Kröfur til auglýsinga.

Íslenska Sjónvarpið leyfði auglýsingar í upphafi starfsemi sinnar og það átti stóran þátt í "íslenska kvikmyndaævintýrinu".

Frumbýlingsháttur og byrjendabragur var eðilega á íslenskri kvikmyndagerð 1966 en vegna þess að auglýsingagerð krefst knappari texta og agaðri vinnubragða en flest annað í kvikmyndagerð, lögðu þær grunninn að sams konar vinnbrögðum á öðrum sviðum íslenskrar kvikmyndagerðar og voru góður grunnur fyrir margan fagmanninn.

Nú mætti halda að vegna nauðsynjar á öguðum vinnubrögðum væri slíkt ævinlega í hávegum haft í auglýsingagerð, ekki hvað síst varðandi texta þeirra, sem oftast er sagður í fáum vel völdum orðum, enda hvert orð oft rándýrt. En því miður er það ekki þannig.

Vikum og mánuðum saman var til dæmis flutt auglýsing þar sem orðið Volkswagen var borið rangt fram og á annan hátt en í heimalandi verksmiðjunnar eða í nokkru landi, líka Íslandi.

Þetta var óskiljanlegt því að þetta átti ekki að vera brandari. Auðheyrt var að sá sem las textann kunni ekki orð í þýsku.

Í rándýrum örstuttum auglýsingum má oft heyra ranga málnotkun og lélegan og óskýran framburð. Nú rétt áðan heyrði ég í fyrsta sungna auglýsingu virtustu og elstu bókaverslunar landsins. Vandað var til kvartettsöngs á íslenskum auglýsingatexta við lagið Gaudeamus Igitur.

Skemmst er frá því að segja að textinn var argasta hnoð og fylgdi ekki einu sinni laglínunni, sem var misþyrmt. Ekki örlaði á viðleitni í nafni þess stólpa íslenskrar menningar, sem auglýst var fyrir, til þess að hafa íslenska ljóðstafi, sem hefði verið við hæfi hjá auglýsingu í nafni virts menningarfyrirtækis.

Það var himinn og haf á milli þessa texta og auglýsingatexta eftir til dæmis Flosa Ólafsson eða Þórarin Eldjárn.

Auglýsingar eru mikilvægur hluti þjóðmenningar og texti þeirra yfirleitt svo stuttur að það verður að gera lágmarkskröfur þar um.

Og vel á minnst: Sjálfvirkir símsvarar. Þeir eru efni í annað blogg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Ómar vill ei laglaus ljóð

í lygum sölumanna

Auglýsing skal gerð hér góð

og gallana má banna.

Offari, 9.1.2009 kl. 14:27

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar nú vill fagleg fljóð,
í fletum allra sölumanna,
Guðrún hún er alveg óð,
Ómar er hana að kanna.

Þorsteinn Briem, 9.1.2009 kl. 15:11

3 identicon

 Auglýsingatextar eru oft ótrúlega  subbulegir , þar er að  finna  slettur ,  ambögur og málvillur af mörgu tagi.

Dæmi: 

Byr:Fjárhagsleg heilsa -  aulaþýðing  úr ensku!

Office one: Verslaðu bók  hjá okkur !

Toyota:  Smælaðu !

Manstu annars eftir  auglýsingunni í árdaga,held  hún hafi verið frá  Gróðrarstöðinni Alaska ?Virðulegur  fjölskyldufaðir  situr  við  veisluborð ásamt  fjölskyldunni.

Hann er makindalegur að lokinni máltíð og kveikir sér í vindli. Vindillinn springur. Svartur skjár.

Næsta mynd:  Leiði í  kirkjugarði.  - Kaupið  blómin og kransana í Alaska !

Eiður (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 16:43

5 identicon

Veistu hvað Ljóminn er ljómandi góður,

Ljóminn er betri en ég hugsaði mér.

Hann hefur ljómandi fjörefnafóður .................

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband