Mismunandi áhrif veikinda.

Þegar ofurlaun bankastjóra náðu hæstum hæðum á sínum tíma gaukaði ég því að gjaldkerunum í útibúinu sem ég skipti þá við en hefur nú verið lagt niður, hvort þær ca 70 til 80 konur sem önnuðust gjaldkerastörf ættu ekki að verða allar veikar í einu, þó ekki væri nema einn morgun.

Þær supu hveljur yfir þessari hugmynd og spurðu hvor ég væri með öllum mjalla. Tjónið af þessu yrði ógurlegt og ekkert svona kæmi að sjálfsögðu til greina. "Af hverju lætur þú þér detta svona lagað í hug?" spurði ein.

Ég sagði að það væri vegna þess þær hlytu að geta verið veikar hálfan dag án þess að nokkuð færi úrskeiðis úr því að bankastjórinn þeirra gæti verið veikur jafnvel nokkra daga án þess að nokkur viðskiptavinanna yrði þess var, en viðkomandi bankastjóri hefði laun á við 80 gjaldkera.

Ég held sagt að þær hafi orðið hugsi um stund yfir þessum samanburði.


mbl.is Elín borin út úr bankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróinn vinur.

Ég kynntist Eiði Guðnasyni fyrst í M.R. og það nokkuð vel þótt hann væri ári eldri og í bekk á undan mér því ég hafði næstum eins mikil samskipti við þann bekk og minn eigin. Strax tókst með okkur góð vinátta sem hefur enst æ síðan.

Leiðir okkar lágu aftur saman á fréttastofu Sjónvarpins þar sem Eiður var varafréttastjóri þangað til hann skellti sér í pólitíkina fyrir kosningarnar 1977. Um þau ár "svart-hvíta gengisins, sem stóðu í rúman áratug, hef ég reynt að tjá hug minn með textanum "Ó, þessi ár með þér", sem gerður var við lagið "Those were the days."

Á þessum tíma var Eiður í fararbroddi í fréttamennsku, sérlega öflugur, iðinn og vandaður fréttamaður. Hann varð snemma einkar snjall í fréttaferðum til útlanda og lagði þar grundvöll að ferli sínum á sviði stjórnmála og í utanríkisþjónustunni.

Eiður var afburða íslenskumaður, þótt enginn okkar kæmist þó jafnfætis fréttastjóranum okkar, Emil Björnssyni. Eiður fékk sérstök móðurmálsverðlaun að launum.

Eiður var umhverfisráðherra í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og átti þar góðan feril. Hann getur litið ánægður yfir ævistarf sitt.

Við hjónin, Helga og ég sendum þeim Eiði og Eygló okkar bestu kveðjur.


mbl.is Eiður Guðnason hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússar hnykla vöðvana.

Ef einhverjir hafa haldið að það áfall, sem alþjóðlega fjármálakreppan leiðir yfir Rússa eins og aðra, dragi úr getu þeirra eða áhuga til að beita sér í deilum þeirra við nágrannaþjóðirnar, sýna nýjustu atburðir annað.

Rússar munu hugsanlelga þvert á móti eflast í andstöðu sinni við áform NATÓ um uppbyggingu herbúnaðar við bæjardyr þeirra og sýna hvers þeir eru megnugir.

Erfitt er að gera sér grein fyrir því að hve miklu leyti ásakanir Rússa um vanskil Úkrainumanna eiga við rök að styðjast eða ásakanir um að Ukrainumenn steli gasi úr leiðslum í gegnum landið, en hvort sem það er rétt eða sýnir lokunin fyrir gasflutningana getu þeirra til að valda usla ef þeim býður svo við að horfa.

Þeir hnykla vöðvana um þessar mundir rétt eins og í Georgíu í fyrra.


mbl.is Ekkert gas til Evrópu um Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband