"Geimórarnir" voru þá engir órar.

Ég man þá tíð þegar sagt var um þá hugmynd, að einhverjir kæmu til Íslands til að skoða hvali, að hún væri andvana fædd, nánast "geimórar."  

Ekki er allt vont sem kvótakerfið leiddi af sér, því að fyrsta fréttin sem ég gerði um hvalaskoðun var um bát, sem ekki var hægt að nota lengur á Hornafirði, vegna þess að hann hafði ekki kvóta.  

Ég man að í fréttinni notaði ég tilvitnun í biblíuna þegar Kristur sagði við fiskimanninn: "Héðan í frá skaltu menn veiða."  

Hvalaskoðun flokkaðist sem sagt undir svipað fyrirbæri og nú er kallað í niðrunarskyni "eitthvað annað", sem sé eitthvað annað en virkjanir og stóriðja og þar af leiðandi að engu hafandi.

Þegar þeir fyrstu hófu þessa starfsemi var ljóst að það myndi taka mörg ár að byggja hana upp og enginn skammtímagróði eða tafarlaus atvinna í boði.

Slíkt er eitthvað svo óíslenskt og frumherjarnir máttu þola vantrú og úrtölur þess vegna.

Þess vegna samgleðst ég þeim sem höfðu þor og dug til þess að leggja á djúpið og eru nú að uppskera laun þess.  


mbl.is Stærsta hvalaskoðunarskip landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og þorskurinn líka ?

Ef loðnan hverfur frá Íslandsmiðum vegna hlýnunar loftslags er hætt við að fleira fylgi á eftir samanber rannsóknir Björns Birnis, prófessors.  

Þeir eru til sem ýmist andmæla því að loftslag sé að hlýna af mannavöldum eða segja sem sem svo að það sé aðeins gott fyrir okkur Íslendinga að loftslagið hlýni, það sé hagstætt fyrir okkur hvað sem öðrum þjóðum líði. 

Þeir hafa sagt að okkur megi standa á sama um það þótt barnabörn okkar muni á efri árum verða vitni að því að stórborgir erlendis og lönd hundraða milljóna manna sökkvi í sæ og kvosin í Reykjavík og Sjálandshverfi í Garðabæ sömuleiðis, það eigi ekki að gera neitt til þess að minnka útblástur.

Þessum mönnum er slétt sama þótt loftslagsbreytingarnar kunni að valda slíkum búsifjum fyrir mannkynið í heild að við Íslendingar, sem erum svo háðir samskiptum og verslun við önnur lönd, munum skaðast af því.   

Þeir horfa framhjá því að það er fleira sem hangir á spýtunni og að löng saga jarðarinnar sýnir að tiltölulega litlar breytingar geti haft keðjuverkandi afleiðingar, samanber þá hættu sem er á því að Golfstraumurinn veiklist við útstreymi fersks leysingarvatns vegna bráðnunar Grænlandsjökuls.

Það gæti leitt svæðisbundna ísöld við Norður-Atlantshaf.  

 Einnig eru þeir tilbúnir að taka áhættuna af því að þorskurinn hverfi af Íslandsmiðum, - segja sem svo að eitthvað annað komi í staðinn.

Allt er þetta til marks um þá miklu áhættufíkn sem enn er ríkjandi hér, en hún ásamt skammtímagræðginni olli hruninu mikla.

Menn yfirfæra bara áhættuspilið frá peningunum í bili yfir á umhverfismálin og náttúruverðmætin. 

Ætlum við í raun ekki að læra neitt af þeim ósköpum sem yfir okkur hafa dunið?  


mbl.is Loðnan að hverfa vegna hlýnunar sjávar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband