Mikil bjartsýni.

Stríðið í Afganistan er óhugnanlega líkt stríðinu í Vietnam á sínum tíma. John F. Kennedy lýsti því yfir í innsetningarræðu sinni að Bandaríkjamenn myndu bera hvaða byrðar sem væri og leggja á hvað það á sig sem þyrfti ("bear any burden and meet any hardship") í baráttunni fyrir frelsinu. 

Þar með innsiglaði hann það sem framundan var í forsetatíð hans og eftirmanns hans, - sívaxandi herstyrk í stríðinu þar sem óvinurinn naut þess að vera á heimavelli í skæruliðhernaði við aðstæður þar sem Bandaríkjamenn gátu ekki neytt yfirburða sinna í vígvélum.

Allt þetta á við nú í Afganistan. Aftur er barist fyrir frelsinu en nú líka gegn hryðjverkamönnum. Enn og aftur heyrum við yfirlýsingar frjálslynds og glæsilegs forseta um fórnarlund landa hans og enn er ætlunin að auka herstyrkinn nógu mikið til að vinna endanlegan sigur, í þetta sinn á þremur árum.

Enn á ný á að treysta á það að heimamenn geti sjálfir tekið við. Og aftur hefur það sama gerst að leppar Bandaríkjamanna, því að annað orð er vart hægt að nota, eru berir að spillingu þótt átta ár séu liðin frá upphafi stríðsins, lengra hafa Bandaríkjamenn nú ekki náð.

Foringi andstæðinganna hélt velli fyrir 40 árum og sama er uppi á teningnum nú.  

Líklegra er að raunsærri en bjartsýnisorð Obama séu orð sem ég heyrði einn af liðsforingjunun í Bandaríkjamenn segja í amerískum sjónvarpsþætti: "Þetta stríð á líklega eftir að standa í 12-15 ár"

Jafnvel það kann að vera bjartsýni og að þetta verði stríð sem ekki er hægt að vinna sigur í.   

 


mbl.is Stríðinu lokið eftir þrjú ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misræmi í aðstöðu fyrirtækja.

Ölgerðin er eitt þeirra fyrirtækja sem nú berst harðri baráttu fyrir tilveru sinni í kreppunni. 

Sum fyrirtæki glíma nú ekki aðeins við kreppuna sjálfa og afleiðingar hennar, heldur þurfa einnig að keppa við fyrirbæri, sem er afar ósanngjarnt, en það eru fyrrum einkafyrirtæki sem nú eru rekin á kostnað ríkisins, þ. e. bankanna.

Svo virðist sem lítið aðhald sé af hálfu hinna raunverulegu eigenda gagnvart því hvernig þessi fyrirtæki haga sér mörg hver.

Auðvitað eru bankarnir upp fyrir haus í að bjarga ótal málum en í mínum huga er það grafalvarlegt mál, sem verður að sinna, en ekki ánægjuefni að heyra og sjá í fjölmiðlum hvernig sum hinna ríkisreknu fyrirtækja eyða miklu meiri peningum í auglýsingar en keppinautarnir.

Hér er kominn fram svonefndur pilsfaldakaptílismi af verstu sort, eigendurnir hirða gróðann en ríkið borgar tapið.

Í sumum tilfellum er um það að ræða að fyrirtæki, sem var illa rekið og fór því á hausinn, nýtir nú aðstöðu sína til þess að sauma að fyrirtækjum sem voru vel rekin og tókst því að halda velli við erfiðan kost.

 


mbl.is Uppsagnir hjá Ölgerðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálendisflugvöllur opinn út nóvember.

P1010404

Sauðárflugvöllur heldur áfram að koma mér á óvart og hef ég þó 45 ára reynslu af snjóalögum á hálendinu. 

Völlurinn var opinn fram yfir miðjan október en lokaðist síðan í rúma viku. Þá kom góð hláka og hann hefur verið opinn alveg fram að þessu en verður það varla mikið lengur í bili.

Þegar þess er gætt að völlurinn er í 660 metra hæð yfir sjó er þetta merkilegt, - og þó, - vitað er að hann er á svæði þar sem er minnsta úrkoma á Íslandi, minna en þriðjungur af úrkomunni í Reykjavík.

IMGP0265

Völlurinn hefur ævinlega opnast í júníbyrjun í þau sex ár sem liðin eru síðan fyrst var farið að lenda þar.

Það þýðir að hann verður opinn hálft árið í það minnsta að þessu sinni.

Hinn völlurinn á norðurhálendinu, við Herðubreiðarlindir, hefur suma vetur verið opinn meira og minna af og til mikinn hluta vetrar.

Búið er á vegum Flugmálastjórnar að taka Sauðárflugvöll út og þurfti hann að standast meiri kröfur en aðrir flugvellir, sem ekki er flogið reglubundið áætlunarflug á, vegna þess að tvær brautir hans af fjórum eru lengri en gengur og gerist, önnur 880 metrar nettó og hin 1180 metrar netto.

P1010696

Þær eru í raun 120 metrum lengir hvor um sig því að 60 metrar á hvorum enda þessara brauta eru skilgreindir sem öryggissvæði.  

Í júní næsta ár stendur til að ljúka við löggilta merkingu brautanna og ljúka skráningu og viðurkenningu vallarins.

Það er mikilvægt skref, því að annars geta menn ekki lent þar nema að kaupa sér sérstaka tryggingu til þess.

Með löggildingu vallarins er hann líka opnaður sem stærsti og mikilvægasta lendingarstaðurinn á hálendi Íslands sem gagnast gæti sem lendingarstaður fyrir Fokker F50 flugvélar ef í nauðir ræki á leið til Egilsstaða. 

P1010115

Ég skoða nú möguleika á því að setja upp ljós á miðjan völlinn og við enda lengstu flugbrautarinnar, sem flugmenn gætu kveikt á með farsímum sínum og væru ljósin með sjálfvirkum búnaði, sem slekkur ljósin eftir 10-15 mínútur.

Þar með væri hægt að nota völlinn í myrkri allan sólarhringinn sem lendingarstað í neyð.

Þetta getur verið mikilvægt atriði, til dæmis ef stór flugvél þyrfti að nauðlenda þar í myrkri, og það jafnvel þótt einhver snjór væri á vellinum, því að mun skárra er að lenda í snjó með sléttu undirlagi en í snjó í urð eða bröttu eða ósléttu landslagi.

 

 


Bloggfærslur 1. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband