27.12.2009 | 17:43
Kemur mér ekki á óvart.
Það á ekki að koma okkur á óvart að Íslendingar geti orðið fyrir aðkasti erlendis vegna Icesafe og svipaðra mála.
Sjálfur fékk ég orð í eyra í Bandaríkjunum strax daginn eftir að hin fleygu orð í Kastljósi um að við borguðum ekki höfðu verið spiluð á sjónvarpsstöðvum.
Það á heldur ekki að koma okkur á óvart þótt heitið Ísland sé að verða að nýyrði yfir það að efnahagslíf þjóðar hrynji eða að við séum höfð að háði og spotti.
Við megum samt ekki alhæfa um það að allir útlendingar vilji nota tækifærið til að skeyta skapi sínu á okkur eða leggja okkur í einelti.
Og þaðan af síður eigum við að leggjast í væl og sjálfsvorkunn yfir því hvað allir séu vondir við okkur heldur einbeita okkur að því að laga til heima hjá okkur og fá aðrar þjóðir til að sýna okkur sanngirni og skilning.
Ef við kennum öllum öðrum um en okkur sjálfum munum við eyðileggja sjálf fyrir okkur og vera sjálfum okkur verst.
![]() |
Veist að Íslendingi í Bretlandi vegna Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
27.12.2009 | 02:56
"Takið þið hann fyrst, hann er yngri!"
Þegar ég heyri um atvikið, sem þessi pistill er tengdur við, kemur mér í hug þegar tengdafaðir minn heitinn, Jóhann Jónsson vélstjóri, ákvað í sjávarháska að fórna sér fyrir yngri mann.
Þeir flutu báðir í sjónum efir að togarinn Vörður frá Patreksfirði sökk langt suðaustur af Vestmannaeyjum í haugasjó um hávetur fyrir 58 árum.
Togarinnn Bjarni Herjólfsson, sem kom að, sigldi um þar sem mennirnir börðust fyrir lífi sínu í sjónum og bjargaði skipverjum einum af öðrum.
Þegar þeir komu að tengdaföður mínum og ætluðu að bjarga honum kallaði hann til þeirra og benti í áttina að hinum yngri skipsfélaga sínum: "Takið þið hann fyrst, hann er yngri!"
Þeir sigldu að manninnum og tókst að bjarga honum, en aðstæður voru mjög erfiðar í svona miklum sjógangi og myrkri og þetta tók því sinn tíma.
Þegar þeir komu aftur að Jóhanni var það of seint. Hann hafði fórnað lífi sínu til að bjarga félaga sínum.
Alls fórust fimm menn í þessu hörmulega sjóslysi.
Jóhann var enn á besta aldri, um fimmtugt, en samt vildi hann að yngri manninum yrði bjargað fyrst.
Ég hef alla tíð verið ákaflega stoltur af því sem hann gerði og mér þykir vænt um að börnin mín segist vera Vestfirðingar að uppruna þegar um það er spurt.
Skipsfélagi Jóhanns, Guðmundur Halldórsson, var fyrstur Íslendinga sæmdur heiðursorðu forseta Íslands á sjómannadaginn fyrir það mikla afrek sem hann vann við að bjarga félögum sínum.
Ég gerði um hann sjónvarpsþátt sem hét "Hinn hljóði afreksmaður."
Í íslenskri sjómannastétt eru og hafa verið margir hljóðir afreksmenn.
Sumir þeirra voru ekki eins lánsamir og Guðmundur Halldórsson að lifa af.
En afrek þeirra lifa.
![]() |
Þá skaltu líka lifa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)