Helmingnum hent?

Bogi Ágústsson átti áhugavert viðtal við lögmann Færeyja, sem ég sá endursýnt í gærkvöldi. Meðal þess sem hann sagði var að líklegast væri helmingnum hent sem um borð kæmi í íslenskum fiskiskipum. 

"Hverjum þykir sinn fugl fagur" segir máltækið og kannski sér lögmaðurinn sóknardagakerfi Færeyinga í hillingum og íslenska kvótakerfið að sama skapi í dimmara ljósi.

En mér verður hugsað til frásagnar Margrétar Sverrisdóttur af því þegar hún fór með einum af áhrifamönnum í Færeyjum um hafnarbakka í enskri fiskveiðihöfn.

Færeyingurinn benti á nokkur fiskikör sem komin voru á land og sagði: Þessi fiskur er úr íslensku skipi og þessi úr færeysku.

"Hvernig sérðu það", spurði Margrét. "Jú," svaraði Færeyingurinn. "Það er hægt að þekkja íslensku fiskikörin á því að fiskarnir í þeim eru nokkurn veginn jafnstórir en í færeysku körunum eru þeir misjafnlega stórir." 

Vorið 1986 átti ég viðtal við íslenskan sjómann í Kaffivagninum sem útskýrði hvatann til þess að sjómenn yrðu að henda undirmálsfiski og reyna að hafa stærðina sem jafnasta sem veidd var. 

Þetta var í fyrsta skipti sem sjómaður játaði opinberlega að hafa tekið þátt í brottkasti og hann var rekinn morguninn eftir.  

Lögmaður Færeyja benti á það að ef miklu væri hent af fiski skekktust allir útreikningar fiskifræðinga  sem því næmi.

Ég þekki gamalreynda sjómenn sem hafa sagt mér að alla tíð hafi það tíðkast í íslenskum fiskiskipum að henda fiski ef það gagnaðist ekki að fá hann um borð, til dæmis á fjarlægum miðum þar sem miklu skipti að fiskurinn sem siglt væri með langar leiðir heim væri sem hagkvæmast saman settur.

Sé gömul hefð að baki þessa er ekki að undra að brottkast hafi einfaldlega aukist eftir þörfum þegar kvótakerfið kallaði á það og myndaði nújan og firnasterkan hvata til þess.

Kvótakerfið hefur leitt til þess að óveitt, ákveðið magn af fiski, er metið sem eign. Þetta myndi riðlast ef hver útgerðarmaður ætti rétt á ákveðnum fjölda veiðidaga og enginn vissi nákvæmlega fyrirfram hve mikið veiddist. Það yrði erfitt að veðsetja veiðidaga, - eða hvað? 

Sjávarútvegurinn skuldsetti sig upp í rjáfur í "gróðærinu." Mikið af því fé fór úr landi þegar menn tóku peninga út úr greininni fyrir sig sjálfa eða óskyldan rekstur og fjármálavafstur og mikið af þessum skuldum er vegna þess en ekki vegna fjárfestinga til góðs fyrir greinina. 

Ég get ekki varist þeirri hugsun að með nútíma tækni, þegar hægt er að fylgjast með ferðum hvers skips, hefði haganlega gert sóknardagakerfi verið heppilegra fyrir okkur en kvótakerfið, sem grátkór LÍÚ má ekki heyra nefnt að sé snert við, - grætur meira að segja út af strandveiðunum sem hleyptu þó svolitlu lífi í steindauð pláss síðastliðið sumar.  

Það er skiljanlegt að sums staðar þar, sem sannanlega hefur vel verið staðið að rekstri útgerðar, og sjávarbyggðir hafa notið þess þyki þeim, sem þar lifa á sjávarfangi, ósanngjarnt að taka af þeim kvóta og afhenda öðrum.

En gallar núverandi kerfis án nokkurra breytinga eru svo himinhrópandi að við það á ekki að una.  

 

 

 


mbl.is Slakur árgangur þorsks og ýsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaboð.

Áhugaverðar umræður hafa farið fram að undanförnu um hæð stýrivaxta. Til eru þeir sem hafa sagt að þeir megi ekki lækka vegna þess að þá fari vextir niður fyrir verðbólgu og það sé bæði skaðlegt og ósanngjarnt.

En líklega má ekki horfa á þetta svona þröngt út frá tímabundnu ástandi heldur fram til þess tíma þegar ætlunin er að verðbólgan hjöðnuð að mestu.

Eins og sakir standa er greiðslubyrði þjakaðra heimila og fyrirtækja einn stærsti hluti efnahagsvandans og vaxtalækkun minnkar hann.  

Til þess að hjálpa til við það verður að gera margt á mörgum vígstöðvum og helst allt í ákveðna átt.

Þótt lækkun vaxta sé ekki mikil er hún ein af þeim aðgerðum sem senda skilaboð út í þjóðfélagið og til alþjóðlega samfélagsins.

Þau skilaboð, hversu lítil sem hver þeirra kunna að vera, eru mikilvæg í þeirri baráttu sem nú er háð við kreppuna.

Og meðal annarra orða: Mikið óskaplega held ég að við Íslendingar höfum kannast við flest það sem kom fram í sjónvarpsþættinum í gærkvöldi um fall fjórða stærsta fjárfestingarbanka Ameríku.

 

 


mbl.is Stýrivextir lækka í 11%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband