Til varnar landi og tungu.

Það tvennt, sem helst sameinar íslensku þjóðina, er landið og tungan sem hvort tveggja skapar okkur sóma og heiður í augum umheimsins ef við leggjum við þetta rækt. 

Í degi íslenskrar tungu í gær kom fram að móðurmálið á í vök að verjast, bæði vegna tómlætis um það, sem birtist í menntastofnunum, og einnig mátti sjá á bloggsíðum í gær skrif og athugasemdir sem sýndi að sumum finnst lítið til íslenskunnar koma og telja jafnvel að best sé að láta hana deyja drottni sínum svo að þjóðin sé ekki að eyða fé og tíma í að halda henni við.

Á útgáfusamkomu ævisögu Vigdísar Finnbogadóttur í Iðnó nú síðdegis söng kór aldeilis frábær íslensk lög sem unun var að hlýða á. Þetta var vel viðeigandi hjá konu, sem hefur sýnt tungunni og landinu sérstaka rækt.

Ég sé ekki neina ástæðu fyrir Íslendinga til að vera með minnimáttarkennd gagnvart tungumálum, tónlist og annarri menningu stórþjóða.

Raunar er það svo að erlendis, til dæmis hjá Sameinuðu þjóðunum, er mikil áhersla lögð á að viðhalda og varðveita menningarverðmæti mismunandi þjóða um allan heim.

Til eru þeir sem telja að við eigum að taka upp ensku til þess að spara tíma og fé því að á þann hátt muni okkur vegna betur.

Þegar litið er til þjóða Evrópu er ekki að sjá þeim rúmlega tuttugu þjóðum, sem þurfa að kunna einu tungumáli meira en Bretar, Frakkar og Spánverjar, vegni neitt verr en stórþjóðunum.

Ekki er að sjá að þetta sé til dæmis Norðurlandaþjóðunum fjötur um fót.

Allar þjóðir gera til dæmis þær kröfur til fjölmiðlafólks að það hafi fullkomið vald á þjóðtungu sinni. 

Á það sýnist mér skorta hér á landi og virðist þessi vankunnátta færast í vöxt.

Annað hvort er þjóðtungan þjóðtunga eða ekki.

Íslendingar njóta virðingar í samfélagi þjóðanna, ekki síst í norðanverðri Evrópu fyrir að hafa varðveitt tungumál fornbókmennta okkar og norrænan menningararf.

Fyrir þá sem meta ekkert neins nema til peninga er rétt að huga að því að slíkur heiður og sómi getur verið peninga virði í viðskiptavild og samskiptum.  


mbl.is Útgáfu ævisögu Vigdísar fagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Manstu? Einu sinni þýddi ekki að bjóða sig fram til þings án þess að hafa skoðun á íslenskri menningu. Sú skoðun var lengi vel alltaf efst á blaði. Íslenska tungu skyldi verja og vernda því án hennar væru engir íslendingar til. Ég man ekki hvenær menn lögðu þennan pólitíska farangur frá sér en trúlega  mætti rekja sig þangað og bjarga þessari hugsun og skilningur á varðveislugildi menningararfs hefur vaxið með árunum. Til að hugsa á íslensku þarftu að kunna hana. Regnið sem drýpur af ufsunum getur verið erlent en hugsunin, málið,  er eftir sem áður íslenskt.Það er fyrir öllu.

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 17.11.2009 kl. 21:20

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þeir sem eru bestir í íslensku eru einnig bestir í erlendum tungumálum.

Flestir Íslendingar, sem ég hef heyrt tala "ensku", tala hana frekar illa, með þykkum íslenskum hreim og lélegum orðaforða.

Samt vilja þeir gapa um allt á þessu hrognamáli og kunna yfirleitt ekkert í öðrum erlendum tungumálum en þessari "ensku" sinni.

Það er ekki það sama að sitja lengi á skólabekk og afla sér góðrar menntunar. Þannig verður enginn góður kennari af því einu að sitja inni í skólastofu í tvo áratugi þar til sveppir taka sér bólfestu í kollinum á honum og hann útskrifast á magisterum.

Þorsteinn Briem, 18.11.2009 kl. 00:22

3 identicon

Sú þjóð sem glatar tungu sinni glatar þar með sinni eigin menningu. Það sést best á þeim þjóðarbrotum umhverfis okkur, sem glatað hafa tungu sinni og sérkennum og sogast upp í aðlæg menningarsvæði.

Barátta Fjölnismanna á sínum tíma fyrir íslenskunni var meginþáttur sjálfstæðisbaráttu þess tíma. Sofandaháttur hvað varðar mikilvægi íslenskunnar er e.t.v. tímanna tákn og hluti þess skipbrots, efnahagslegs og siðferðilegs, sem virðist orðið í íslensku þjóðfélagi.

Hörmulegt er að sjá þegar enska er rituð á íslensku, Enskum orðatiiltækjum snúið beint á íslensku án nokkurrar frekari umhugsunar. Enn verri er svo sú röksemdafærslu að slík ómenning sé merki um þróun íslensks máls.

Konráð S. Konráðsson (IP-tala skráð) 19.11.2009 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband