20.1.2009 | 21:04
Hinn frægi fundur kratanna 1979.
Í september 1979 virtist ekkert vera á seyði sem benti til stjórnarslita einmitt þá. Þingsetning nálgaðist og fólk beið eftir því í rólegheitum að það tæki til starfa. Sumarið hafði verið mjög tíðindalítið á stjórnmálasviðinu og ríkt logn miðað við óróasumarið árið áður.
Að vísu bárust af því fregnir að erfitt væri að koma fjárlögum saman en það var svo sem ekkert óvenjulegt við það.
Aðalágreiningsmál stjórnarflokkanna leysti Ólafur Jóhannesson með Ólafslögunum svonefndu nær hálfu ári fyrr og miðað við það upplausnarástand sem ríkt hafði meðal ríkisstjórnarflokkanna fram að því var ástandið í september blítt og bjart í skammrii sögu þessarar stjórnar.
Þegar Ólafur leysti úr hnútnum á útmánuðum sagði Vilmundur Gylfason borubrattur við mig í Sjónvarpsviðtali að í uppsiglingu væri "vinstri viðreisn."
Fundur var hjá Alþýðuflokksfélagi á Hótel Loftleiðum síðla í september, - man ekki í augnablikinu hvort það var kvenfélagið eða hið almenna félag, - en hvað um það, - á fundinum var skorað á ráðherra flokksins að slíta stjórnarsamstarfinu og þetta nægði til að sprengja það.
Ég man enn hve óvænt og stór bomba þetta var, en þessi fundur í höfuðvígi kratanna skaut stjórnina í tætlur á stundinni. Vegna góðra tengsla okkar á fréttastofunni inn í raðir krata gátum við keyrt á þetta strax í aukafréttum, að ekki væri nú talað um útvarpið.
Uppreisnarmenn í Alþýðuflokknum gerðu þetta meðan formaður hans, Benedikt Gröndal var erlendis.
Nú er margfalt meiri órói í þjóðfélaginu en í september 1979, ósambærilega miklu meiri. Fyrst ríkisstjórn var sprengd á einum fundi fyrir tæpum 30 árum ættu allir að vera viðbúnir hverju sem er nú.
P.S. kl.11:58 Ég er að vísa til hliðstæðu við fund Samfylkingarfólks í Reykjavík annað kvöld. Takk, Friðrik Þór Guðmundsson fyrir að benda á að sá fundur er tilefni þessa pistils.
P.S. Kratar græddu ekki á þessu þá. Minnihlutastjórn flokksins sat til janúarloka, þeir töpuðu fylgi í kosningum í desember 1979 og lentu utan stjórnar í átta ár. Þótt Samfylkingin mælist sæmilega í skoðanakönnunum núna óttast ráðherrarnir áreiðanlega hið ókunna, - úrslit kosninga. Þeir vilja sitja og sjá hvað kemur út úr landsfundi Sjallanna. En það er ekki víst að geti það, - þeir geta fallið á tíma. Og hvers vegna að vera að bíða eftir landsfundi flokks sem er óstjórntækur og ber höfuðábyrgðina á hruninu ?
![]() |
Ekki stjórnarslit í augnablikinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
20.1.2009 | 19:47
Vafasamt upphaf aðgerða.
Ég var staddur í hinum mjóa sundi bak við þinghúsið þar sem piparúða var fyrst beitt og tók af því myndir sem ég vonast til að geta sýnt. Ég stóð skáhallt utan á girðingunni að garðinum, hélt mér í stólpa með hægri hendi en tók kvikmynd með þeirri vinstri með því að beina vélinni eins hátt á loft og ég gat.
Þessi staður er ólíkur alþingisgarðinum að því leyti að hann hlýtur ótvírætt að falla undir hugtakið almannafæri. Þangað liggur inn framhald af gangstéttinni við húsið og ég tel mig og aðra sem ég þekkti þarna og hafa aldrei beitt ofbeldi af neinu tagi, hafa verið í fullum rétti til að standa þarna.
Ef lögreglan hefur talið það óæskilegt að mótmælendur færu inn þetta sund hefði hún átt að loka því fyrirfram. Það var ekki gert og þá virðist hafa verið tekin sú ákvörðun að senda lið þarna inn, kannski vegna þess hve nálægt fólk var þá komið glerklædda tengiganginum milli húsanna.
Sveit brynjaðra lögreglumanna kom því og það var ekki meira "ofbeldi" hjá mótmælendum en það að þeir komust greiðlega inn í botn sundins og mynduðu þar varnargarð.
Þá gerðist það að smám saman að mannþröngin, en þó einkum fremsti hluti hennar, þrýsti lögreglumannahópnum smám saman inn í botn sundsins.
Hugsanlega hefur lögreglumönnum talið sér ógnað, því að einn þeirra sem virtist vera yfirmaður, ræddi eitthvað við þá sem ekki heyrðist vegna hávaðans.
Af sjónarhóli lögreglumanna hefur þeim kannski verið svipað í brjósti og dýri eða hnefaleikara, sem hefur verið króaður af úti í horni.
En síðan virtist sem sú vitneskja breiddist út eftir sundinu að aukin hætta væri á gasárás því fólk byrjaði að færa sig út úr sundinu og lögreglumannahópurinn gat gengið áfram og tekið sér sömu stöðu og í upphafi.
Á mynd minni sést það vel að fólk var orðið tiltölulega dreift í sundinu og hélt uppi höndunum til merkis um að það ætlaði sér ekki að sækja fram.
Satt að segja hélt ég að þarna væri komin pattstaða sem kallaði ekki á notkun piparúða. En sóttu lögreglumenn skyndilega fram og beittu úðanum af miklu afli, úðuðu á myndatökumenn og hvað sem fyrir varð.
Þetta fannst mér ákaflega misráðin aðgerð vegna þess að lögreglan var með jafnlanga víglínu fremst í sundinu og hún hafði haft innst í því.
Ég tek fram að lögreglumenn eru bara þverskurður af þjóðfélaginu og langflestir þeirra sýna yfirvegun og stillingu við erfiðar aðstæður.
En þeim er enginn greiði gerður með því að gerð séu mistök á borð við þau sem sjást á mynd minni án þess að þau séu krufin til mergjar.
Myndskeiðið sem ég hef undir höndum sýnir hvernig beiting piparúðans hófst. Upphaf slíkra aðgerða, einkum þegar hún er misráðin, reitir fólk mjög til reiði og gerir ástandi verra.
Á það hefur skort að kryfja svona atburði til mergjar. Þingnefnd kallaði til sig talsmenn aðila frá átökunum við Rauðavatn í fyrra og notaði að því leyti rannsóknaraðferðir 19. aldar við að kanna þau í stað þess að nota fjölda kvikmynda sem teknar voru af atburðum með tækni 21. aldar.
Fyrir
![]() |
Kveikt í rusli við þinghúsið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
20.1.2009 | 19:13
I can get no satisfaction.
Ofangreint er nafn á stöku í tilefni af aðgerðum, sem ráðgerðar voru á Suðurland vegna fjárnáms 370 manna:
Óttinn vex nú út af margri skuldinni
og menn gráta í kór
því lítinn kall í lúðrasveitarbúningi
langar að verða stór.
P.S. Þriðja hendingin í þessari stöku eru fengin að láni úr orðasarpi Sigurjóns Jónssonar hagyrðings fyrir austan og vona ég að hann sé sáttur við það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.1.2009 | 11:05
Sumir eru jafnari en aðrir.
Í hreinustu útgáfum kommúnisans og kapítalismans, blóðrauðum annars vegar og heiðbláum hins vegar, er grunntónninn: Allir skulu vera jafnir.
Í kommúnismanum kom fljótlega í ljós að "alræði öreiganna" fólst í alræði nýrrar yfirstéttar flokkseigendanna og alræði eins manns á endanum. Þessi nómenklatúra fitnaði á forréttindum sínum á sama tíma og milljónum mannslífa var fórnað og þjóðin lifði við kúgun.
Þeir sem voru jafnari en aðrir brunuðu á sérsmíðuðum limmum eftir sérstökum akreinum og lifðu í vellystingum í stórum sumarhúsum. Þeir gátu höndlað með verðmæti þjóðarinnar að vild sinni.
Í hinum helbláa kapítalisma heitir það að allir hafi jöfn tækifæri til að láta ameríska drauminn rætast. Allt á að fara best þegar hver einstaklingur tekur áhættuna af gerðum sínum og stendur eða fellur með ákvörðunum sínum.
En sumir hafa reynst jafnari en aðrir. Nú kemur í ljós að sumir þurftu ekki að taka neina áhættu og þegar hætta steðjaði að gátu þeir fundið út úr því leið sem færði þeim aukin auðæfi. Þeir gátu spilað þannig úr spilum sínum að annað hvort stórgræddu þeir eða veltu öllu tapinu yfir á aðra.
Vilhjálmur Bjarnason kallaði þetta "bankarán innan frá" í Kastljósi í gærkvöldi.
Flugstjórinn á Airbus þotunni sem nauðlenti á Hudson-ánni fór síðastur frá borði. Í hans sporum hefðu hinir ósnertanlegu íslensku fjármálasnillingar skotið sér strax út í fallhlíf og látið hina um borð um að taka á sig skellinn.
![]() |
Milljarðalán án áhættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)