Akureyrarvígið fallið.

Ég þurfti að fara með 27 ára bíldruslu, sem þó er í góðu standi, í skoðun á Akureyri á föstudag. Ég hef notað þennan gjaldalausa fornbíll til að gripa í þegar ég er á ferð fyrir norðan í kvikmyndatökuferðum til að spara mér bílaleigukostnað.

Ég hafði talið þessum gamla bíl best borgið þar vegna þess að salt skemmdi ekki bíla eins fyrir norðan og hér fyrir sunnan.

En nú er þetta saltlausa vígi fallið og enda þótt reynt sé að halda saltaustrinum í hófi skilst mér að sjá megi á hemlabúnaði og öðrum hlutum bíla á Akureyri að saltið dreifist og hafi áhrif.

Sagt er að með notkun saltsins megi minnka svifryksmengun með því að nota ekki sand. Ég dreg þetta í efa og held að þetta sé enn eitt dæmið um það hve tregir menn eru til að viðurkenna hvað naglarnir valda mikilli svifryksmengun og slíta götunum að auki.

Auk þess er besta leiðin til að minnka svifryksmengunina að fjarlægja rykið.

Nú segja menn kannski: Hvað koma innabæjarmál Akureyringa Reykvíkingnum við ?

Því er til að svara að í mínum huga skipar Akureyri sama sess og Reykjavík. Um Akureyri gildir hið sama hjá mér og um Mosfellsbæ, Akranes, Hafnarfjörð, Breiðholt eða 101 Reykjavík, - þetta eru nú orðið hverfi á sama þéttbýlissvæðinu og minna en klukkustundar ferð á milli þeirra.

Þess vegna kemur Reykjavíkurflugvöllur Akureyringum við og söltun gatna á Akureyri mér við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Það eru aðeins erfiðustu staðir sem fá á sig salt í hófi...brattar brekkur og erfið gatnamót.... og svo saltar Vegagerðin þjóðveg eitt að hringtorgi við Bykó og Drottningarbraut og Leiruveg að hluta....

Samtals er nákvæmlega útmæld vegalengd þar sem notaðar eru hálkuvarnir á Akureyri 6,5% af gatnakerfinu og það er tilraun til eins árs... eftir það kemur til greina að hætta þessu alveg...

það þýðir að 93,5% gatnakerfis Akureyrar er án hálkuvarna og það gengur bara nokkuð vel.

Naglar slíta götum miklu minna fyrir norðan er í Reykjavík einfaldlega af því á þeim liggur snjór og klaki mun lengur en fyrir sunnan.

Svifryk er ein alvarlegasta heilsuvá sem steðjar að íbúum þéttbýlis og skaðsemi þessi margfalt meiri en nokkurn grunaði fyrir nokkrum árum. Við höfum undirgengist alþjóðaskuldbindingar í umhverfismálum sem skylda okkur til að fækka dögum þar sem svifryk fer yfir vissan dagafjölda á ári og því miður eigum við langt í land með að uppfylla þau markmið og skuldbindingar. Hálkuvarnir er aðeins eitt atriði af ótalmörgum sem umhverfisnefnd Akureyrar hefur skipulagt til að ná tökum á þessu gríðarlega vandamáli og heilsuógn.

Fjarlægja rykið segir þú.... það er ekki hægt að sópa götur með götusópum hér fyrr en hitastig er komið vel yfir frostmark allt að 4 - 6 gráður því vatn gegnir lykilhlutverki við slíkt verk og það hefur þá náttúru að frjósa... og árangur af sópun enginn.. því miður er ekki oft hiti á köldustu mánuðum hér til að þetta sé hægt.

Jón Ingi Cæsarsson, 13.1.2009 kl. 00:00

2 Smámynd: Sigríður B Svavarsdóttir

Ómar! Ég las hér á bloggi þínu um mengunina á Akureyri í fyrra vetur: Þú lýsir því á mjög táknrænan hátt. Það voru sko orð að sönnu því það var ekki hægt að fara út úr húsi öðru vísi en að vera að kafna úr hósta.  Ég var lengi að átta mig á því af hverju ég gat ekki farið í göngutúra hér eins og á Blönduósi, en þaðan flutti ég hingað á Akureyri fyrir rúmum 19 mánuðum. Það var svo mikið svifrykið, að ég var veik bæði utan húss og  innan.  Allir gluggar voru svartir að innan um leið og opnað var fag. Í vetur er þetta allt annað líf. Nú er hægt að lifa hér eins og venjulegt fólk, opna glugga, og fara í göngutúra. 

Sigríður B Svavarsdóttir, 13.1.2009 kl. 00:12

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hérlendis hefur verið framkvæmd ein rannsókn á uppruna svifryks að vetrarlagi og þar kom eftirfarandi samsetning í ljós: Malbik (55%), bremsuborðar (2%), sót (7%), salt (11%) og jarðvegur (25%). Yfir 60% allrar mengunar hér að vetri skapast því vegna samgöngutækja og þar spila nagladekkin stórt hlutverk, þar sem þau rífa upp malbikið.

Þorsteinn Briem, 13.1.2009 kl. 00:49

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Loftgæði eru töluvert lakari nú en áður. Fyrir tæpum 30 árum flutti spúsa mín búferlum frá Þýskalandi til Íslands, m.a. vegna þess hve loftmengun var aðeins brot af því sem var í hennar gamla landi. Nú virðist þetta vera að snúast við.

Meðan unnið er margvíslega að draga sem mest úr mengun í Evrópu fer þróunin í verri áttina hjá okkur. Við innbyrðum meiri mengun m.a. vegna fjölgunar og stækkunar álvera, við erum með miklu dýrari og umfangsmeiri samgöngur og landflutninga en áður var með tilheyrandi vaxandi mengun. Og ekki má banna nagladekk eða leggja skatt á notkun þeirra. Og nú síðust misserin hefur vaxandi styrkur brennisteinssambanda í loftinu á höfuðborgarsvæðinu haft vaxandi vandræði meðal þeirra mörgu sem eru annað hvort með viðkvæma húð, augu og önnur skynfæri.

Mikilvægt er að efla sívöktun með mengun og fjölga mælingastöðvum. Er ein stöð nóg?

Við erum langt á eftir öðrum þjóðum að draga úr mengun. Og nú er Akureyrarvígið einnig fallið.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 13.1.2009 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband