17.11.2009 | 20:33
Til varnar landi og tungu.
Það tvennt, sem helst sameinar íslensku þjóðina, er landið og tungan sem hvort tveggja skapar okkur sóma og heiður í augum umheimsins ef við leggjum við þetta rækt.
Í degi íslenskrar tungu í gær kom fram að móðurmálið á í vök að verjast, bæði vegna tómlætis um það, sem birtist í menntastofnunum, og einnig mátti sjá á bloggsíðum í gær skrif og athugasemdir sem sýndi að sumum finnst lítið til íslenskunnar koma og telja jafnvel að best sé að láta hana deyja drottni sínum svo að þjóðin sé ekki að eyða fé og tíma í að halda henni við.
Á útgáfusamkomu ævisögu Vigdísar Finnbogadóttur í Iðnó nú síðdegis söng kór aldeilis frábær íslensk lög sem unun var að hlýða á. Þetta var vel viðeigandi hjá konu, sem hefur sýnt tungunni og landinu sérstaka rækt.
Ég sé ekki neina ástæðu fyrir Íslendinga til að vera með minnimáttarkennd gagnvart tungumálum, tónlist og annarri menningu stórþjóða.
Raunar er það svo að erlendis, til dæmis hjá Sameinuðu þjóðunum, er mikil áhersla lögð á að viðhalda og varðveita menningarverðmæti mismunandi þjóða um allan heim.
Til eru þeir sem telja að við eigum að taka upp ensku til þess að spara tíma og fé því að á þann hátt muni okkur vegna betur.
Þegar litið er til þjóða Evrópu er ekki að sjá þeim rúmlega tuttugu þjóðum, sem þurfa að kunna einu tungumáli meira en Bretar, Frakkar og Spánverjar, vegni neitt verr en stórþjóðunum.
Ekki er að sjá að þetta sé til dæmis Norðurlandaþjóðunum fjötur um fót.
Allar þjóðir gera til dæmis þær kröfur til fjölmiðlafólks að það hafi fullkomið vald á þjóðtungu sinni.
Á það sýnist mér skorta hér á landi og virðist þessi vankunnátta færast í vöxt.
Annað hvort er þjóðtungan þjóðtunga eða ekki.
Íslendingar njóta virðingar í samfélagi þjóðanna, ekki síst í norðanverðri Evrópu fyrir að hafa varðveitt tungumál fornbókmennta okkar og norrænan menningararf.
Fyrir þá sem meta ekkert neins nema til peninga er rétt að huga að því að slíkur heiður og sómi getur verið peninga virði í viðskiptavild og samskiptum.
![]() |
Útgáfu ævisögu Vigdísar fagnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.11.2009 | 14:59
Vigdís Finnbogadóttir, - hugrekki og fórnarlund.
Nú síðdegis verður útgáfa ævisögu Vigdísar Finnbogadóttur kynnt. Ég ber gríðarlega virðingu fyrir henni og skal aðeins nefna þrjú atriði.
Hún var valin kona 20. aldar á Íslandi og þarf ekki fleiri orð að hafa um það. Þá sögu eiga allir að þekkja.
Hún hefur flestum öðrum gert sér grein fyrir því þrennu, sem ég bloggaði um í gær á degi íslenskrar tungu: "Að þrenning ein og órofa er land, tunga og þjóð."
Hún gat setið róleg og notið geysilegra vinsælda sinna eftir að hún lét af embætti, - ornað sér við lárviðarsveiga mikils árangurs, sem varð heimsþekktur, og þakklæti þjóðarinnar vegna þess hvernig hún bar hróður hennar víða um lönd.
En hún hikaði ekki við að stíga fram og taka afstöðu í heitasta og mikilsverðasta deilumáli síðustu ára, hvernig skuli fara með íslenska náttúru. Hún sýndi með því meira hugrekki og fórnarlund en ég hafði ímyndað mér að manneskja í hennar stöðu gæti gert.
Kennedy Bandaríkjaforseti skrifaði ungur að árum Pulitzer-verðlaunabókina "Profiles of Courage" (fékk leiðréttingu í athugasemd, - hún hét Profiles in Courage") sem mætti kalla Frásagnir af hugrökku fólki.
Þar voru stórkoslegar sögur af fólki, sem ekki lét hrekjast fyrir óþægindum eða hótunum frá sannfæringu sinni. Um síðir fékk það uppreisn æru, stundum ekki fyrr en eftir sinn dag.
Vigdís Finnbogadóttir er slík manneskja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)