Skjálfandafljót er í raun á virkjanalistanum.

Hvað sem líður umræðum um Skjálfandafljót er setið um það af þeim sem vilja virkja það og hafa stofnað til þess sérstakt félag. Ég er núna staddur á Akureyri og komst ekki strax inn í tengingu við fréttina en vísa til næsta bloggs á undan þessu um það efni.

Um Skjálfandafljót ríkir mikil fáfræði. Goðafoss er þekktur af því að hann er við hringveginn og sögufrægur en Aldeyjarfoss þekkja örfáir. Þess vegna er hann ekki settur á myndalista með fréttum þótt hann sé í mestri hættu og mun sérstæðari.


mbl.is Leggjast gegn friðun alls Skjálfandafljóts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Full ástæða til varðstöðu.

Ég er félagi í samtökum sem berjast gegn því að Skjálfandafljót verði virkjað. Full ástæða er til að standa þar fastan vörð.

Það er ekki að ástæðulausu að stofnað var sérstak félag með þátttöku Orkuveitu Reykjavíkur og heimamanna til þess eina verkefnis að virkja fljótið. Það var auðvitað gert af því menn ætla sér það.

Þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar um að gnægð af jarðvarmaorku sé að fá fyrir 340 þúsund tonna risaálver á Bakka eru líkurnar á því að það takist litlar og þetta er aðalástæðan fyrir því að fá eigi aðra skaplegri og minni kaupendur að orku frá þessu svæði.

Skjálfandafljót og vatnasvið þess hefur nefnilega mikið gildi ekki síður en Laxá í Aðaldal.

Læt hér fljóta með í lokin vísu, sem gerð var í hagyrðingaþætti á héraðsmóti á Laugum fyrir 45 árum þar sem bragsnillingar héraðsins á borð við Egil Jónasson, Karl Kristjánsson og Baldur á Ófeigsstöðum fóru mikinn og deildu meðal annars um það hvaða kveðskapur væri boðlegur, hvað væri ljóð og hvað væri leirburður, og um það hvor áin væri merkilegri, Laxá eða Skjálfandafljót.

Baldur á Ófeigsstöðum hélt fram kostum Skjálfandafljóts en Egill kostum Laxár og lauk þeirri rimmu með frækilegri lokasókn Egils, þar sem hann kvað Baldur í kútinn, bæði í deilunni um árnar og kveðskapinn. Svona var vísan:

Laxá öðrum elfum meir  /

elska ljóðasvanir   /

en Fljótið líka lofa þeir  /

sem leirnum eru vanir.  /


Styrjöldin til að koma í veg fyrir frekari styrjaldir.

Eftir fyrri heimsstyrjöldina fóru margir að kalla hana styrjöldina sem var háð til þess að koma í veg fyrir frekari styrjaldir. Mannfallið, tjónið og hörmungarnar sem styrjöldin skildi eftir sig var slíkt að öllum hugsandi mönnum þótti óhugsandi að önnur slík yrði háð.

Styrjöldin hafði þá ekki verið háð til einskis, þrátt fyrir allt. 

Þegar leið á fjórða áratuginn rígheldu menn í þetta og þetta var ein af ástæðum þess að Bretar og Frakkar vildu allt til vinna að friðþægja Hitler og Mussolini, sem nýttu sér óspart ósanngjarna friðarskilmála Versalasamninganna og þess veikleika sem óheftur kapítalisma sýndi í fjármálahruninu 1929. 

15. mars 1939 varð loks ljóst að þetta gekk ekki upp. Hitler rauf aðeins sex mánaða gamalt samkomulag frá Munchen og réðist inn í Tékkóslvóvakíu. 

Í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar var NATÓ myndað á þeim forsendum að sagan frá 1939 og 39 mætti ekki endurtaka sig. 

Þetta er dæmi um það sem Obama á við í ræðu sinni við móttöku friðarverðlauna.

Þau verðlaun verða þó að teljast hæpin handa manni sem er rétt að hefja valdaferils sinn, á aðeins fögur orð að baki og nýbúinn að fjölga stórlega í herliðinu í Afganistan í stríði sem þar með er orðið hans stríð rétt eins og stríðið í Vietnam var fyrst og fremst stríð Johnsons þáverandi Bandaríkjaforseta. 

Orð Obama í ræðunni í Osló eru nefnilega ekki algild og í því liggur stóri vandinn varðandi það orðalag hans að "stundum" þurfi að heyja stríð til að varðveita frið. Hvenær á "stundum" við og hvenær ekki? 

Á það við í Afganista? Það orð held ég að hafi ekki átt við í innrásinni í Írak 2003. 


mbl.is Obama heldur heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband