Málið snýst ekki um það.

Til eru þeir sem hafa talið það forvitnilegt hvernig spilast muni úr því að lofa villifénu í Tálknanum að vera í friði og sjá hvort kenningar Darwins muni þar sannast.

Ólafur Dýrmundsson er þrautreyndur ráðunautur og hefur vafalaust rétt fyrir sér varðandi það að féð hafi ekkert verndargildi eins og er.

Ég sé ekki að þetta breyti því eðli málsins að féð sjálft hefur sannað það með tilveru sinni þarna í marga áratugi og með því að hafa staðist blóðbað þegar það var skotið á færi úr þyrlu fyrir meira en 20 árum, að út af fyrir sig er staða þess hin sama og hjá hreindýrunum eftir að þau voru flutt til landsins en ekki eins og hjá venjulegu tömdu búfé.

Spyrja má hvort það standist dýraverndunarlög að hundelta það ofsahrætt og valda því að eitthvað af því lemstrast og hrapar.

Ég sé ekki mikinn mun á því eða að gera misheppnaða skotárás á það úr lofti eins og hér um árið.

Sagt er að breyta þurfi ýmsum lagabókstöfum til þess að komast hjá því að herja á það.

Þá er bara að skoða hvaða breytingar þurfi og kanna málið frá öllum hliðum.

Ekki skjóta fyrst og spyrja svo.


mbl.is Segir féð ekki hafa neitt verndargildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmigert.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Það virðist raunin varðandi McDonalds hamborgarana ef marka má tvöfalda aðsókn síðustu daga að hinu ameríska kjöti á Íslandi.

Þetta er ekkert einsdæmi. Þegar samkeppni í flugi innanlands var gefin frjáls fyrir áratug hóf Íslandsflug að fljúga til nokkurra staða úti á landi á helmingi lægra verði en Flugfélag Íslands.

Flugfélag Íslands brást hart við og lækkaði fargjöld sín um helming. Á þeim tíma hafði félagið öflugasta bakhjarl landsins, var aðili að sjálfum Kolkrabbanum, og var einkennilegt að enginn skyldi sjá í gegnum það að fyrirtæki, sem áður hafði barmað sér áratugum saman yfir því hve útilokað væri að lækka fargjöldin, átti skyndilega auðvelt með að fara með þau niður um helming.

Nú hefði mátt ætla að landinn umbunaði því flugfélagi sem hafði valdið því með innkomu sinni að fargjöldin lækkuðu.

En það var nú eitthvað annað. Fólk flykktist um borð í vélar Flugfélagsins og nýtti sér lækkuðu fargjöldin þar.

Íslandsflug flaug til Ísafjarðar á Dornier 228 flugvélum. Þær voru helmingi minni en Fokker F50 vélarnar en á móti kom að þær voru eins og sniðnar fyrir hinar erfiðu og hættulegu aðstæður á Ísafjarðarflugvelli.

Ef hreyfill bilar vinstra megin á Fokker 50 vél í flugtaki inn fjörðinn þar, er áframhaldandi flugtak í hægri beygju til að komast út fjörðinn á allra tæpasta vaði, munar aðeins nokkrum metrum á að lenda á hindrunum og allt þarf að ganga upp, færni flugmanna og flugskilyrði.

Þetta hafði ég kynnt mé þegar Flugfélagið keypti F50 vélar sínar en hafnaði mun nýtískulegri og hagkvæmari vélum.

Dornier 228 hefur hins vegar slíka yfirburðaeiginleika við þessar aðstæður að segja má að hún gæti flogið hringi í kringum F50.

Auk þess gerði stærð þeirra mögulegt að bjóða upp á fleiri ferðir á dag en á F50.

En fólk hélt áfram að flykkjast um borð í Fokkerana á meðan Dornier-vélarnar flugu nær tómar.

Íslandflug varð að beygja sig fyrir ofurefli þess bakfjármagns, sem Flugfélagið hafði til herkostnaðarins, og auglýsti að það gæfist upp.

En hvað gerðist þá?

Síðustu vikuna áður en flugi félagsins var hætt flykktist fólk um borð í Dornier 228.

Þegar Íslandsflug var horfið af markaðnum hækkaði Flugfélagið að sjálfsögðu verð sitt jafnt og þétt í skjóli einokunarinnar þangað til það var orðið jafn hátt og það hafði alltaf verið !


mbl.is Allt brjálað að gera hjá McDonald's
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband