Áfram á sömu braut !

Fyrir einu og hálfu ári hefði verið óhugsandi að halda Þjóðfund á borð við þann sem hann var haldinn í gær. 

P1010591

Á þeim tíma og raunar næsta ár á undan því, þegar allt snerist um að græða sem mesta peninga, ímyndaða að stærstum hluta, hefði verið óhugsandi að umhverfismál hefðu lent í einu af efstu sætum málaflokkanna sem ræddir voru.

Fyrir einu og hálfu ári hefði eitthvað annað orð en heiðarleiki lent í efsta sæti yfir þau gildi sem þjóðin mæti mest.

Fyrirfram óttaðist ég að svona fundur gæti ekki haldið þröngri tímaáætlun og að á hverju níu manna borði yrði hægt að koma frá sér 20 orða ályktun um stefnu þjóðarinnar til framtíðar.

Meirihluti fundarfólks var ekki vant fundarstörfum af þessu tagi.  

P1010592

En hvort tveggja tókst með glæsibrag í gær og fundarstörfin voru á undan áætlun ef eitthvað var án þess að neitt skorti á að skila viðfangsefnunum á viðunandi hátt.

En þá spyrja menn:  Er ekki flest af því sem kom út úr fundinum marklaust orðagjálfur?

Vissu allir hvað orðin og setningarnar merktu sem frá fundinum komu?

Ég vil nefna eitt algegnasta dæmið um þetta.

Á tveimur borðum, sem ég starfaði, reyndist það erfiðast að átta sig á hvað tískuorðið "sjálfbærni" þýddi.

Gallinn við þetta íslenska orð er sá að í hugum Íslendinga nær þetta orð yfir miklu víðara svið en enska hugtakið "sustainable developement". 

Sama er að segja þótt orðinu "þróun" sé bætt við. Íslendingar virðast almenn leggja miklu víðari merkingu í þetta hugtak en aðrar þjóðir og rugla þessu saman við það að þjóðin sé sjálfri sér nóg á öllum sviðum eins og kostur er og þurfi ekki að flytja inn vörur og hugmyndir. 

Orðið "sustainable" þýðir að eitthvað sé varanlegt og geti gengið áfram þannig að kynslóðir framtíðarinnar séu ekki rændar fyrirbærinu, og "developement" sem er samheiti sem nær yfir starfsemi, framkvæmdir, nýtingu.  

Þetta er mjög bagalegt því að í umræðu í því alþjóðlega samfélagi sem við Íslendingar erum hluti af verður svona að að vera á hreinu.

Á ráðstefnunni í Ríó 1992 gengust Íslendingar við því ásamt öðrum þjóðum að hafa "sustainable developement" í heiðri og var þetta þýtt sem sjálfbær þróun.  

Fólkið, sem sat við borðin, sem ég sat við, speglaði þverskurð þjóðarinnar. Á báðum borðunum reyndist óhjákvæmlegt að fara í gegnum það hvað orðið sjálfbærni merkti og hvað væri meint með orðunum "sjálfbær þróun." 

Mjög algengt virtist að fólk tengdi orðið við sjálfsþurftabúskap og þetta heyrði maður að væri svipað um allan salinn.

Eftir þennan þjóðfund verður unnið úr ályktunum og niðurstöðum fólksins og þá kemur þetta vandamál aftur upp. Hvað meinti fólkið við viðkomandi borð raunverulega þegar það lagði áherslu á sjálfbærni?

Þetta atriði, skortur á upplýsingu og þekkingu er eitt af fjölmörgum, sem svona fundur leiðir í ljós.

Það er ekki fólkinu í salnum að kenna heldur þeim sviðum og stofnunum þjóðfélagsins sem eiga að sjá um að dreifa þekkingu og halda uppi umræðu.  

Orðtakið "sjálfbær þróun" er skilgreint svona: "Sjálfbær þróun er þróun sem tryggir að komandi kynslóðir geti valið sér þá þróun sem þær kjósa."   

Þetta þýðir að við eigum að forðast að taka fram fyrir hendurnar á komandi kynslóðum, til dæmis að forðast aðgerðir, starfsemi eða nýtingu sem hafa neikvæðar og óafturkræfar afleiðingar fyrir kynslóðir framtíðarinnar. 

Þjóðfundurinn í gær markar vonandi upphaf aukinnar og skilvirkari lýðræðislegrar þátttöku og áhrifa almennings í þjóðlífi og stjórnmálum. 

Ef rétt verður á haldið getur hann farið inn í sögubækurnar sem stórmerkur atburður.  

Ef neðri myndin er stækkuð eins og hægt er að gera með því að smella tvívegis á hana, sjást raðir af gulum miðum, en á hverjum þeirra stendur hugmynd um gildi og takmörk, sem hver maður við borðið hefur sett á hann.

Þarna er búið að flokka miðana í málefnaflokka og fullrúarnir eru að gefa þremur miðum atkvæði sitt og síðar þeim þremur málaflokkum atkvæði sem þeir telja mikilvægasta.  


mbl.is Fólk logandi af áhuga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í annað sinn á stuttum tíma.

Það eru ekki nema nokkrar vikur síðan við hjónin, Helga og ég, sáum loftstein splundrast þegar við voru að koma um miðnætti norðan úr landi og vorum stödd yst við Hvalfjörð.

Í kvöld sáum við svipað á leið um Flóaveg fyrir austan Selfoss og í sömu átt.

En það var fleira að sjá. Á leið frá árshátíð Jöklarannsóknarfélags Íslands í Þórsmörk fylltu Norðurljós hálfan himininn og í logninu og heiðríkjunni í Þórsmörk ljómaði himininn af stjörnudýrð sinni.

Þessu missa höfuðborgar oft af vegna hinnar miklu rafbirtu sem fyllir loftið yfir borginni.

Þegar Iðunn, dóttir okkar, og Friðrik Sigurðsson tengdasonur okkar, voru kennarar í Vík í Mýrdal hér um árið var það eitt hið minnisstæðasta frá dvöl þeirra þar að sjá ásamt börnum sínum slíka sjón, sem þau voru rænd þann tíma sem þau ólust upp í Reykjavík.


mbl.is Loftsteinn sprakk á austurhimni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband