Elsta atvinnugrein í heimi?

Einhver kom því á kreik fyrir langalöngu að vændi væri elsta atvinnugrein í heimi og síðan hefur þetta verið lapið upp oftar en tölu verður á komið og bætist ég nú í hóp þeirra sem það gera.

Eitt af þeim takmörkum, sem kommúnistar settu sér í Sovétríkjunum sálugu í komandi sæluríki var að vændi yrði útrýmt.

Og einn góðan veðurdag var tilkynnt að það hefði tekist. Ekkert vændi fyrirfannst lengur í því landi. 

Ég fór akandi með konu minnni frá Norður-Finnlandi til Múrmansk síðsumars 1978. Þetta var ferð bílablaðamanna á Norðurlöndum til að prófa endurbætta gerð af gamla góða Volvo og voru margir þeirra ungir menn og einhleypir.

Þegar við ókum inn í Múrmansk fylgdu KGB-Lödur Volvo-flotanum inn í afgirta baklóð þar sem hann var falinn meðan á dvöldinni stóð..  

Þessar felutilraunir voru til einskis. Við höfðum ekki verið í Múrmansk nema einn dag þegar í ljós kom að Rússar, sem sögðust vera í góðum samböndum, höfðu falast eftir bílunum og að vændiskonur hefðu verið á kreiki í kringum hina fjallmyndarlegu skandínava sem voru í hópnum og það fleiri en ein glæsidama.

Einn hinna ungu bílablaðamann sagði okkur frá því að daman, sem hann hefði kynnst, teldi sig ekki vændiskonu heldur væri hún starfsmaður KGB að vinna sitt starf.

Niðurstaða: Hér er við vanda að fást í hvaða þjóðfélagi sem er, - vanda sem virðist aukast hér á landi.

Minnir mig á gamansögu af ungum íslenskum útrásarvíkingi sem kom á hótel í Moskvu en fékk ekki frið fyrir glæsikvendi sem vildi að hann víkkaði út hóp viðskiptavina sinna þegar í stað á staðnum.

Konan var afburðafögur og talaði lýtalausa ensku.  

Þegar Íslendingurinn sagðist vera í svo miklu tímahraki að slíkt kæmi ekki til greina, varð sú rússneska mjög hissa og kvað þetta með ólíkindum og nánast dæmalaust. Kvaðst hún ætíð hafa átt góð og traust viðskipti við menn af öllum þjóðernum.

"Frá hvaða landi ert þú eiginlega?" spurði hún á ensku.

"I´m from Iceland", svaraði hinn ungi ljóshærði útrásarvíkingur.

Þá færðist sæluljómi yfir andlit hennar og hún andvarpaði þegar hún lygndi aftur augunum: "Ó, Síldarútvegsnefnd!"  

Sem sagt:  


mbl.is Götuvændi stundað í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Graður er hann Gunni,
gellum vill hann ríða,
en engin er nú blíða,
í utanríkisþjónustunni.

Þorsteinn Briem, 16.10.2009 kl. 16:13

2 identicon

Það ku viðra vel til götuvændis í Raykjavík.

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 16:19

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"14. grein. Mannréttindi.

Starfsmaður [utanríkisþjónustunnar] skal gæta þess að framkoma hans samrýmist markmiðum íslenskra stjórnvalda á sviði mannréttinda. Starfsmanni er óheimilt að kaupa eða þiggja vændisþjónustu."

Siðareglur utanríkisþjónustunnar


"Starfsfólk Stjórnarráðsins gætir þess að rýra ekki trúverðugleika ráðuneytis síns með ámælisverðri framkomu, skeytingarleysi um lög eða virðingarleysi við manngildi og mannréttindi s.s. með kaupum á kynlífsþjónustu."

Drög að siðareglum fyrir embættismenn og ráðherra

Þorsteinn Briem, 16.10.2009 kl. 16:54

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hehe... hverjir voru í síldarútvegsnefnd?

Barátta gegn vændi er vitavonlaus. Með því að herða refsingu við kaupum og sölu á vændi, verður henni frekar einfaldlega stjórnað af harðsvíraðari glæpamönnum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.10.2009 kl. 18:17

5 identicon

Við verðum að gera greinarmun á konu sem notar blíðu sína og dólgs sem þvingar þræl til kynlífsþjónustu sér sjálfum til auðgunar. Ég þykist nokkuð viss að þær (erlendu) konur sem ganga kaupum og sölum á búllum og í skuggaportum Reykjavíkurborgar eru ekki þokkadísir að stunda elstu atvinnugrein í heimi. Líklegra er að þær eru afvegaleiddar sálir, fíklar eða hreinlega ránsfengir þeirra skipulögðu undirheimahópa sem á seinni árum hafa hafið starfssemi á Íslandi.

Það er mikil raun að vera að þessu vitni og sjá aðgerða og dugleysi bæði lögreglu og yfirvalda að uppræta þessa starfssemi. Það er nokkuð víst að vændi er bara einn af starfsþáttum þessara hópa til viðbótar við okurlán, inbrot og gripdeildir, eiturlyfjasölu, smygl, þrælahald, o.m.fl.

Við almennir borgarar verðum að gera kröfu til þess að lögregla og yfirvöld uppræti þessa starfssemi, s.s. með því að vísa úr landi fólki af erlendu þjóðerni sem uppvísist af þessari starfssemi. Ég hef akkúrat enga þolinmæði til að hlusta á þá sem vitna í kvaðir á landið til að hleypa þessu liði inn og hýsa. Ísland er sjálfstætt fullvalda lýðveldi--a.m.k. ennþá--og hefur fullan rétt til sjálfsvarna. Að beita þeim ekki í hvívetna er aumingjaskapur og dugleysi, sem eru ekki íslensk gildi það best ég veit.

Þetta er ekkert djók.

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 18:25

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Lög um mannaréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994

Samningsviðauki nr. 7 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis.


1. gr. Réttarfarsreglur um brottvísun útlendinga.

1. Útlendingi, sem löglega er búsettur á landsvæði ríkis, skal ekki vísað þaðan nema eftir ákvörðun sem tekin hefur verið í samræmi við lög, og skal honum heimilt:

   
a. að bera fram ástæður gegn brottvísun sinni,
   b. að fá mál sitt tekið upp að nýju, og
   c. að fá erindi sitt flutt í þessu skyni fyrir réttu stjórnvaldi eða manni eða mönnum sem það stjórnvald tilnefnir.

2. Heimilt er að vísa útlendingi brott áður en hann hefur neytt réttinda sinna skv. a-, b- og c-lið 1. tölul. þessarar greinar þegar slík brottvísun er nauðsynleg vegna allsherjarreglu eða á grundvelli þjóðaröryggis."

Og sumir vilja reka svokallaða útrásarvíkinga úr landi:

Samningsviðauki nr. 4 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis um tiltekin önnur mannréttindi en greinir þegar í samningnum og samningsviðauka nr. 1 við hann.

3. gr. Bann við brottvísun eigin borgara.

1. Eigi má vísa nokkrum manni úr landi þess ríkis sem hann er þegn í, hvort heldur sem einstaklingi eða samkvæmt ráðstöfun sem beinist gegn hópi manna.

2. Eigi má banna nokkrum manni að koma til þess ríkis sem hann er þegn í."

Eða hneppa víkingana í skuldafangelsi:

1. gr. Bann við skuldafangelsi.

Engan mann má svipta frelsi af þeirri ástæðu einni að hann getur ekki staðið við gerða samninga."

Og reka útlendinga úr landi í stórum stíl af þeirri ástæðu einni að þeir eru útlendingar:

4. gr.
Bann við hópbrottvísun útlendinga.

Bannað er að gera hópa útlendinga landræka."

Þorsteinn Briem, 16.10.2009 kl. 19:40

7 identicon

Steini þólimran dálítið svona obbulítið dónó

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 21:25

8 identicon

Steini,

ég sé ekkert í þessum lögum, sem kemur í veg fyrir að '"fólki af erlendu þjóðerni" sé vísað úr landi ef það er uppvíst að glæpastarfssemi. Þegar ég tek þannig til orða þá á ég við að þetta eru ekki ríkisborgarar á Íslandi, en því miður er hvorki lengur hægt að gera Íslendinga útlæga né réttdræpa eins og áður var. (Ég spauga.) Einnig hlýtur íslenska ríkið að hafa einhver ráð með undir hvaða kringumstæðum erlendir ríkisborgarar eru löglega hér á landi þó ég þekki ekki  lagabókstafinn.

Ég efast ekki í eina millisekúndu að erlendir glæpamenn og hópar hafa borist til landsins á síðustu tímum og stunda hér starfssemi þ.m.t. vændissölu landi og þjóð til stórs skaða. Ég er nógu gamall til að muna tímana tvenna. Ég sé engar afsakanir fyrir því að geta ekki brugðist við og komið þessu liði úr landi.

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 21:34

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er rétt, að "þetta mál er ekkert djók" og ekki skal ég draga úr því.

Það er mjög miður að horfa upp á það hvers konar umhverfi er að myndast á þessu sviði og öðrum í undirheimum Reykjavík.

En miðað við það hve erfitt hefur reynst að fást við það verður ekki hægt að ná árangri nema með því að taka á því af krafti og ákveðni.

Ómar Ragnarsson, 16.10.2009 kl. 22:19

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Við sendum fullrúa til Mosvu til að semja um fisksölu í svo marga áratugi að skrýtlan um Síldarútvegsnefnd ætti ekki að meiða neinn.

Ómar Ragnarsson, 16.10.2009 kl. 22:21

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ragna mín. Þetta er ekki limra, heldur ferskeytla. Hins vegar setti ég limru um gullfisk nokkurn á blogg Jens Guðs í gærkveldi.

Síldarútvegsnefnd
seldi einnig svo mikið af síld til Austur-Þýskalands að hún stóð árum saman út úr eyrunum á Eiríki Honecker og félögum hans í austur-þýsku nomenklatúrunni.

Rússar
keyptu árlega af okkur Íslendingum hundrað þúsund trefla ítem hundrað þúsund tunnur af saltsíld. Eitt sinn þegar samningar við Rússana um verðið á síldinni voru loks í höfn, spurði ég Jón Sigurðsson, þá viðskipta- og iðnaðarráðherra og síðar stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins, hvort síldin ætti að vera slógdregin.

Jón sagðist ekki hafa hugmynd um það, sem mér þótti að sjálfsögðu uggvænlegt og mikill váboði, enda hafði ég rétt fyrir mér í því.

Þorsteinn Briem, 16.10.2009 kl. 23:19

12 identicon

Að banna einhverjum að gera það við líkama sinn sem vill, þ.m.t. veita kynlífsþjónustu er auðvitað brot á frum mannréttindum, þ.e. óskiptum yfirráðum yfir sér sjálfum og líkama sínum. Vændiskarl eða kona eru ekkert að misbjóða líkama sínum meira en einhver sem eyðileggur hendurnar á sér með því að vinna í frystihúsi eða við beitningar.

Rök gegn vændi og klámi eru svo máttlaus að það þarf alltaf að skeyta því saman við ofbeldi og þvingun til að réttlæta bönn á þvílíku.

Sjaldan heyrist samt talað um hversu hræðilegir íþróttaskór og ódýr fatnaður er þó vitað sé að slíkt sé stundum framleitt af þrælum á barnsaldri í vanþróuðum löndum.

Tóti (IP-tala skráð) 17.10.2009 kl. 10:42

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

75. gr. Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess."

Stjórnarskrá Íslands


206. gr. Hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

Hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi barns undir 18 ára aldri skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

[Hver sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra skal sæta fangelsi allt að 4 árum.

Sömu refsingu varðar það að ginna, hvetja eða aðstoða barn yngra en 18 ára til vændis.

Sömu refsingu varðar það einnig að stuðla að því að nokkur maður flytji úr landi eða til landsins í því skyni að hann stundi vændi sér til viðurværis.

Hver sem stuðlar að því með ginningum, hvatningum eða milligöngu að aðrir hafi samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu eða hefur tekjur af vændi annarra, svo sem með útleigu húsnæðis eða öðru, skal sæta fangelsi allt að 4 árum en sektum eða fangelsi allt að 1 ári ef málsbætur eru.

Hver sem í opinberri auglýsingu býður fram, miðlar eða óskar eftir kynmökum við annan mann gegn greiðslu skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum."

Almenn hegningarlög nr. 19/1940

Þorsteinn Briem, 17.10.2009 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband