Árekstur olíuskips við borgarísjaka 2005.

Fyrir fjórum árum varð það óhapp norður af Íslandi að stórt olíuskip rakst á borgarísjaka og laskaðist talsvert.

Skipið laumaðist inn til Hafnarfjarðar til bráðabirgðaviðgerðar og lét sig síðan hverfa, en íslensk yfirvöld höfðu enga vitneskju um þetta fyrr en síðar.

Þetta kom aldrei í fréttum en fulltrúi frá ráðuneyti upplýsti þetta á fundi um olíuhreinsistöðvar á Bíldudal í fyrra.

Þrátt fyrir að mikið sé gumað af nákvæmni gervitunglamynda var talið að svæðið sem skipið sigldi um væri íslaust og gervitunglamyndir bornar fyrir því.

Hugsanlega er það ekki spurning um hvort heldur hvenær olíuslys verður við Ísland. Miklu munar hvort það verður fyrir austan land eða vestan vegna hafstrauma sem streyma norður með vesturströndinni og Vestfjörðum og þaðan til austurs með norðurströndinni.

Þetta snertir ekki aðeins fiskimiðin heldur ekki síður fuglalífið í þremur stærstu fuglabjörgum Evrópu, Látrabjargi, Hælavíkurbjargi og Hornbjargi.

Ég hef kynnst því af eigin raun á siglningu meðfram Látrabjargi að enda þótt mönnum sýnist fuglarnir vera að mestu í björgunum eru lítið færri á sjónum og í kafi.  

Það er full ástæða til þess að vera á varðbergi og fylgjast með því sem virðist vera fylgifiskur vaxandi olíuflutninga við landið.  


mbl.is Gæslan fylgist með olíuskipi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórmerk kona.

Emilíana Torrini náði eyrum mínum fyrir allmörgum árum, ekki aðeins með tónlist sinni, heldur ekki síður vegna útvarpsviðtals við hana sem sýndi hve mikið er spunnið í þessa konu.

Viðtalið var tekið nálægt jólum og ég minnist svars hennar þegar hún var spurð hvað henni fyndist best við jólin. Hún svaraði: "Þá kemur ein helgi á árinu sem maður er laus við "skyldudjammið."

"Skyldudjammið" felst í því að vera á ferli á skemmtistöðum Reykjavíkur fram eftir nóttum um helgar, og miðað við fréttaflutning af því á hvaða krá hver var virtist ljóst, að til þess að vera sjáanlegur í umræðunni þyrfti fólk að vera þar, helst um hverja helgi.

Emilíana virðist ekki áfram um að auglýsa sig mikið hér heima, enda þarf hún þess ekki lengur.

Hún kemur þó víða við og á ólíklegustu stöðum, bæði erlendis og hér á landi.

Í bílasafninu að Ystafelli er til dæmis bíll sem hún hefur gefið safninu.

Það er bíll afa hennar, tónlistarmannsins Aage Lorange, af gerðinni Sunbeam Rapier. Flottur sýningargripur.

Það yljar þessa erfiðu daga í lífi þjóðarinnar að eiga konu eins og Emilíuönu Torrini.


mbl.is Emilíana Torrini og félagar hafa verið á flandri um Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fyrstu aðvaranir Gunnars.

513176A

Undanfarna tvo áratugi hefur Gunnar Tómasson gagnrýnt harðlega þá lausbeisluðu fjármálastefnu sem fór eins og eldur í sinu um heiminn á Thatcher-Reagan-tímabilinu.

Hann spáði því að þetta myndi ekki geta staðist til lengdar og varð sannspár.

Um mitt sumar 2008 varaði hann sterklega við því hvert hin gríðarlega skuldsetning Íslendinga myndi leiða þjóðina og varð líka sannspár í því.

Á þeim tíma höfðu hvorki fjölmiðlar né almenningur hugmynd um hve djúpt þjóðin var sokkin. Tölurnar sem Gunnar hafði þá dregið saman voru margfalt stærri en nokkurn óraði fyrir. 

Sú staðreynd er áfellisdómur yfir fjölmiðlum og stjórnvöldum á tímum "gróðærisins".

Gunnar er maður sem vert er að hlusta á og taka mark á.

Hann er ekki óskeikull frekar en aðrir dauðlegir menn og það er oft erfitt að spá fyrir um flókna hluti.

En ferill hans og greining fjármálakerfis heimsins síðustu tuttugu árin auk mikillar reynslu á sérsviði hans gefa til kynna að þarna fari maður sem hafi haft oftar og lengur rétt fyrir sér en nokkrir aðrir.


mbl.is Krónuskuld í gjaldeyrisskuld við AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gef oss í dag vort daglega álver...

Það má alveg orða síbyljubænina um stanslausar virkjanaframkvæmdir og álver á ofangreindan hátt því nær daglega hljómar söngurinn um að allt fari til fjandans nema þetta sé gert sem hraðast og örast. 

Þegar þetta er endurtekið svona ótal sinnum dögum, mánuðum, árum og áratugum saman er það eins og að skvetta vatni á gæs að reyna að beita rökum, sem enn hafa ekki verið hrakin, gegn þessari stefnu. 

Söngurinn um virkjanirnar og álverin er bara hækkaður og sunginn oftar eins og sést einu sinni enn á fréttinni um að allt sé í uppnámi vegna Suðvesturlínu. 

Nú síðast í fyrradag í Silfri Egils var alveg sama hvaða rökum ég gat komið inn á ská á milli þess sem sessunautur minn söng sinn daglega söng um virkjanir og álver, - þau bitu þau ekki vitund á hann.

Ég hefði alveg eins getað þagað hvað hann snerti. 

Hann svaraði þeim ekki, enda gat hann ekki hrakið það sem ég sagði um að sex risaálver sem tækju alla orku landsins og rústuðu einstæðri náttúru þess gæfu aðeins 2% af vinnuaflinu atvinnu og í mesta lagi 8% ef við margföldum með fjórum vegna svonefndra afleiddra starfa.

Nei, hann byrjaði aftur á því sama: Já, en það verða koma virkjana- og álversframkvæmdir strax.

Ekki beit það heldur þegar honum var bent á að séu sköpuð x þúsund störf við skammvinnar framkvæmdir verða sömu x þúsund manns atvinnulausar þegar framkvæmdunum lýkur. Þarna væri um algera skammsýni að ræða, ekkert horft fram á við né tillit tekið til komandi kynslóða.

"Að sjálfsögðu tökum við tillit til komandi kynslóða" sagði Guðbjörn og hélt síðan áfram sama söngnum eins og ekkert hefði í skorist. Greinilega þjálfaður söngmaður sem kann óperuhlutverk sín af lærðri þýskri nákvæmni og víkur ekki frá þeim.  

Þegar þetta hafði gengið tvisvar eða þrisvar sinnum kom söngurinn um að ég væri einn af þessum öfgamönnum sem værum á móti gagnaverum, þjónustu á Keflavíkurflugvelli, kísilverksmiðju, uppsetningu heilbrigisþjónustu og ég veit ekki hverju.

Ég reyndi að koma því inn á ská að ég væri ekki og hefði aldrei verið á móti neinu af þessu en það haggaði honum ekki. Ég var samt öfgamaður að hans áliti og Ólöf Nordal tók undir sönginn um öfgarnar.

Það gafst ekkert ráðrúm til að svara því til að svonefndar öfgar fælust í því að vilja þyrma einu horninu af Hellisheiði og hætta að pumpa svo mikilli orku upp að svæðið entist ekki nema í nokkra áratugi og þar með væri gengið á rétt komandi kynslóða.

Sessunautur minn var skemmtilegur og hress, það má hann eiga, og það var fjör.

Ekki hvað síst þegar hann lýsti því hve slæmir Vinstri grænir væru vegna klofnings en hældi síðan í næsta orði Sjálfstæðisflokknum fyrir að vera þverklofinn í ESB-málinu og margklofinn í sumum málum !

Þegar Alcoa kom til sögunnar á Austurlandi á sínum tíma lýsti talsmaður þeirra yfir því að samningar og undirbúningur á Íslandi gengi sjö sinnum hraðar fyrir sig en í öðrum löndum.

Eitt af mörgum dæmum um það var að mikilvægum undirbúningsatriðum, svo sem tilraunaborunum á misgengissvæðum var sleppt undir kjörorði fjölmiðlafulltrúa Landsvirkjunar: "Við ætluðum í gegn þar hvort eð var." 

Þeir voru lánsamir að sleppa með skrekkinn. 

Nú eru umhverfisráðherrar sakaður um skemmdarverk á Norðausturlandi og Suðvesturlandi þegar þeir viðhafa þá sjálfsögðu verkreglu að skoða stórframkvæmdir í heild en ekki í bútum jafnóðum og þær fara fram.

Í staðinn að kenna þeim um ætti að leita orsakanna hjá þeim sem vilja keyra allt áfram af fullu ábyrgðarleysi á ofurhraða, sem ætla í gegn hvort eð er, hvernig sem allt veltist.  

 

 


mbl.is Sáttmálinn í uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband