16.1.2009 | 23:43
Neyddir til að drepa að minnsta kosti 300 börn.
Mann setur hljóðan við að heyra þann rökstuðning fyrir manndrápum og eyðileggingu Ísraelsmanna á Gasa að þeir séu neyttir til að drepa börnin þar.
Upphaflega var einn Ísraelsmaður drepinn í eldflaugaárás, en tólf ísraelskir hermenn munuu hafa fallið í herleiðangrinum.
Þegar hafa verið drepin 300 börn og líklega eru þúsundir slösuð, að ekki sé minnst á skelfinguna og sálartjónið sem börn almennt þurfa að líða á Gasa. Ekkert lát er á þessum hernaði og enginn veit hve mörg börn Ísraelsmenn telja sig þurfa að drepa í viðbót til að herinn geti snúið heim eftir "árangursríkan" herleiðangur.
Síðan á að senda sérstakan sendimann til Íslands til að réttlæta barnadrápin svo að hægt sé að halda þeim áfram í friði fyrir efasemdarröddum Íslendinga um þá "neyð" sem réttlætir svona viðbjóð.
P.S. Nú er barnadrápum Ísraelsmanna lokið og þeir segjast hafa náð þeim árangri, sem að var stefnt: Lokatölur: 410 látin börn.
![]() |
Heimsókn Ísraela til Íslands afþökkuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 18.1.2009 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
16.1.2009 | 23:24
Steingrímur J. vill persónukjör og afnám 5% reglu.
Í öllum umræðuþáttunum hjá fulltrúum flokkanna fyrir síðustu kosningar var aðeins einu sinni, svo ég muni, minnst í mýflugumynd á möguleikana á því sem er hægt að breyta strax í kosningalögum til að auka lýðræði.
Þegar ég vakti máls á þessu í umræðunum sagði Steingrímur að honum hefði að hefði fundist 5% markið of hátt í vinnslu málsins á þingi á sínum tíma.
Í Morgunblaðsgrein í dag tekur Steingrímur undir sjónarmið mín í grein í blaðinu viku fyrr og sömuleiðis undir hugmyndir um innleiðingu beins persónukjörs í formi þess að kjósendur raði sjálfir mönnum í sæti.
Þetta er gott en en atbeini VG er ekki nóg. Það eru stóru flokkarnir sem hafa ráðið þessari ferð fyrst og fremst vegna eigin hagsmuna og því verður fróðlegt að sjá hvort þeir ætla að hanga áfram á því eins og hundar á roði að engu megi breyta í þessa veru.
Auk þessara atriða minntumst við tveir á ástæðu til breytingar á kjördæmaskipuninni þar sem landið yrði annað hvort eitt kjördæmi eða í mesta lagi 2-3.
Ef ég man rétt minntist ég einnig á þann möguleika að skipta landinu í 10-20 einmenningskjördæmi og láta síðan landslista flokkana jafna muninn á kjörfylgi að baki þingfylgi.
Þessi tvö síðasttöldu atriði þarfnast hins vegar stjórnarskrárbreytingar. Slíkar breytingar og aðrar til að auka lýðræði og efla völd þingsins þurfa að ganga hratt fyrir sig í stað þess að dragast mörg ár á langinn.
Sérstakt stjórnlagaþing gæti verið lykillinn að slíkum umbótum sem nú er hrópandi nauðsyn á að hrinda í framkvæmd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.1.2009 | 13:22
Ólgusjór aðstæðna.
Oft hafa stjórnmálamenn notað það sem afsökun fyrir því að ekki sé hægt að hrófla við hlutunum að það fari á svig við lög, - "lögin leyfa það ekki", segja þeir. Þá tala þeir um lögin, sem þeir settu sjálfir, eins og einhver náttúrulögmál sett af Guði almáttugum.
Þannig er það auðvitað ekki. Komi í ljós að lögin sem þeir settu séu til trafala, eiga þeir auðvitað að breyta þeim, - til þess voru þeir kjörnir.
Einnig verður að líta til tilgangs laganna. Tilgangurinn með því ákvæði stjórnarskrár að ekki megi lækka laun forseta er sá að vernda hann fyrir hugsanlegu ofríki annarra sviða ríkisvaldsins. Engin lög banna það beinlínis að forseti hafi um það frumkvæði sjálfur að lækka laun sín og er það vel að núverandi forseti geri það.
Auk þess þarf að vera samræmi milli launa forsetans og annarra æðstu embættismanna. Fyrst rætt er um forsetann flaug mér í hug athyglisverður og skondugur samanburður.
Í athugasemd við aðra bloggfærslu rifjaði ég upp frægan þátt um bankana sem Ólafur stýrði og var svo magnaður, að ég valdi hann sérstaklega í 30 ára afmælisþætti Sjónvarpsins sem dæmi um fersk og beitt efnistök í þrumuþætti af því tagi sem vekur mikið umtal.
Í þættinum stillti Ólafur bankastjórunum upp í röð og notaði myndavélina til að sýna að því er virtist endalausar gluggaraðir í bankahöllunum. Meðal þeirra voru bankarnir á Laugavegi 77 og við Hlemmtorg. Þetta átti að sýna pólitískt bruðl og gagnrýnar spurningar Ólafs komu bankastjórunum í sjaldgæfa varnarstöðu.
En tíminn leið og margt breyttist.
Hætt er við að í dag þætti mörgum lítið koma til þessara "bankahalla" miðað við ósköpin sem hafa þotið upp á undanförnum árum þegar Ólafur, vegna stöðu sinnar, taldi sér skylt að mæra þessa "glæsilegu uppbyggingu, útrás og framtak." Við siglum um ólgusjó breyttra aðstæðna og það væri hægt að skemmta sér yfir því að birta myndir af núverandi bankahöllum og þeim sem voru hér fyrir 38 árum.
![]() |
Laun forseta verða lækkuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.1.2009 | 00:38
Mesta minnismerkjakynslóð Íslandssögunnar.
Engin kynslóð Íslandssögunnar hefur reist eins mörg og stór minnismerki um sjálfa sig og sú sem nú hefur ráðið ferð.
1. Káranjúkavirkjun. Byrjunin á minnismerkjagerðinni, þenslunni, bruðlæðinu, skammtímagræðginni, áhættufíkninni og tillitsleysinu gagnvart komandi kynslóðum. . Stærsta minnismerki sem nokkur kynslóð hefur reist og mun líklega geta reist á Íslandi. Mesta mögulega eyðilegging náttúruverðmæta landsins.
2. Tónistarhúsið. Átti að keppa við stórkostleg tónlistarhús í Kaupmannahöfn og Osló. Leysir þó ekki vanda óperunnar líkt og Ólafshöllin í Þrándheimi, sem kostaði brot af tónlistarhúsinu í Reykjavík. Í Ólafshöllinni er besta fáanlega aðstaða til bæði tónleikahalds og óperuflutnings. Þar eru ráðstefnusalir, hæfilega stór minni salur, hótel og verslunarmiðstöð. Þetta hús er hugsað sem fallegur og vistlegu framleiðslustaður menningar, ekki sem minnismerki, enda erfitt að finna það í miðborg Þrándheims. Þrándheimur er á stærð við Reykjavík og Þrændalög álíka mannmörg og Suðvesturhorn Íslands. Sama hnattstaða, menningarheimur og kjör, - fram að þessu.
3. 19 hæða turninn við Túnin sem gerir Höfða,frægasta hús Íslands, að spýtukofa í samanburðinum og kostaði niðurbrot fallegs bogadregins húss Ræsis við Skúlagötu. Riðlar öllu samhengi á stóru svæði í borginni.
4. Héðinsfjarðargöng. Sjö milljarða framkvæmd út á ysta nes til 1300 manna byggðar á sama tíma og Vestfirðir eru hálfri öld á eftir öðrum landshlutum í samgöngum. Mun ódýrari göng undir Siglufjarðarskarð hefðu leyst betur úr vanköntunum á leiðinni frá Siglufirði til Skagafjarðar og Reykjavíkur sem áfram verður jafn slæm og áður. Fljótaleiðin svonefnda hefði leyst öll vandamál og skapað þægilega hringleið um Tröllaskaga. En ný kjördæmamörk fengu þingmenn Norðausturkjördæmis til að keyra þetta mál í gegn.
5. Auk síðastnefndu ókláruðu minnismerkja eru ótal auðar og hálfkláraðar byggingar á Reykjavíkursvæðinu sem eru svo margar að varla er hægt að aka neins staðar um þetta svæði nema að sjá einhverja þeirra.
![]() |
Táknmynd góðæris eða kreppu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)