ?

Því er til að svara að í mínum huga skipar Akureyri sama sess og Reykjavík. Um Akureyri gildir hið sama hjá mér og um Mosfellsbæ, Akranes, Hafnarfjörð, Breiðholt eða 101 Reykjavík, - þetta eru nú orðið hverfi á sama þéttbýlissvæðinu og minna en klukkustundar ferð á milli þeirra.

Þess vegna kemur Reykjavíkurflugvöllur Akureyringum við og söltun gatna á Akureyri mér við.


Fólkið sprettur upp og brillerar.

Það var mikill kraftur í troðfullu Háskólabíói í kvöld og svipað gerðist og hefur gerst í vetur, að nýtt fólk kom fram sem hingað til hefur ekki látið að sér kveða og flutti mergjaðar ræður með merkilegum upplýsingum í bland.

Við eigum mikinn mannauð og kannski verður kreppan til þess að stíflurnar rofni og krafturinn og hæfileikarnir spretti fram.

Nú sér maður og heyrir fólk rísa gegn þeirri þöggun og ótta sem ofríkisráðamenn þjóðarinnar komu á fyrir áratug og olli því að nær engir vísindamenn eða kunnáttumenn þorðu að koma fram með upplýsingar eða skoðanir sem ekki féllu í kramið.

Þessu kynntist ég vel í starfi mínu og fannst það umhugsunarefni að ástandið hér á landi væri svipað og það var í Austur-Þýskalandi að þessu leyti en bara miklu betur dulbúið.

Hefði betur gerst fyrr það sem nú er að gerast og það er dapurlegt að þyrfti slíkar og þvílíkar hamfarir í þjóðmálum til að rjúfa þöggunina.


Bara ef það hefði verið hægt að hvítskúra fleira.

Það hefði nú verið munur ef hægt hefði verið að hvítskúra allt sem gert hefur verið í þessu húsi undanfarin ár. Það hefði verið gott að geta skipt á þeirri hvítskúringu og þessari. En því miður er hætt við að enn eigi eftir að koma fram margt gerir hvítskúringu á stjórnleysi ráðamanna enn vonlausari en fyrr.
mbl.is Hvítskúrað stjórnarráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forystuþjónkun sjálfstæðismanna að minnka ?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson lýsti því einu sinni skemmtilega af hverju það væri svona miklu meira að gerast í flokkadráttum og félagsmálavafsltlri meðal vinstri manna en hægri. Sagði hann að hægri menn reyndu að komast hjá því að eyða of mikilli orku í slíkt og hölluðu sér frekar að sér og sínum við að framleiða og halda þannig atvinnulífinu gangandi.

Þetta kanna að vera skýringin á því af hverju Sjálfstæðisflokkurinn hefur notið meiri forystuhollustu en aðrir stjórnmálaflokkar. Félagarnir eru ánægðir með það að hafa fundið foringja og þjappa sér um hann.

Nú virðist meira að segja þetta höfuðatriði vera á undanhaldi og eru skrif Guðmundar G. Gunnarsson gott dæmi um það. Ef greining Hannesar Hólmsteins er notuð hlýtur þetta að vera dæmi um að langlundargeð flokksmanna sé á þrotum og að þeim sem "seinþreyttastir eru til vandræða" sé loks nóg boðið.

Það er engin furða. Hinn almenni flokksmaður verður nú óþyrmilega fyrir barðinu á mistökum flokksforystunnar og finnur það á pyngju sinni á hverjum degi að búið er að eyðileggja fyrir honum afraksturinn af viðleitni hans til að sjá sér og sínum farborða. Svo einfalt er það.


mbl.is Hagsmunaárekstur félags og flokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfugsnúin trú á "hagkvæmni stærðarinnar" ?

Lögmálið um "hagkvæmni stærðarinnar" á alls staðar við að því leyti til að flest starfsemi þrífst best og skilar bestu við ákveðna stærð rekstrareininga. Þetta fer þó algerlega eftir aðstæðum og hagkvæmni stærðarinnar þýðir ekki að því stærri sem rekstrareiningar séu, því betra.

Sovétmenn trúðu á hagkvæmni stærðarinnar í aðra áttina, það er: því stærra, því betra, - tóku jarðir af bændum og smöluðu þeim með valdi "alræðis öreiganna" inn í stór samyrkjubú. Afleiðingin varð skortur og sultur sem kostaði milljónir manna lífið.

Á síðustu áratugum Sovétríkjanna var matarskortur í landinu sem Hitler réðst inn í af því að það væri framtíðar matvælaforðabúr Evrópu.

Svo virðist sem heilbrigðisráðherra hafi smitast af þessum sovéska hugsunarhætti enda er komin "söguleg hefð" á það hjá Sjálfstæðisflokknum að beita tröllkarlalegum sovéskum lausnum á borð við Kárahnjúkavirkjun.

Nú má sjá í blöðum að skólabróðir minn Almar Grímsson hefur fengið upp í kok af þessum vinnubrögðum í flokki hans. Það er við hæfi að nota orðin "upp í kok" um það að leggja niður starfsemi við meltingarsjúkdómalækningar í Sankti Jósepsspítala, en ég hef persónulega reynslu af frábærri þjónustu og árangri á þeirri deild.

Ráðherrann leggur ekki fram nein gögn til að sanna mál sitt og hefur ekki samráð við neinn nema þá deild í Landsspítalanum í Reykjavík sem fá á þessa starfsemi til sín og samþykkir það auðvitað og styður að fá tryggingu fyrir auknum verkefnum og fjölda starfsmanna.

Lágmarkskrafan til ráðherra hlýtur að vera þessi: Gögnin á borðið og rökræður um þau áður en vaðið er áfram með offorsi.


mbl.is Samfylkingarfólk í Skagafirði mótmælir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband