Ómissandi haustboði? Snilld Davíðs?

Rjúpnavertíðin var ekki einu sinni byrjuð þegar lögreglan var búin að hafa afskipti af fyrstu rjúpnaskyttunum sem höfðu tekið forskot á sæluna. 

Og fyrsta leitin að rjúpnaskyttu var komin af stað strax á fyrsta degi veiðitímabilsins.

Lóan er oft kölluð vorboði og ætli rjúpnaskyttan týnda sé þá ekki haust- eða vetrarboði?

"Ein er upp til fjalla" er yfirskrift leiðara Morgunblaðsins í dag og ég hélt fyrst að hann væri um rjúpuna.

En hann var um villikindurnar í Tálknanum og mér sýnist ég sjá bestu höfundareinkenni Davíðs Oddsonar á honum.

Að mínum dómi snilldarvel skrifaður eins og Davíðs var von og vísa ef hann er höfundurinn.

Sé hann þarna að verki er hann greinilega fínu ritformi og nú getum við verið innilega sammála og ég þakklátur honum fyrir liðveisluna.  

 


mbl.is Rjúpnaskyttuleit á fyrsta degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill munur á afstöðu.

Hamagangurinn við að koma Helguvíkurálverinu á koppinn og taka áhættu á því að öll orkan á Suðvesturlandi fari í þetta eina verkefni stingur í stúf við áhuga manna á öðrum kostum til nýtingar landsins. 

Þetta kom vel fram í mjög athyglisverðu viðtali sem tekið var við Kjartan Lárusson í Speglinum í kvöld.

Hann lýsti því hvernig búið var að undirbúa vel stórkostlega áætlun um nýtingu jarðhita í Krýsuvík á árunum 1970-72 sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og aðrar erlendar stofnanir voru tilbúnar að standa að og fjármagna.

Færustu fáanlegu sérfræðingar, verkfræðingar og arkitektar voru búnir að hanna þetta allt, og með því að halda áfram með þetta verkefni hefði Ísland tekið forystu í vistvænni nýtingu jarðhita til ferðamennsku af fjölbreyttu tagi, heilsuræktar og annarra sviða útivistar og ferðalaga.

Hefði skapað hundruð starfa og orðið akkur fyrir orðspor og viðskiptavild Íslands.

En svo var á Kjartani að skilja að íslensk þröngsýni hefði stöðvað þetta og þar með tafið þróunina í þessum efnu um marga áratugi.

Enn er eins og við getum ekki komist út úr þessari þrálátu hugsun, að eina forsendan, sem finnanleg sé fyrir atvinnulífi á Íslandi sé fólgin í stóriðju, sem hefur í för með sér mesta orkubruðl heims og langdýrustu störfin þegar upp er staðið.    


mbl.is Góð tíðindi fyrir Reykjanesbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfum naflaskoðun í þessu og fleiru.

Þegar maður skoðar það fyrirbæri að fara ekki eftir ákvæðum um 30 kílómetra hámarkshraða sér maður hvað það er í raun heimskulegt ef maður brýtur gegn þessum takmörkunum sem gilda á mjög stuttum akstursköflum og ímyndaður ávinningur mjög lítill, mældur í sekúndum frekar en mínútum.

Ávinningur af því að aka á 90 kílómetra hraða um Hvalfjarðargöng í stað 70 er ekki nema ein mínúta.

Hvaða máli skiptir þetta á akstursleið sem tekur frá 40 mínútum upp í margar klukkustundir að aka?

Mælingar lögreglunnar á Barónsstíg eru því mjög mikilsverðar því að þær varpa ljósi á þá brotalöm sem þarna birtist.

DSCF3041

Lögreglan mætti líka taka fyrir önnur atriði svo sem skort á því að gefa stefnuljós og tillitsleysi við gatnamót og í akstri á akreinum.

Birti til fróðleiks mynd af bíl sem bíður eftir því að fara til vinstri á gatnamótum en hlammar sér þannig niður við gatnamótin að vera ekki við miðlínu heldur alveg yst úti til hægri. 

Að vísu eru umferðarljós á þessum stað svo að þessi hegðun hans kemur ekki eins að sök þarna og á gatnamótum þar sem ekki eru ljós.

Ef þetta er hins vegar vani hans eins og hjá svo mörgum, sem er langlíklegast, lokar þetta leiðinni fyrir þá fyrir aftan hann sem ætla að beygja til hægri.   

Þeir komast þá hvergi þótt sú leið sé miklu frekar greið vegna þess að í þá átt þarf aðeins að smokra sér inn í umferð í aðra áttina.

Í vinstri beygju þarf hins vegar oft að bíða lengi eftir því að autt bil myndist á báðum aksturstefnum á götunni, sem fara á inn á. 

Þegar svona staða kemur upp er ég á minnsta og mjósta bíl sem völ er á, en samt er engu líkara en að ökumenn fyrir framan leggi sig oft í framkróka við að hamla för þeirra sem á eftir eru.

Ég ætla þeim reyndar ekki að hugsa þannig heldur frekar að þeir stansi svona hugsunarlaust, - þeir, sem eru fyrir aftan þá, koma þeim ekki við.  


mbl.is Þriðjungur ökumanna ók of hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband