Léttir fyrir sjávarbyggðirnar.

Ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar um 40 þúsund tonna kvóta af sumargotssíldinni er léttir fyrir þær sjávarbyggðir sem hafa átt mikið undir því að þessum veiðum væri haldið áfram.

Þetta leit ekki vel út á tímabili og alger stöðvun á veiðinni hefði verið mikið áfall fyrir þessi sjávarpláss.

Nú er bara að vona að síldarstofninn yfirstígi hina illvígu sýkingu smám saman svo að nýja síldarævintýrið verði ekki kæft.


mbl.is 40.000 tonna síldarkvóti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í kapphlaupi í eigið flugslys.

Má Brasilíumannsins sem kom fram sprelllifandi í eigin jarðarför minnir mig á skondið atvik sem henti mig fyrir nokkrum árum.

Ég átti leið á flugvélinni TF-FRÚ austur á Egilsstaði og þar sem ég flaug austur með Háreksstaðaleið ákvað ég að taka á mig krók, fljúga suður Jökuldal og skoða Hálslón í leiðinni.

Lélegt skyggni var á þessari leið en mér tókst að læðast upp með Hafrahvammagljúfiri, komast yfir stífluna og inn eftir lóninu en komst síðan þaðan með Snæfellinu niður í Fljótsdal og lenti á Egilsstöðum.

Þar tók ég jeppagarminn minn, kom við á bensínstöð en ók síðan sem leið liggur inn Fljótsdal og ætlaði upp að Hálslóni landleiðina.

Þegar ég var rétt kominn upp fyrir brekkurnar upp á Fljótsdalsheiði komu lögreglubíll og sjúkrabíll á fleygiferð á eftir mér og fóru fram úr mér.

Mér varð ljóst að slys hefði átt sér staði og hringdi í Ríkisútvarpið á Egilsstöðum. "Jú, var svarið, " það varð flugslys fyrir innan Kárahnjúka. "

Fyrir fréttamann eins og mig er svona lagað eitt af því sem veldur hvað mestum óróa í sálinni.

Maður verður mjög miður sín yfir því að einhver vinur manns hafi hugsanlega lent í slysi, jafnvel alvarlegu slysi, en á móti kemur sú staðreynd að í þessu tilviki var ég sem fréttamaður með allar kvikmyndagræjur alveg einstaklega vel staðsettur.

Ég sagði því útvarps- og sjónvarpsfólkinu á Egilsstöðum að ég myndi flýta mér allt hvað af tæki á eftir björgunarleiðangrinum, fylgjast með viðburðum og taka myndir.

Þessu var vel tekið. Ríkisútvarpið yrði allra fjölmiðla best í stakk búið til að sinna þessu annars hörmulega fréttaefni.

Ég þandi nú drusluna allt hvað af tók og bjó mig undir enn eina fréttaferðina á stað vofveiflegra atburða og hugsaði með mér hvað þetta starf væri nú skemmtilegra og auðveldara ef maður slyppi alveg við svona viðfangsefni.

Þá hringdi farsíminn. Hringt var frá Flugstjórn og spurt hvort ég vissi eitthvað nánar um slysið. Ég varð undrandi því að ég hélt að þetta væri öfugt, - þeir vissu meira um slysið en ég.

Ég sagði þeim að ég hefði fyrir tæpri klukkustund verið á flugi yfir Hálslóni og gæti varla ímyndað mér að nokkur annar hefði verið þar í skilyrðum sem hundkunnugan mann þyrfti til að vinna úr. 

Þeir sögðu að vitni hefðu séð flugvél hrapa ofan í lónið. 

Farið hefði verið inn eftir til að gæta að þessu en þá hefði hún verið sokkin.

Ég sagði þeim að ef svo væri hlytu þeir að vita meira um þá flugumferð en ég og geta séð hverjir hefðu gert áætlun um flug nálægt þessu svæði.

Þeir sögðust búnir að kemba öll sín gögn og ekki hafa vitað um neina flugumferð þarna fyrr en ég hefði, einmitt nú, sagt þeim frá mínum ferðum.

Ef flugvél hefði lent mjúkri lendingu á lóninu og sokkið hefði ekki verið víst að neyðarsendirinn hefði farið sjálfkrafa í gang og því væri þessi viðbúnaður í gangi.

Nú rann það upp fyrir mér að um engan gæti verið að ræða nema mig sjálfan og ég spurði hvernig vitnin hefðu lýst flugvélinni. Kom þá í ljós að sú lýsing átti við mína vél.

Vitnin höfðu séð vélina fljúga inn eftir lóninu, lækka flugið og hverfa á bak við hæð og síðan hefði ekkert sést meira til hennar.

Ég sagði þeim að það væri eðlilegt, því að ég hefði beygt til austurs þarna innfrá og skyggnið hefði ekki verið meira en 6-7 kílómetrar svo að ég hefði þá ekki sést frá stíflunni.

Niðurstaðan var einföld: Ég var á hraðferð til að taka mynd af eigin flugslysi sem ég hafði þó aldrei lent í !

Þarna varð til eftirfarandi vísa:

 

Geystist ég um grýttan veg /

geysilega fréttaþyrstur. /

Í eigið flugslys æddi ég /

og ætlaði að verða fyrstur !


mbl.is Mætti í eigin jarðarför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bergur Guðnason, vinur í raun.

Öðlingur og traustur vinur. Þessi tvö orð koma í hugann þegar Bergur Guðnason hverfur af sviði jarðlífsins.

Við áttum samleið í gegnum Menntaskólann í Reykjavík og frá þeim tíma eru minningarnar um hann sveipaðar gleðiljóma fjörsins sem ríkti jafna í skólanum.

Hann var gæddur yndislegri kímnigáfu sem naut sín vel, bæði í persónulegum samskiptum og í vinahópi.

Þessum eiginleika hélt hann allt fram til hins síðasta í hetjulegri og harðri baráttu sinni við illvígan sjúkdóm.  

Bergur varð snemma snjall knattspyrnumaður og varð landsliðsmaður í handbolta.  

Með árunum mynduðustu ný tengsl á milli okkar í gegnum það og sameiginlegana vinahóp. 

Bergur var mikill vinur vina sinna og ég var einn þeirra sem naut einstakrar hjálpsemi hans á þeim vettvangi fjármála sem hann gerðist sérfræðingur í sem lögfræðingur.

Bergur var einn af þessum íþróttamönnum sem var ekki alltaf sá sem var mest áberandi en reyndist þó oft drýgri en margir þeir sem böðuðu sig meira í sviðsljósinu.

Það voru til dæmis örfáir handboltamenn sem höfðu þá eiginleika að vera sífellt að skora mörk svo lítið bar á. Þegar Valur og Fram kepptu voru þetta þeir Hemmi og Bergur í Val og Guðjón í Fram, svo einstaklega útsjónarsamir og lagnir við að finna glufur í varnarvegg andstæðinganna og nýta sér það.

Meðan ég var íþróttafréttamaður og horfði á alla leiki var það einhver mesta ánægjan sem leikirnir buðu upp á að dáðst að þessum snilldareiginleikum þessara leikmanna.

Nú er Bergur allur og hugurinn er hjá fjölskyldu hans og nánum vinum sem hafa misst mikið.

Blessuð sé minning hans.   


Bloggfærslur 6. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband