Þakklátt fólk út á landi.

Það var yndislegt að koma til Ólafsfjarðar í gærkvöldi og hitta fólkið þar í Tjarnarborg til að fara yfir sviðið á þeirri hálfu öld sem er liðin síðan ég skemmti í fyrsta sinn úti á landi, en það var einmitt á Ólafsfirði.

Ég man varla eftir betri stemingu á samkomu úti á landi, fólkið fyllti vel út í salinn, hljóðfærið var frábært, sem og hljómflutningskerfið og lýsingin.

Við þessar aðstæður fór minn frábæri undirleikari, Haukur Heiðar Ingólfsson á kostum og var á við heila hljómsveit, enda hafa hann og nokkrir aðrir Norðlendingar, svo sem Ingimar heitinn Eydal, Gunnar Gunnarsson og Tómas Einarsson, þróað sérstæða undirleikstækni á píanó sem hefur hlotið heitið skálm. Forráðamenn hússins, Eggert og Hafdís, frábært samstarfsfólk, og minn gamli aldavinur í Langadalnum, Valdimar Steingrímsson, lét ekki sitt eftir liggja.

Ég nefndi þessa rúmlega tveggja tíma skemmtun hátíðarsamkomu og hún sýndi að fólkið úti í hinum dreifðu byggðum landsins er fúst til að leggja sitt af mörkum til að létta undir með hvert öðru í kreppunni.

Allt þetta fór fram úr mínum björtustu vonum og ég vil skila sérstöku þakklæti mínu til fólksins, sem leyfði mér að eiga með því þessa ljúfu kvöldstund í gærkvöldi.

Það yljar gömlum landsbyggðarunnanda um hjartarætur.


mbl.is Vel heppnuð hátíð í Mýrdalnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með Framarakveðju.

Ég er búinn að vera lengur skráður félagi í Fram en ég hef lifað og það má nærri geta hve mikið ég lifði mig inn í þann hluta bikarúrslitaleiksins, sem ég hafði tök á að horfa á í sjónvarpi á ferð um Eyjafjörð í gær.

Mér fannst það skemmtilegur leikur sem þessi lið buðu upp á og spennan mikil, eins og sést á því hve litlu munaði oft að mitt lið skoraði og hve litlu munaði að skot Paul McShane færi inn.

Það er haft að orðtaki að "sætt sé sameiginlegt skipbrot" og það er svo sem hægt að nota það um þessa bikarkeppni.

Úr því að mitt félag varð ekki bikarmeistari var það þó huggun harmi gegn að KR varð það ekki heldur, heldur félag sem aldrei hefur hampað bikarnum.

Þess vegna flytur gamli Framarinn Breiðabliki hamingjuóskir með þennan áfanga í sögu þess félags.  


mbl.is Breiðablik bikarmeistari í fyrsta skipti eftir vítakeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður vetrarsnjór á Ólafsfirði.

Ég veit ekki hvort ég nota rétt orð þegar ég segi "góður" vetrarsnjór, en með því á ég við það að snjórinn sem fallið hefur við utanverðan Eyjafjörð síðustu dægur er nógu mikill til þess að hægt sé að fara á skíði.

Á hinn bóginn er snjórinn orðinn nógu mikill til þess að trufla samgöngur, því að svo mikill vetrarsnjór fellur ekki oft þetta snemma, jafnvel á þeim slóðum sem ég er að tala um og ég var á í gærkvöldi.

Valdimar Steingrímsson, sem þekktur var fyrir hættuleg störf sín við ruðning Ólafsfjarðarmúla, átti í vandræðum með að komast um innanbæjar á bíl sínum vegna hálku og þæfingsfærðar.

Ég gat því verið ánægður með það að komast á leiðarenda á minnsta bíl landsins til að gefa rétta stemningu fyrir stefnumót mitt við Ólafsfirðinga í Tjarnaborg í gærkvöldi þar sem farið var í léttu tali og tónum yfir síðustu hálfa öld.

Í dag er hið fegursta vetrarveður á Akureyri og hátíðlegt að sjá prúðbúið fólk í sunnudagsfötum ganga til kirkju með alla þessa vetrarfegurð sem umlykur bæinn.

Ég er í hörðu kvikmyndatökuverkefni í dag og þar sem ég blogga er ekki færi á að láta myndir fylgja með. Þær koma seinna.


mbl.is Færð á vegum - opið um Arnkötludal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband