Fálæti gagnvart landnáminu.

Bær er nefndur Stiklastaður í Þrændalögum í Noregi. Þangað liggur jafnan mikill straumur ferðamanna, einkum þegar þar er haldin mikil hátíð vegna orrustunnar sem þar var háð þegar Ólafur helgi féll þar.

Sú orrusta er marka upphaf vitundar Norðmanna um sig sem þjóð.

Settur er á svið mikill söngleikur um orrustuna og ýmsar uppákomur, sem sumar eru þar daglega og leikin eru atriði úr daglegu lífi fyrri tíma.

Árið 874 var haldin merk athöfn í Reykjavík. Ingólfur Arnarson varpaði öndvegissúlum sinum fyrir borð við flæðarmál og lét þær reka á land.

Vegna hafstrauma getur hann ekki hafa gert það úti fyrir Suðurlandi því ekkert það sem rekur með Irminger-grein Golfstraumsins norður með Garðskaga getur rekið til Reykjavíkur, - það rekur á land á Snæfellsnesi, samanber lík drengjanna tveggja sem fórust með Goðafossi.

Séra Þórir Stephensen hefur kannað þetta mál og telur að það sé útaf fyrir sig rétt að Ingólfur hafi varpað súlunum fyrir borð og þær rekið á land í Reykjavík.

Staðurinn var hins vegar valinn áður, því að ef staðið er við styttuna af Ingólfi í Hrífudal í Dalsfirði í Noregi, blasa við þrjú fjöll handan fjarðarins sem eru eins og spegilvent Esja, Skarðsheiði og Akrafjall.

Ingólfur sigldi til vesturs meðfram suðurströndinni og fann ekki gott hafnarlægi með svipuðu gróskumiklu umhverfi og heima fyrr en hann kom til Reykjavíkur.

Súlurnar voru heimiilisguðir hans og við víkina norðan við Arnarhól fór fram athöfn þar sem heimilisguðirnir friðmæltust við landvættina og fengu leyfi til landnáms hins trúaða víkings.

Síðan segir í Íslendingabók um Reykjavík: "Þar standa öndvegissúlurnar enn í eldhúsi."

Ef þeir réðu ferðinni, sem hafa byggt upp Stiklastað sem einn helsta ferðamannastað Noregs, færi fram árleg hátíð við Reykjavíkurhöfn þar sem sviðsett væri og endurtekin væri landnámsathöfn Ingólfs í fjölmennri uppfærslu söngleiks.

Minnismerki væri neðan við Arnarhól sem sýndi reknar öndvegissúlur og utar svipað skip og Ingólfur kom á.

Reykvíkingar eru furðulega fálátir um þá einstæðu möguleika sem felast í því að landnám alls landsins skuli vera talið hafa byrjað í Reykjavík.

Stórmerkar minjar um fyrstu byggð kúldrast fyrir náð og miskunn í hótelkjallara.

Í staðinn hefur í Reykjanesbæ verið tekið myndarlega til hendi varðandi víkingaöldina og víkingaskipin.

Hefur þó ekkert markvert komið þar að landi svo mér sé kunnugt um, ekki einu sinni Svartadauði. (Hann kom á land í Hvalfirði)

Suðurnesjamenn gera okkur Reykvíkingum skömm til.

Ég sýndi einu sinni í sjónvarpi í fréttum á myndrænan hátt hvaða möguleikar eru fyrir hendi við Reykjavíkurhöfn hvað þetta varðar. Líka hvað varðar möguleikana á að opna Lækinn.

Hafði ekki tök á að sækja Hugmyndaþing borgarinnar í gær, því miður.

Þótt búið sé að valta yfir svona hugmyndir með bílastæðavæðingu þessa svæðis má breyta því síðar.

En ég reikna ekki með því að það verði meðan ég lifi. Kannski síðar.


mbl.is Hugmyndaþing um Reykjavík í ráðhúsinu í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það hefur lengstum verið skammaryrði að vera Reykvíkingur og voru þeir lengstum að vestan eða austan.....enginn pældi í því af hverju þeir voru ekki fyrir vestan eða austan...helst að það væri Reykjavík að kenna.

Val Ingólfs er margslungið t.d. var trúlega betri höfn í Hafnarfirði en þar var lengra í jarðhitann. Ingólfur dvaldi í Ingólfshöfða og undir Ingólfsfjalli. Hvort sem það var hann eða guðirnir sem réð búsetunni þá er það umhugsunarvert að hann valdi stað sem aldrei hefur verið hrekktur af náttúruöflunum en hafnaði mikið blómlegri sveitum sem reglulega haf mátt þola geigvænlegar náttúruhamfarir. Ingólfur vissi greinilega sínu viti utandyra þótt hann ruglaðsit á því hvað væri rúm og sæng.

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 13:55

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í hinum eyjum prýdda Kollafirði var gnægð af fugli og Reykjavík er einhver veðursælasti staður landsins, að minnsta kosti austurhluti Seltjarnarness.

Í Elliðaárstöð er hæstu meðalhiti á Íslandi í júlí. Það stafar af skjólinu fyrir norðanátt sem Esjan veitir og einnig af því að hinn 700 metra hái Reykjanesfjallgarður myndar varnargarð gegn mesta rakanum sem hvassar og blautar sunnan- og suðaustanáttir færa með sér.

Úrkoma er mun minni í Reykjavík en uppi í Breiðholti eða í Hafnarfirði.

Ómar Ragnarsson, 26.10.2009 kl. 14:53

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nesið allt var viði vaxið samanber þau örnefni sem enda á orðinu HOLT, sem þýðir skógur, sbr. þýska orðið holz.

Ómar Ragnarsson, 26.10.2009 kl. 14:54

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen þykir líklegast að sjávarstaða í Reykjavík hafi hækkað um 80 sentímetra árið 2100 og 205 sentímetra árið 2200 vegna landsigs og gróðurhúsaáhrifa.

Austurhöfnin - Minnisblað VST um sjávarstöðu í Reykjavík, sjá bls. 19

Þorsteinn Briem, 26.10.2009 kl. 15:44

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Reykjavík er best að búa,
betra en í raka og fúa,
aldrei vildi aftur snúa,
Ingólfur, þú mátt nú trúa.

Þorsteinn Briem, 26.10.2009 kl. 16:35

6 Smámynd: Óskar Þorkelsson

á landsnámsöld var Hafnafjörður ekki betri staður en reykjavík fyrir knerrina.. Hafnarfjörður er umlukinn hrauni, sem var frekar úfið í þokkabót og erfitt um vik að draga skip á land.. en það gerður landnámsmennirnir oftast nær yfir veturinn.. Þar sem ingólfur valdi sér landnám var einstaklega gott lægi fyrir knerrir.. en það var lági sjávarkamburinn sem var gerður að mestu úr möl, ekki ósvipað þeirri og sést í fjörunni við Gróttu og skildi að tjörnina og sjóinn, þar var sérlega gott draga skip á land .

ég tek undir með Ómari með svona hátið í reykjavík, en ansi er ég hræddur um að hafnfirðingar hafi nú þegar stolið víkingahátiðinni ;)

Óskar Þorkelsson, 26.10.2009 kl. 17:40

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

.. gleymdi að bæta við.. jarðhitinn var ekkert nýttur svo vitað sé til af landnámsmönnum.

Óskar Þorkelsson, 26.10.2009 kl. 17:40

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vegna nálægðar við góð fiskimið og hagstæðs veðurfars VALDI Ingólfur Arnarson að búa í Reykjavík, enda búa nú um 70% þjóðarinnar við sunnanverðan Faxaflóa, frá Akranesi að Garði, sem er eitt atvinnusvæði með strætisvagnasamgöngum.

Ísland er því borgríki og þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu afla engan veginn minni gjaldeyris á mann en þeir sem búa utan þessa svæðis. Og þau 30% landsmanna, sem búa utan höfuðborgarsvæðisins, fá alls ekki minna fé frá ríkinu á mann en þeir sem búa í Landnámi Ingólfs, en það náði frá Ölfusá að Hvalfirði.

Og mikil kornrækt var á Reykjanesi á landnámsöld.

Meðalhiti á Íslandi eftir mánuðum 1961-1990 - Kort


Vísindavefurinn - Helstu fiskimið við Ísland - Kort


Vísindavefurinn - Bestu fiskimiðin í Faxaflóa


Miðin Vestra-Hraun, Syðra-Hraun og Garðsjór í Faxaflóa - Kort


Vísindavefurinn - Hvaðan er nafnið Arnarhóll komið?


Landnámabók - Þeim virðist landið betra suður en norður - 4. kafli

Þorsteinn Briem, 27.10.2009 kl. 09:59

11 identicon

Sæll

Eg vildi bara minnast a að samkvæmt nyjustu söguskoðun var Ingolfur að öllum likindum ekki til. Sagan af honum og Hjörleifi er samkvæmt formulu um stofnun rikis (tveir bræður eða fostbræður, annar goður, hinn kluðrar og fær makleg malagjöld) þar sem sagan af Romulus og Remus er frægust. Engar heimildir um þessa kumpana eru algjörlega areiðanlegar þannig að það er ekki  lengur hægt að gera rað fyrir þeim sem öðru en goðsögn.

Afsakaið  

Runar (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 12:02

12 identicon

Afsakið skort a broddstöfum atti þetta að vera.

Runar (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 12:05

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er rétt að uppi eru ýmsar kenningar um það að svokölluð "minni" úr alþjóðlegum sögnum hafi ratað inn í sögu Íslands. Má þar nefna söguna af Njáli á Bergþórshvoli og brennu hans, en til munu svipaðar sagnir allt austur til Indlands þar sem jafnvel svipað nafn kemur fyrir.

Hugsanlega á það við um þetta að þegar treysta verður á munnlega geymd nokkurra kynslóða, eins og varðandi landnámsöld á Íslandi, geti sannleikurinn falist í hluta sögunnar, líkt og hægt er að segja um það að Ingólfur hafi varpað öndvegissúlunum fyrir borð og þær rekið á land í Reykjavík.

Ari fróði getur þess sérstaklega að súlurnar séu enn í eldhúsi í Reykjavík sem minjar um athöfnina í fjörunni við Arnarhól.

Það vekur athygli að yfirleitt er einn landnámsmaður við stjórn hvers landnámsleiðangurs þegar siglt er til Íslands og að sögnin um Ingólf og Hjörleif er því undantekning.

Hafi alþjóðleg sögn blandast inn í frásögnina af landnámi Ingólfs er það eðlilegt að Hjörleifur sé drepinn vegna þess að annar hefði hann numið land fyrir sig eins og Ingólfur.

Hvergi er þess getið í heimildum um landnám að tveir menn hafi sameiginlega getað numið land.

Af þeim sökum gæti það hafa komið sér vel fyrir söguna að láta Hjörleif hverfa, en hugsanlega var hann aldrei til og sögnin um landferð Ingólfs líka ósennileg.

Líklega hefur Kögunarhóll við Ingólfsfjall heitið Inghóll í árdaga og fjallið Inghólsfjall, enda er Kögunarhóll helsta einkenni fjallsins sem greinir það frá öðrum fjöllum.

Mín tilgáta um sennilegustu útgáfuna er þessi: Ingólfur Arnarson var til og nam land í Reykjavík eftir að hafa siglt til vesturs meðfram Suðuströndinni og ekki fundið heppilegan stað fyrr en í Reykjavík.

Hann var mikill trúmaður og afkomendur hans varðveittu öndvegissúlurnar, heimilisgoð hans, í alllangan tíma eftir að kristni var lögtekin.

Önnur atriði sögunnar um hann eru líklegast tilbúningur, byggður á óáreiðanlegum sögusögnum.

Ómar Ragnarsson, 27.10.2009 kl. 18:49

16 identicon

"......landnám alls landsins skuli vera talið hafa byrjað í Reykjavík."  Við megum ekki  gleyma Keltunum sem byggðu landið á undan "landnámsmönnum" og voru hér fyrir þegar öndvegissúlur Ingólfs rak að landi.

Ólafur (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 11:13

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

"2008-2009 fór fram fornleifauppgröftur í hjarta Reykjavíkur á svokölluðum Alþingisreit sem afmarkast af Kirkjustræti, Tjarnargötu og Vonarstræti.

Þar fundust minjar allt frá elstu byggð á Íslandi á 9. öld. Benda þær til þess að á þessu svæði hafi verið iðnaðar- og athafnasvæði fyrstu Reykvíkinganna.


Meðal minja sem fundist hafa er um 18 metra langur viðarstígur frá 9. öld, kolagröf og minjar um átta járnvinnsluofna. Einnig fundust leifar af þremur byggingum frá 10.-12. öld og í tveimur þeirra vegleg eldstæði."

Þorsteinn Briem, 28.10.2009 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband