22.1.2009 | 14:13
Velkomin í hópinn á döprum degi.
Það er ekkert grín sem aldavinir mínir hjónin Simmi og Ella standa frammi fyrir nú. Þau hafa fyrir óvenjlega stórri fjölskyldu að sjá og fyrir bragðið var viðbúið að vinnuveitendur þeirra teldu sig hafa sterkari tök á þeim en flestum öðrum starfsmönnum.
Ég þekki það hvað það er að sjá fyrir stórfjölskyldu.
Nú er þetta ástand allt í kringum mig. Dóttir mín og maður hennar með sína 7 manna fjölskyldu urðu atvinnulaus í haust og með því að slá verðlaunaþáttinn Kompás af hefur annar tengdasonur minn líka orðið atvinnulaus. Ég þekki líka þá hlið mála sem Sigmundur talar um. Sjálfur gafst ég upp á óbærilegri sjálfsritskoðun 2006 eftir linnulausan þrýsting utan frá á mig og fréttastofu mína.
Hann hefti mig sífellt meir og mér fannst sárt að það bitnaði á vinnustað mínum.
Formaður Framsóknarflokksins tók mig á beinið að viðstöddum kvikmyndatökumanni og ítrekaði þá ásökun, sem opinberlega hafði verið sett fram 1999, að ég mig ætti að reka fyrir hlutdrægni og misnotkun á aðstöðu minni.
Hann lét þetta ekki nægja heldur hellti sé yfir fréttastofu RUV í leiðinni.
Engu skipti þótt ég segði honum að ítarleg rannsókn hefði sýknað mig af þessum ásökunum.
Dropinn, sem fyllti mælinn var síðan kvörtun fulltrúa Framsóknarflokksins í útvarpsráði yfir því að ég skyldi hafa flutt "neikvæða" frétt um Kárahnjúkavirkjun sömu helgina og ég flutti meðvitað jákvæða frétt um hana !
Eins og ég sagði kom þrýstingurinn á mig og fréttastofu RUV utan frá en ég þykist vita að þau Simmi og Ella hafi verið beitt þrýstingi innan frá.
Ég vann í sex og hálft ár á Stöð tvö og hef ætíð til hennar sterkar taugar. Oft þurfti að glíma við áföll en þetta er að mínu viti daprasti dagurinn í sögu stöðvarinnar. Nú er það ekki aðeins fjárhagur hennar sem heftir hana heldur hefur trúverðugleiki hennar verið á niðurleið.
Fjórðungur félaga í Blaðamannafélagi Íslands er nú atvinnulaus á sama tíma og aldrei hefur verið meiri þörf á öflugri og frjálsri blaðamennsku. Það er harmsefni sem og staða fjölmiðlunar almennt.
Við Simma og Ellu segi ég þetta: Þegar ég hitti ykkur næst ætla ég að faðma ykkur og segja við ykkur: Velkomin í hóp frjálsra Íslendinga. Ég veit hvernig ykkur líður. Þegar ég hætti í fréttamennsku fór um mig óvæntur og djúpur feginstraumur.
Í fyrsta sinn í 36 ár gat ég sagt nokkurn veginn allt sem mér bjó í brjósti. Ég var frjáls !
![]() |
Frjáls undan oki auðjöfra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
22.1.2009 | 13:33
Öfugt lögregluríki.
Ég hef upplifað persónulega tilraunir til þöggunar og þvinganir valdhafa í áratug og varað við þeim síðustu fimm árin.
Ég hef viljað leggja mitt af mörkum til þess að aldrei verði hér ástand eins og er í sumum löndum heims, þar sem er svonefnt lögregluríki, - valdhafar hafa fólk á skrá, hlera síma þess, njósna um það og ógna því á allan hátt.
Það þarf að vera vel á verði hér á landi til að afstýra því að slíkt gerist, og fyrir því berjast þúsundir mótmælenda eins og ég. Ég vil að hér sé opið samfélag frelsis og óttaleysis.
En ég er agndofa yfir því ef þeir sem telja sig vera í hópi gagnrýnenda stjórnarhátta hér á landi, - mótmælendur sem ekki beita ofbeldi, taka sig út úr hópnum og vilja fara að beita lögregluna aðgerðum sem flokkast ekki undir annað ógnanir, sams konar ógnanir og verstu valdhafar heimsins beita gagnvart almenningi.
Verst er ef bloggið, hinn bráðnauðsynlegi vettvangur frjálsra, heiðarlegra og sanngjarnra skoðanaskipta er notaður fyrir slíkt.
Minni að lokum enn og aftur á frelsin fjögur sem Roosevelt Bandaríkjaforseti skilgreindi sem markmið. Hann vildi að stefnt yrði að heimi þar sem þessar fjórar tegundir frelsis ríktu:
1. Skoðana- og tjáningarfrelsi.
2. Trúfrelsi
3. Frelsi frá skorti.
4. FRELSI FRÁ ÓTTA.
![]() |
Nafnbirtingin grafalvarlegt mál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.1.2009 | 01:49
Bubbi spáði þessu.
Ég var að vona að þetta gerðist ekki. Þetta boðar ekkert gott. 1949 beitt lögreglan ekki táragasi fyrr en farið var að kasta grjóti í Alþingishúsið. Mér skilst að ekki hafi verið slíkt tilefni nú. Ég var á Austurvelli í gær eins og í fyrradag og sá báða aðila ganga of langt. Á myndskeiði sem ég tók í fyrradag sést að upphaf notkunar piparúðans í sundinu á bak við þinghúsið var mjög vanhugsuð og reitti fólk að óþörfu til reiði. Sá líka í dag að unglingar köstuðu í lögregluþjónana. Það var vanhugsað. Að slíku stóðu fáir einstaklingar. Ég hafði ímyndað mér að ég og 99% mótmælenda gætum eins og áður komið saman á Austurvelli, haft hávaða í frammi og haft uppi ofbeldislaus mótmæli sem hefðu áhrif í krafti fjöldans, fólks af öllum stéttum og á öllum aldri. Mig dreymdi um mótmæli á borð við þau í Austur-Þýskalandi þar sem mótmælafundirnir urðu stærri og stærri uns meirihluti þjóðarinnar var kominn á fundina og gat hrópað í ljósi þess sem blasti við: "Wir sind das volk!", "við erum þjóðin !" Engum gangstéttarhellum var kastað þar eða lögregluþjónar slasaðir, engu táragasi beitt eða fólk beinbrotið með kylfum. Við ræddum um þetta einslega, ég og Bubbi Morthens, fyrir síðustu boxlýsingu. Hann sagðist óttast og raunar spá því að þetta færi í harðara en þjóðin hefði kynnst áður. Hann talaði í þessa veru víðar og skrifaði í Morgunblaðið um það og varaði við því. Nú hefur það, sem við óttuðumst báðir, gerst, því miður. Mig grunar að beiting táragassins hafi verið ákveðin í gær, svipað og lá í loftinu í fyrra eftir vanhugsuð mótmæli vörubílstjóra hjá Bessastöðum þegar ráðamaður frá Palestínu var þar gestur. Niðurstaða þeirra sem ráða yfir lögreglunni hefur líklegast verið hin sama í bæði skiptin: Nú hafa þeir fengið að valsa nógu lengi og kominn er tími til að taka á þessu af nýrri hörku. Það sem margir óttuðust hefur gerst. Vísa til næsta bloggpistils á undan þessum sem skrifaður var stundarfjórðungi áður en táragasið flæddi um Austurvöll.
P. S. Samkvæmt fréttum Bylgjunnar í hádeginu var farið að grýta flöskum í lögregluna og brjóta rúður áður en táragasinu var beitt.
' P. S. 2. Það hefur verið einhver truflun í kerfinu í dag og ég sé að þessi pistill virðist fara út greinarskilalaus. Það var ekki ætlunin og ég bið velvirðingar á því. Ég get ekki breytt þessu
![]() |
Táragasi beitt á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
22.1.2009 | 00:14
Af hverju mesti órói síðan 1949 ?
1. Af því að fallið í haust var hið mesta í lýðveldissögunni.
Þjóðin féll úr hæsta söðli heims, ef marka má stemninguna sem fengin var fram með gervigóðæri hröðustu og mestu skuldasöfnunar í heimi.
Fallið var úr hæsta söðlinum niður í það að við urðum aðhlátursefni og rúin trausti um allan heim.
Með skuldasöfnunninni og gervifjármagni, sem að mestu leyti var aðeins til í tölvum eða á pappírum, fékkst fram falsað hágengi krónunnar sem ýtti enn meira undir mestu eyðslu og bruðl sem nokkur þjóð hefur afrekað.
Allt átti að vera hér mest og best í heimi.
Viðskiptaráð sagði til dæmis að við værum Norðurlöndunum fremri á flestum sviðum og þyrftum ekki að læra neitt af þeim.
Öllum Íslendingum sem það gátu eða vildu var boðið á efnahagsfyllerí og beinlínis hvattir til þess.
2. Eftir fallið mikla hafa skyndilega sprottið upp þúsundir atvinnulausra. Þeir höfðu ekki tíma til að mótmæla neinu meðan allt var á fullu en hafa nú nógan tíma til þess, hvenær sem er sólarhringsins.
Þeim á væntanlega eftir að fjölga um tíu þúsund í viðbót.
Stjórnvöld hafa ekki skynjað þetta. Svona ástand er dæmalaust hér á landi.
Í þessu ástandi verða alltaf til þeir, sem vilja fara aðrar og róttækari leiðir en aðrir í mótmælum. Það hefur alltaf verið þannig.
"Fjörið og stuðið" í mótmælaaðgerðunum geta hjá einstökum einstaklingum komið að einhverju leyti í staðinn fyrir taumlaust næturlífið sem blómstaði mest í gervigóðærinu.
Ég, og áreiðanlega tugþúsundir annarra, sem tókum engan þátt í fylleríinu, áttum ekkert fyrir og eigum ekkert eftir, og vorum sum hver bara "leiðinlegir nöldrarar", - við áskiljum okkur samt rétt til að fara niður á Austurvöll, að Alþingishúsinu, Þjóðleikhúsinu eða Stjórnarráðshúsinu til að mótmæla á okkar friðsama og ofbeldislausa hátt.
Ég fullyrði að við séum 99% mótmælenda. Og einnig að það sé ekki óhugsandi að við getum hrópað eins og alþýða Austur-Þýskalands fyrir tuttugu árum: "Við erum þjóðin!"
![]() |
Lögregla beitti kylfum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)