15.12.2009 | 19:56
"Skal í gegn stefnan".
Þegar ekið er um þjóðvegakerfi annarra landa sést að yfirleitt er reynt að beina hröðustu umferðinni framhjá byggðakjörnum, bæjum og borgum.
Ástæðan er einföld: Það er töf af því að lenda í hægri og þungri innanbæjarumferð og eykur slysahættu.
En eins og sést vel af grein í Morgunblaðinu í dag er og hefur verið áberandi það sjónarmið á Íslandi að umferð skuli beint í gegnum miðju hverrar þeirrar byggðar sem á leiðinni er. Ég hef kallað þetta "Skal í gegn stefnuna."
Andstæða hennar er upphrópunin sem nú er komin á kreik: "Sellfyssingar ekki lengur í alfaraleið!" Agalegt að heyra þetta!
Jæja? Verður eitthvað lengra fyrir Selfyssinga að fara í allar áttir þótt hraðleiðin liggi ekki alveg upp að gangstéttum í miðju bæjarins?
Ég hélt þvert á móti að með því að greiða úr umferðartöfum á þann hátt að bægja óþarfa umferð frá miðju Selfossbæjar og fara meðfram byggðinni yrði greiðari leið fyrir Selfyssinga að fara í allar áttir.
Og á sama hátt verður alveg jafn langt fyrir fólk, sem kemur úr öllum áttum að Selfossi og á þangað erindi, að fara inn í bæinn og mun jafnvel taka skemmri tíma heldur en nú þegar umferðin er svo þung.
Vandamál vegna manngerðra fyrirbæra á borð við golfvöll, gróðursettan skóg og æfingasvæði vélhjólaklúbbs hlýtur að vera hægt að leysa.
Ég minnist þess ekki að á hundruðum ferða minna í gegnum Selfoss hafi ég stoppað þar til að versla, bara vegna þess að ég var skikkaður til að aka í gegnum bæinn.
Hliðstætt mál var leyst við Hellu á sínum tíma með því að færa bensínstöðina til.
Þar áður ríkti þar "skal í gegn" stefnan, að allir urðu að taka lykkju á leið sína og fara yfir gömlu Hellubrúna í miðju þorpi, hvort sem þeir áttu erindi til Hellu eða ekki.
"Skal í gegn-stefnan" varð ofaná varðandi leiðina frá Seyðisfirði í vesturátt og hún látin liggja í krók í gegnum Egilsstaði.
Og þessi stefna er svo sannarlega í gildi við Blönduós þar sem menn verða á Norðurleiðinni að taka á sig 15 kílómetra óþarfa krók til að fara þar í gegn. Nýr vegur á brú yfir Blöndu hjá Fagranesi myndi liggja áfram inni í sveitarfélaginu og þess vegna hægt að halda þjónustu við vegfarendur innan þess.
![]() |
Selfyssingar ekki lengur í alfaraleið? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
15.12.2009 | 19:20
Er nú ekki nóg af saltinu ?
Að undanförnu hafa verið einmuna hlýindi dag eftir dag en fyrst nú, þegar líkur eru á því að það frysti, er farið í það að ausa saltpækli um göturnar til að hreinsa burtu tjörusandinn sem myndast hefur á þeim vegna notkunar nagladekkja og salts.
Að undanförnu hafa verið í boði margar nætur þegar svo hlýtt hefur verið að engin þörf hefði verið á því nota salt.
Mér hefur fundist nóg um notkun saltsins að undanförnu, oft til þess að eyða örþunnri skán sem hvort eð er hefði eyðst af umferðinni á skömmum tíma.
![]() |
Götur borgarinnar þvegnar í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2009 | 19:12
Eins og í Heimaeyjargosinu.
Það er mjög þarft framtak að setja upp myndavél sem sýnir beint frá Heklu og þótt þetta sé ekki í fyrsta sinn sem slíkt er gert hér á landi, er þetta í fyrsta sinn sem þetta er gert áður en hugsanlegt gos hefst.
Fyrra skiptið var í Heimaeyjagosinu 1973 þegar á vegum tæknimanna Sjónvarpsins var sett upp myndavél við endurvarpsstöðina á Klifinu í Vestmannaeyjum þar sem sjá mátti til Eldfells og gossins þar.
Það mætti hugsa sér að setja upp myndvél þar sem sæist til Kötlu. Hún þyrfti ekki að vera í notkun nema þegar jarðhræringar eða aðrar vísbendingar eru um yfirvofandi gos.
P. S. En nú heyri ég í Sjónvarpinu að búið er að setja svona myndavél upp á Háfelli. Gott mál það.
![]() |
Vefmyndavél sýnir frá Heklu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.12.2009 | 01:00
Hræsni hinna frelsiselskandi Vesturlandabúa.
Við Vesturlandabúar berjum okkur á brjóst og segjumst vera mikið baráttufólk fyrir frelsi, réttlæti og jöfnuði.
Við höfum notað þetta elskaða frelsi til að sitja lengst af ein að því að blása svonefndum gróðurhúsalofttegundum út í loftið.

Í Kaupmannahöfn er nú fjallað um það hvernig þetta geti valdið þjóðum sunnar á hnettinum miklum búsifjum, ýmist drekkt láglendi þar sem hundruð milljóna búa eða valdið þurrkum og vexti eyðimarka.
Læt fylgja hér með myndir úr ferðum mínum til Eþíópíu 2003 og 2006, en þar geysuðu þá miklir þurrkar og varð að útdeila vatni til fólksins úr tankbílum til að koma í veg fyrir frekara mannfall vegna þurrkanna.

Bandaríkjamenn, 5% mannkyns, blæs út 25% af útblæstrinum.
Deilt er að vísu um umfang loftslagsbreytinga en það breytir ekki því að 110 þjóðarleiðtogar ætla varla að ómaka sig til Kaupmannahafnar út af engu.
Vestrænar þjóðir hafa einnig barist fyrir verslunarfrelsi en gætt þess að það nái ekki til landbúnaðarvara, sem eðli máls samkvæmt er hagkvæmara að framleiða í heitari löndum.
Skekkjan, sem með þessu hefur myndast, er margfalt meiri en nemur allri aðstoð Vesturlandabúa við fátækt fólk í þróunarlöndunum.

Vesturlönd hafa ekki staðið sig betur en það í að uppfylla skilmála Kyotobókunarinnar að í áætlunum er oftast miðað við árið 2005 en ekki 1990 til þess að hægt sé að fá út hærri prósenttölu.
Ég ræddi um umhverfismál við sendiherra Indlands á dögunum og spurði hann hvort honum fyndist það réttlátt að sleppa þróunarlöndunum við að minnka útblástur svonefndra gróðurhúsalofttegunda.
Hann sagði að Indverjar og Kínverjar ætluðu sér að taka á í þessum efnum en benti á að hver Íslendingur blési sex sinnum meira af þessum efnum út í andrúmsloftið en hver Indverji.
Út um gluggann horfðum við á umferð mest mengandi bílaflota í Evrópu sem við höfum komið okkur upp sem hluta af fjórföldun skulda heimilanna á örfáum árum í "gróðærinu" mikla.
Þróunaraðstoð Íslendinga bar sem betur fer ekki á góma í viðtali okkar og vonandi veit Indverjinn það ekki að Íslendingar hafa verið og ætla sér að vera áfram nískasta þjóð á Vesturlöndum í því efni.
Fjögur frelsi sem Roosevelt Bandaríkjaforseti nefndi sem keppikefli heimbyggðarinnar voru:
Skoðana- og tjáningarfrelsi. Trúfrelsi. Frelsi frá skorti. Frelsi frá ótta.
Frelsi frá skorti heyrist sjaldan nefnt.
![]() |
Gagnrýna danska formanninn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)