Reykjavík sama og Krísuvík.

Ég hitti gagnmerka framsóknarkonu á Egilsstöðum nú rétt í þessu og ræddi við hana um það hvernig íbúar á suðvesturhorni landins upplifa nú það sem landsbyggðarfólk hefur þurft að lifa við um áratugi, - að stórfellt atvinnuleysi og fólksflótti bresti á  fyrirvararlaust.

Á morgun fer kannski sægreifinn með togarann úr plássinu og daginn eftir lokar rækjuvinnslan.

Á leið minni í dag landleiðina að sunnan úr Reykjavík með ódýrasta ferðamátanum í ódýrasta bíl landsins, Fiat 126, hef ég hitt landsbyggðarfólk á förnum vegi og heyrt hvernig það er sallarólegt enda orðið ýmsu vant.

Þó veit það að áhrifin "að sunnan" eiga eftir að berast um landið og eru þegar farin að gera það eins og fréttir úr heilbrigðisþjónustunni bera merki um.

En aftur að framsóknarkonunni, sem aðspurð sagðist ekki hafa áhyggjur af "fjandsamlegri yfirtöku" í framsóknarfélögum hér í Norðausturkjördæmi. Hún sagði mér að hún hefði heyrt fólk á þessum krísutímum nefna nafnið Krísuvík og það ætti þá við Reykjavík.

Já, dæmið hefur snúist við að ýmsu leyti, en margt er þó á huldu um þróunina á næstunni. Er hætt við að krísuvíkurnar verði margar.  

Annars er erindi mitt norður og austur aðallega að fylgjast með því sem er að gerast á þeim svæðum þar sem ég stend í gerð alls fimm kvikmynda, sem fjalla um svæðin sem eru undir í virkjanaæðinu.

Eins og er felst þetta aðeins í því að fylgjast með og safna myndaefni, en að öðru leyti er gerð allra þessara mynda stopp í bili vegna fjárskorts, - í Krísuvík.


mbl.is Bærinn vill verja sjúkrahúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Shakespeare orðaði þetta allt.

"Ekki er munkur þótt í kufl komi". Þetta er eitt af máltækjunum sem breska stórskáldið Shakespeare veifaði í verkum sínum, nánar tiltekið í Þrettándakvöldi og það á ágætlega við um það þegar ekki er nóg að setja á fót stofnanir sem eiga að sjá um ákveðin hlutverk að nafninu til þegar kerfið allt og umhverfið vinnur á móti því. Mér kemur þetta í hug núna eftir að hafa hitt í fyrrakvöld skólafélaga mína úr M.R. fyrir nákvæmlega fimmtíu árum þegar við fluttum á vegum Herranætur Þrettándakvöld eftir Shakespeare. Við hittumst núna á þrettándakvöld að nýju, lásum smá kafla úr leikritinu og sungum lokasönginn rétt eins og við værum á æfingu eða sýningu 1959. Þorsteinn Gunnarsson fór aftur á kostum sem Malvólíó og Benedikt Árnason leikstjóri fylgdist vel með. Þetta var óvenjuleg og skemmtileg stund og ánægjuleg að því leyti að á sínum tíma voru það leiknefndir M.R. árin 1957-59 sem tókst að bjarga þessari hefð frá því að verða slegin af vegna kostnaðar. Menn eins og Ólafur Mixa, Pálmar Ólason og Haukur Filippusson tókust á við þetta verkefni með leikritunum Vængstýfðum englum og síðan Þrettándakvöldi, sem slógu í gegn. Meira að segja var farið með sýningarnar út á land. Hvort tveggja verkefnavalið þótti sýna fáránlega dirfsku eftir að bestu erlendu gamanleikarar samtímans höfðu til dæmis leikið í kvikmyndinni Vængstýfðum englum. Gróði varð af báðum þessum sýningum sem gerði mun meira en að borga tapið upp af fyrri Herranóttum. Allir lögðust á eitt til að útbúa leikmyndir og gera hvaðeina fyrir sama og engan pening. Benedikt sagði mér að hann væri einmitt að lesa merka erlenda bók fræðimanns sem sýndi fram á að í verkum Shakespeares orðaði stórskáldið nánast allt sem snerti mannlegt eðli og hugsun. Þrettándakvöld er gamanleikrit og kannski ekki við því að búast að mikla speki sé í því að finna en þó fjallar leikritið fullkomlega um það sem verið hefur að gerast í íslensku þjóðlífi undanfarin ár, hroka, yfirlæti og eftirsókn eftir fé og mannvirðingum sem kemur mönnum í koll. Það getur meira en verið að ég sletti nokkrum orðtökum úr þessu eina leikriti hans eftir því sam það á við í komandi bloggpistlum.
mbl.is „Rauðir í framan af reiði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband