Shakespeare orðaði þetta allt.

"Ekki er munkur þótt í kufl komi". Þetta er eitt af máltækjunum sem breska stórskáldið Shakespeare veifaði í verkum sínum, nánar tiltekið í Þrettándakvöldi og það á ágætlega við um það þegar ekki er nóg að setja á fót stofnanir sem eiga að sjá um ákveðin hlutverk að nafninu til þegar kerfið allt og umhverfið vinnur á móti því. Mér kemur þetta í hug núna eftir að hafa hitt í fyrrakvöld skólafélaga mína úr M.R. fyrir nákvæmlega fimmtíu árum þegar við fluttum á vegum Herranætur Þrettándakvöld eftir Shakespeare. Við hittumst núna á þrettándakvöld að nýju, lásum smá kafla úr leikritinu og sungum lokasönginn rétt eins og við værum á æfingu eða sýningu 1959. Þorsteinn Gunnarsson fór aftur á kostum sem Malvólíó og Benedikt Árnason leikstjóri fylgdist vel með. Þetta var óvenjuleg og skemmtileg stund og ánægjuleg að því leyti að á sínum tíma voru það leiknefndir M.R. árin 1957-59 sem tókst að bjarga þessari hefð frá því að verða slegin af vegna kostnaðar. Menn eins og Ólafur Mixa, Pálmar Ólason og Haukur Filippusson tókust á við þetta verkefni með leikritunum Vængstýfðum englum og síðan Þrettándakvöldi, sem slógu í gegn. Meira að segja var farið með sýningarnar út á land. Hvort tveggja verkefnavalið þótti sýna fáránlega dirfsku eftir að bestu erlendu gamanleikarar samtímans höfðu til dæmis leikið í kvikmyndinni Vængstýfðum englum. Gróði varð af báðum þessum sýningum sem gerði mun meira en að borga tapið upp af fyrri Herranóttum. Allir lögðust á eitt til að útbúa leikmyndir og gera hvaðeina fyrir sama og engan pening. Benedikt sagði mér að hann væri einmitt að lesa merka erlenda bók fræðimanns sem sýndi fram á að í verkum Shakespeares orðaði stórskáldið nánast allt sem snerti mannlegt eðli og hugsun. Þrettándakvöld er gamanleikrit og kannski ekki við því að búast að mikla speki sé í því að finna en þó fjallar leikritið fullkomlega um það sem verið hefur að gerast í íslensku þjóðlífi undanfarin ár, hroka, yfirlæti og eftirsókn eftir fé og mannvirðingum sem kemur mönnum í koll. Það getur meira en verið að ég sletti nokkrum orðtökum úr þessu eina leikriti hans eftir því sam það á við í komandi bloggpistlum.
mbl.is „Rauðir í framan af reiði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

3 ára dóttir mín elskar að syngja með  jólabarnakór sem þú er ert að syngja með á safnplötu jólalög takk fyrir gott framtak í uppeldi barna Ómar ,ættir að fá orðu fyrir hjá forseta íslands.

Bjarni P Magnússon (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 15:02

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

There is something rotten in Denmark,
Iceland should have the German mark,
a KB-bank specialist,
was showing his fist,
there were just Icelanders on Noah's ark.

Þorsteinn Briem, 8.1.2009 kl. 15:55

3 identicon

Væntanlega var þetta þýtt af Helga Hálfdanarsyni - sem kunnáttumaður einn lét hafa eftir sér að væri betri en Shakespeare sjálfur.

Við Íslendingar getum amk. hrósað happi yfir að hafa eignast slíkan höfuðsnilling sem Helga.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 18:25

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, rétt er það. Í snjáðu og velktu handriti mínu að Þrettándakvöldi, sem ég fann nýlega, er Helgi með margs kyns útskýringar í eftirmála. Á einum stað rökstyður hann svo snilldarlega annan skilning sinn á ákveðnum texta en hinir erlendu sérfræðingar hafa haft, að maður hrífst með.

Það er gaman að því fyrir litla þjóð á útskeri að búa að dæmum um slíkt.

Ómar Ragnarsson, 8.1.2009 kl. 20:44

5 Smámynd: Ólafur Fr Mixa

Bæta má við ofanskráð nánari fregnum af þýðingunni, fyrst á annað borð er kominn þessi fortíðartregi í mannskaapinn. Eftir velgengnina með Vængstífðu englana og heilmikið fé í kassanum gældum við í Leiknefnd MR við þá nokkuð glannalegu hugmynd að nú væri tækifærið til að spreyta sig á gamla Shakespeare, rjúka bara í hann. Í framhaldi af því hringdi ég strax af fundinum í Helga Hálfa norður til Húsavíkur til að fá góð ráð og leyfi til að nota þýðingu eftir hann, ef til kæmi. Maður heyrði nánast brosið sem fór um andlit þessa einstaka ljúfmennis, þegar hann tjáði mér að hann hefði einmitt í þessu verið að ljúka við þýðingu á verki, sem hét Þrettándakvöld, og hann teldi ágætlega við okkar hæfi og hvort nú væri að við mættum ekki nota þessa þýðingu!

Svo að við fengum í hendurnar handrit og þýðingu þarsem blekið var varla þornað ( blek er sérstakur vökvi sem notaður var í gamla daga til að fylla á svokallaða sjálfblekunga og skrifa með ).

Þú manst svo áreiðanlega eftir heimsóknum hans á æfingar þar sem hann deildi með okkur úr vizkubrunni sínum.

Ólafur Fr Mixa, 8.1.2009 kl. 21:51

6 identicon

Lítill snáði, rétt farinn að stauta, kemur inn í apótekið á Húsavík og á miða, sem festur er á glerið í innri hurðinni er vélritaður texti, sem hann verður að spreyta sig á:

„Hér eru allir þúaðir nema annars sé óskað, t.d. með því að þéra að fyrra bragði.“

Drengurinn heldur inn og stynur út úr sér „eigið þér lakkrís“ .  Leiftrandi bros færist yfir andlit apótekarns og um  leið og hann afhendir poka með lakkrísnum yfir borðið segir hann glettnislega „gerið þér svo vel  ungi maður“

Textan man ég enn og þetta voru mín fyrstu kynni af apótekaranum ljúfmannlega.

Hans er enn minnst með hlýju á Húsavík, af þeim sem eldri eru og m.a. var mér sagt, ekki alls fyrir löngu að hann hafi gjarnan læðst inn í kirkjuna á sunnudögum, rétt fyrir predikun séra Friðriks A. Friðrikssonar, hlýtt á hana og horfið jafn hljóðlega út aftur.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 09:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband