26.10.2009 | 13:20
Fálæti gagnvart landnáminu.
Bær er nefndur Stiklastaður í Þrændalögum í Noregi. Þangað liggur jafnan mikill straumur ferðamanna, einkum þegar þar er haldin mikil hátíð vegna orrustunnar sem þar var háð þegar Ólafur helgi féll þar.
Sú orrusta er marka upphaf vitundar Norðmanna um sig sem þjóð.
Settur er á svið mikill söngleikur um orrustuna og ýmsar uppákomur, sem sumar eru þar daglega og leikin eru atriði úr daglegu lífi fyrri tíma.
Árið 874 var haldin merk athöfn í Reykjavík. Ingólfur Arnarson varpaði öndvegissúlum sinum fyrir borð við flæðarmál og lét þær reka á land.
Vegna hafstrauma getur hann ekki hafa gert það úti fyrir Suðurlandi því ekkert það sem rekur með Irminger-grein Golfstraumsins norður með Garðskaga getur rekið til Reykjavíkur, - það rekur á land á Snæfellsnesi, samanber lík drengjanna tveggja sem fórust með Goðafossi.
Séra Þórir Stephensen hefur kannað þetta mál og telur að það sé útaf fyrir sig rétt að Ingólfur hafi varpað súlunum fyrir borð og þær rekið á land í Reykjavík.
Staðurinn var hins vegar valinn áður, því að ef staðið er við styttuna af Ingólfi í Hrífudal í Dalsfirði í Noregi, blasa við þrjú fjöll handan fjarðarins sem eru eins og spegilvent Esja, Skarðsheiði og Akrafjall.
Ingólfur sigldi til vesturs meðfram suðurströndinni og fann ekki gott hafnarlægi með svipuðu gróskumiklu umhverfi og heima fyrr en hann kom til Reykjavíkur.
Súlurnar voru heimiilisguðir hans og við víkina norðan við Arnarhól fór fram athöfn þar sem heimilisguðirnir friðmæltust við landvættina og fengu leyfi til landnáms hins trúaða víkings.
Síðan segir í Íslendingabók um Reykjavík: "Þar standa öndvegissúlurnar enn í eldhúsi."
Ef þeir réðu ferðinni, sem hafa byggt upp Stiklastað sem einn helsta ferðamannastað Noregs, færi fram árleg hátíð við Reykjavíkurhöfn þar sem sviðsett væri og endurtekin væri landnámsathöfn Ingólfs í fjölmennri uppfærslu söngleiks.
Minnismerki væri neðan við Arnarhól sem sýndi reknar öndvegissúlur og utar svipað skip og Ingólfur kom á.
Reykvíkingar eru furðulega fálátir um þá einstæðu möguleika sem felast í því að landnám alls landsins skuli vera talið hafa byrjað í Reykjavík.
Stórmerkar minjar um fyrstu byggð kúldrast fyrir náð og miskunn í hótelkjallara.
Í staðinn hefur í Reykjanesbæ verið tekið myndarlega til hendi varðandi víkingaöldina og víkingaskipin.
Hefur þó ekkert markvert komið þar að landi svo mér sé kunnugt um, ekki einu sinni Svartadauði. (Hann kom á land í Hvalfirði)
Suðurnesjamenn gera okkur Reykvíkingum skömm til.
Ég sýndi einu sinni í sjónvarpi í fréttum á myndrænan hátt hvaða möguleikar eru fyrir hendi við Reykjavíkurhöfn hvað þetta varðar. Líka hvað varðar möguleikana á að opna Lækinn.
Hafði ekki tök á að sækja Hugmyndaþing borgarinnar í gær, því miður.
Þótt búið sé að valta yfir svona hugmyndir með bílastæðavæðingu þessa svæðis má breyta því síðar.
En ég reikna ekki með því að það verði meðan ég lifi. Kannski síðar.
![]() |
Hugmyndaþing um Reykjavík í ráðhúsinu í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)