Of seint, of ómarkvisst?

Mannfjöldi á Íslandi er á við hverfi einhverri af þúsundum borga heimsins. Vina- ætta- og kunningjatengsl liggja um alla. Eina leiðin til að fram fari rannsókn sem ekki skapar vafa eða trúnaðarbrest er rannsókn nefndar þar sem útlendingar hafa meirihluta.

Einn Íslendingurinn í rannsóknarnefnd Alþingis kemur frá útlöndum en hætt er við það sé ekki nóg. Við höfum fordæmi frá Landsnefndinni 1771 sem átti að rannsaka hvað væri að á Íslandi og rétta það af. Formaðurinn var Norðmaður en það var ekki nóg því að Íslendingarnir voru í meirihluta og eyðilögðu að mestu þá möguleika sem nefndin átti.

Athyglisverð er grein Helga Hermassonar í Fréttablaðinu þar sem hann bendir á bandarísku stofnunina SEC sem hefur 74 ára reynslu af rannsóknum á þessu sviði sem mögulegan rannsakanda. Þar að auki fréttist af áhuga erlendis á að rannsaka íslenska bankahrunið.

Helgi kemur að mergnum málsins hvað snertir þetta mál, en það er hugtakið traust. Erfitt er að sjá hvernig nokkrir innlendir aðilar geti notið fulls trausts við rannsókn, sem teygir anga sína inn í alla kima hér á landi og ómögulegt að sjá fyrir hvaða hagsmunaárekstrar eða tengsl koma upp.

Vonandi tekst rannsóknarnefndinni að leysa verkefni sín þótt byrja hefði átt strax og á þann hátt að hafið væri örugglega yfir allan efa, bæði nú og síðar.


mbl.is Öryggi rannsóknargagna tryggt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kröfur til auglýsinga.

Íslenska Sjónvarpið leyfði auglýsingar í upphafi starfsemi sinnar og það átti stóran þátt í "íslenska kvikmyndaævintýrinu".

Frumbýlingsháttur og byrjendabragur var eðilega á íslenskri kvikmyndagerð 1966 en vegna þess að auglýsingagerð krefst knappari texta og agaðri vinnubragða en flest annað í kvikmyndagerð, lögðu þær grunninn að sams konar vinnbrögðum á öðrum sviðum íslenskrar kvikmyndagerðar og voru góður grunnur fyrir margan fagmanninn.

Nú mætti halda að vegna nauðsynjar á öguðum vinnubrögðum væri slíkt ævinlega í hávegum haft í auglýsingagerð, ekki hvað síst varðandi texta þeirra, sem oftast er sagður í fáum vel völdum orðum, enda hvert orð oft rándýrt. En því miður er það ekki þannig.

Vikum og mánuðum saman var til dæmis flutt auglýsing þar sem orðið Volkswagen var borið rangt fram og á annan hátt en í heimalandi verksmiðjunnar eða í nokkru landi, líka Íslandi.

Þetta var óskiljanlegt því að þetta átti ekki að vera brandari. Auðheyrt var að sá sem las textann kunni ekki orð í þýsku.

Í rándýrum örstuttum auglýsingum má oft heyra ranga málnotkun og lélegan og óskýran framburð. Nú rétt áðan heyrði ég í fyrsta sungna auglýsingu virtustu og elstu bókaverslunar landsins. Vandað var til kvartettsöngs á íslenskum auglýsingatexta við lagið Gaudeamus Igitur.

Skemmst er frá því að segja að textinn var argasta hnoð og fylgdi ekki einu sinni laglínunni, sem var misþyrmt. Ekki örlaði á viðleitni í nafni þess stólpa íslenskrar menningar, sem auglýst var fyrir, til þess að hafa íslenska ljóðstafi, sem hefði verið við hæfi hjá auglýsingu í nafni virts menningarfyrirtækis.

Það var himinn og haf á milli þessa texta og auglýsingatexta eftir til dæmis Flosa Ólafsson eða Þórarin Eldjárn.

Auglýsingar eru mikilvægur hluti þjóðmenningar og texti þeirra yfirleitt svo stuttur að það verður að gera lágmarkskröfur þar um.

Og vel á minnst: Sjálfvirkir símsvarar. Þeir eru efni í annað blogg.


Bloggfærslur 9. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband