Búdda-stytturnar í Afganistan.

250px-Afghanistan_Statua_di_Budda_1-1

Það sauð og kraumaði af mótmælum og hneykslan í alþjóðasamfélaginu þegar stjórn Talibana í Afganistan stóð að því 2001 að sprengja og eyðilegggja risastórar styttur af Búdda, sem gerðar höfðu verið fyrir margt löngu í 2500 metra hæð uppi í fjöllunum 230 kílómetra frá höfuðborginni Kabúl. 

Þótti þetta mikil óhæfa. Þó voru áreiðanlega til lönd í heiminum, þar á meðal Ísland, þar sem enginn hafði séð þessar styttur.

Það var réttilega ekki talið skipta máli heldur vitneskjan um að þessi listaverk og menningarverðmæti væru til.

Þetta sögðu og viðurkenndu menn hér á landi sem sögðu á hinn bóginn að engin ástæða væri til að varðveita náttúruverðmæti hér á landi vegna þess hve fáir hefðu séð þau.  

Nú vilja Japanir og Svisslendingar fá að standa að því að endurgera þessar styttur og af því má draga þá ályktun að þessi hervirki hinna illu Talibana hafi samt sem áður verið bætanleg og eyðilegging þeirra afturkræf.

Hér á Íslandi leggja menn kollhúfur yfir því að hinn eldvirki hluti landsins sé talinn eitt af helstu náttúruundrum veraldar og telja það í góðu lagi að eyðileggja sumt af því merkasta á algerlega óafturkræfan hátt vegna þess að svo fáir hafi séð viðkomandi verðmæti.

Nýrunnið og úfið hraun í Gjástykki verður ekki endurgert eins og stytturnar í Afganistan og þaðan af síður verður Hjalladalur sem nú hefur verið drekkt í drullu endurheimtur með öllum sínum fjölbreytilegu náttúruverðmætum.

Það er hins vegar til marks um það hvernig allri umræðu er snúið á haus að það fólk á vinstri væng stjórnmálanna sem fyrir nokkrum árum vildi ekki ganga braut óafturkræfrar eyðileggingar á mestu verðmætum landsins skyldi fá uppnefnið Talibanar á sínum tíma.  

George Orwell hefði elskað að setja slíkt inn í bók sína 1984.  


Mistök og leynd á Íslandi.

Mistökin og leyndin varðandi innrásina í Írak voru verri á Íslandi en í Bretlandi. '

Hér á landi var ekki aðeins tekið undir rangfærslur Bandaríkjamanna um gerðeyðingarvopn í Írak heldur tóku tveir menn, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson sér það bessaleyfi að ákveða leynilega tveir einir að Íslendingar skyldu varpa fyrir róða á áberandi hátt utanríkisstefnu þjóðarinnar allt frá 1918 og gerast aðilar að þessari árás á fjarlæga þjóð.

Í skoðanakönnunum kom fram að þetta gerðu þeir í blóra við vilja 70% landsmanna.  

Ofan á þetta sýndu þessir menn gróft vanmat á stefnu Bandaríkjamanna í utanríkismálum þegar þeir héldu að ástand Kalda stríðsins væri enn á Norður-Atlantshafi þótt því stríði hefði lokið fyrir fimmtán árum.

Kvikmyndaskeiðið af Davíð Oddssyni og George Bush yngra á fundi þeirra í Hvíta húsinu á eftir að verða aðhlátursefni um ókomna tíð.

Fyrir kosningarnar vorið 2003 var því haldið leyndu fyrir þjóðinni að Bandaríkjamenn væru í raun búnir að ákveða að leggja herstöðina á Miðnesheiði niður.

Tony Blair og menn hans komust ekki með tærnar þar sem Davíð og Hallór höfðu hælana.

Íslenska þjóðin nöldraði en gerði ekki neitt vegna þessarar niðurlægingar sem hún hafði orðið að þola af hendi ráðamanna sinna.

Þeir voru látnir halda áfram á þeirri braut sem leiddi af sér hrunið mikla.

Það bendir til þess að nokkuð sé til í því sem sagt hefur verið að hver þjóð fái þá ráðamenn sem hún á skilið.  

 


mbl.is Mistök og leynd í Íraksinnrás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...varð bílvelta..."

Þetta verða tvær bloggfærslur með fimm mínútna millibili út af ambögunni "bílvelta varð."

Í fréttinni, sem þessi pistill er tengdur við, er þessu raunar snúið við: "...þá varð bívelta..."

Og ég er í miðjum klíðum við að skrifa þessa stuttu færslu þegar það sama er sagt í fréttum útvarpsins: "...loks varð bílvelta...." 

"Bílvelta varð," þrisvar á tíu mínútum !  

 

 


mbl.is Bílvelta við Borgarnes í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bílvelta varð..." einu sinni enn.

Ég hef tekið þá ákvörðun að blogga í hvert skipti um það þegar sagt verður í fréttum "bílvelta varð" jafnvel þótt það sé eins og að skvetta vatni á gæs, því að sömu ambögurnar vaða uppi endalaust. 

Þetta sýnist ekki vera merkileg ambaga en hún er dæmigerð fyrir málalengingar, nafnorðasýki, kansellístíl, leti og oft rökleysur sem virðist frekar færast í aukana hjá mörgum íslenskum fjölmiðlamönnum.

Sem sagt:

Bíll valt, fólki fjölgaði, kaupmáttur jókst, 

-  ekki: -  

bílvelta varð, aukning varð á fólksfjölda, - kaupmáttaraukning varð.  

Nefni aftur sem dæmi það sem einn af þingmönnum Vestfjarða sem sagði:

"Það hefur orðið neikvæð fólksfjöldaþróun á Vestfjörðum"....

þegar hann gat sagt:

"Fólki hefur fækkað á Vestfjörðum."  


mbl.is Bílvelta á Þingvallavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband