16.10.2009 | 22:13
Margslungið mál.
Séra Gunnar Björnsson er einhver allra besti ræðumaður í hóp presta sem ég hef kynnst.
Þegar hann er í ham í prédikunarstóli er hrein unun að vera viðstaddur.
Ekki vantar heldur hæfileikana hvað snertir tónlist og aðrar listgreinar.
Mín kynni af honum eru á eina lund, - að hann sé einstaklega skemmtilegur og aðlaðandi maður opinn og einlægur.
Slagurinn sem hann stendur í núna er því mikið harmsefni og allt það sem hann og fjölskylda hans hefur orðið að ganga í gegn um.
Á hinn bóginn eru mörg störf þannig að ekki er spurt um það hvort eitthvað hafi verið ólöglegt, heldur koma önnur atriði þar til álita.
Við vitum um mörg dæmi þess að fólk hefur orðið að flytja sig til í starfi án þess að sakir séu miklar, hvað þá saknæmar. Stundum er jafnvel um misskiling að ræða sem vekur heitar tilfinningar og magnast í hugum þeirra sem eiga í hlut.
Sem stéttir þar sem umhverfið er þannig að ekki er spurt um saknæmt athæfi má nefna frétta- og blaðamenn að ekki sé minnst á stjórnmálamenn, sem eiga með reglulegu millibili allt undir kjósendum sínum.
Mörg dæmi eru um að úlfúð hafi risið í söfnuðum á milli manna og hópa og í því starfi eru slík illindi og tilfinningahiti erfið við að eiga vegna þess hve starfið er oft innt af hendi á viðkvæmum stundum.
Ég efast um að borgarafundurinn á Selfossi í kvöld um mál safnaðarins þar, séra Gunnars og biskups Íslands hafi skilað miklu. Því miður.
Æskilegast hefði verið að stríðandi fylkingar hefðu fyrr náð samkomulagi um að hittast á opinn hátt til að ræða málin og freista þess að leysa þau.
Kannski hafa öldur risið of hátt til þess að það sé mögulegt.
Sættir, friður og fyrirgefning eru aðall kristinnar trúar. Slíkt andrúmsloft verður að ríkja í söfnuðum kirkjunnar. Biskupi er því vandi á höndum og ekki öfunda ég hann.
Prestar og biskup hafa meðal annars þann starfa er biðja fyrir fólki, söfnuðum og þjóð. Þetta mál er hins vegar þannig vaxið að full ástæða er fyrir þjóðina að biðja fyrir biskupi, prestinum og Selfosssöfnuði.
![]() |
Hörð gagnrýni á biskupinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
16.10.2009 | 15:46
Elsta atvinnugrein í heimi?
Einhver kom því á kreik fyrir langalöngu að vændi væri elsta atvinnugrein í heimi og síðan hefur þetta verið lapið upp oftar en tölu verður á komið og bætist ég nú í hóp þeirra sem það gera.
Eitt af þeim takmörkum, sem kommúnistar settu sér í Sovétríkjunum sálugu í komandi sæluríki var að vændi yrði útrýmt.
Og einn góðan veðurdag var tilkynnt að það hefði tekist. Ekkert vændi fyrirfannst lengur í því landi.
Ég fór akandi með konu minnni frá Norður-Finnlandi til Múrmansk síðsumars 1978. Þetta var ferð bílablaðamanna á Norðurlöndum til að prófa endurbætta gerð af gamla góða Volvo og voru margir þeirra ungir menn og einhleypir.
Þegar við ókum inn í Múrmansk fylgdu KGB-Lödur Volvo-flotanum inn í afgirta baklóð þar sem hann var falinn meðan á dvöldinni stóð..
Þessar felutilraunir voru til einskis. Við höfðum ekki verið í Múrmansk nema einn dag þegar í ljós kom að Rússar, sem sögðust vera í góðum samböndum, höfðu falast eftir bílunum og að vændiskonur hefðu verið á kreiki í kringum hina fjallmyndarlegu skandínava sem voru í hópnum og það fleiri en ein glæsidama.
Einn hinna ungu bílablaðamann sagði okkur frá því að daman, sem hann hefði kynnst, teldi sig ekki vændiskonu heldur væri hún starfsmaður KGB að vinna sitt starf.
Niðurstaða: Hér er við vanda að fást í hvaða þjóðfélagi sem er, - vanda sem virðist aukast hér á landi.
Minnir mig á gamansögu af ungum íslenskum útrásarvíkingi sem kom á hótel í Moskvu en fékk ekki frið fyrir glæsikvendi sem vildi að hann víkkaði út hóp viðskiptavina sinna þegar í stað á staðnum.
Konan var afburðafögur og talaði lýtalausa ensku.
Þegar Íslendingurinn sagðist vera í svo miklu tímahraki að slíkt kæmi ekki til greina, varð sú rússneska mjög hissa og kvað þetta með ólíkindum og nánast dæmalaust. Kvaðst hún ætíð hafa átt góð og traust viðskipti við menn af öllum þjóðernum.
"Frá hvaða landi ert þú eiginlega?" spurði hún á ensku.
"I´m from Iceland", svaraði hinn ungi ljóshærði útrásarvíkingur.
Þá færðist sæluljómi yfir andlit hennar og hún andvarpaði þegar hún lygndi aftur augunum: "Ó, Síldarútvegsnefnd!"
Sem sagt:
![]() |
Götuvændi stundað í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)