"Geimórarnir" voru þá engir órar.

Ég man þá tíð þegar sagt var um þá hugmynd, að einhverjir kæmu til Íslands til að skoða hvali, að hún væri andvana fædd, nánast "geimórar."  

Ekki er allt vont sem kvótakerfið leiddi af sér, því að fyrsta fréttin sem ég gerði um hvalaskoðun var um bát, sem ekki var hægt að nota lengur á Hornafirði, vegna þess að hann hafði ekki kvóta.  

Ég man að í fréttinni notaði ég tilvitnun í biblíuna þegar Kristur sagði við fiskimanninn: "Héðan í frá skaltu menn veiða."  

Hvalaskoðun flokkaðist sem sagt undir svipað fyrirbæri og nú er kallað í niðrunarskyni "eitthvað annað", sem sé eitthvað annað en virkjanir og stóriðja og þar af leiðandi að engu hafandi.

Þegar þeir fyrstu hófu þessa starfsemi var ljóst að það myndi taka mörg ár að byggja hana upp og enginn skammtímagróði eða tafarlaus atvinna í boði.

Slíkt er eitthvað svo óíslenskt og frumherjarnir máttu þola vantrú og úrtölur þess vegna.

Þess vegna samgleðst ég þeim sem höfðu þor og dug til þess að leggja á djúpið og eru nú að uppskera laun þess.  


mbl.is Stærsta hvalaskoðunarskip landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skoðum hvalinn, ekki drepa hann.

Rafn (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 22:16

2 Smámynd: Sævar Helgason

Árið 1988 kom hingað til lands Þjóðverji,dr. Christian Roth og gerðist forstjóri Íslenska álfélagsins í Straumsvík og dvaldi hér í 10 ár við þá iðju að endurbyggja álverið í nýtísku horf og hátæknivæða reksturinn í Straumsvík . Hann skildi við reksturinn eins og hann er enn  í dag.

En dr Christan Roth sér átti margar hliðar - ein var sú að hann var mikill umhverfissinni og lét margt gott af sér leiða hér á landi í þeim málum  - sem ekki hefur allt hátt farið.

  Hann var einnig  mikill hvalavinur og bar hag þeirra mjög fyrir brjósti. Hann var sá fyrsti sem,ég heyrði setja fram þá kenningu að Íslendingar gætu haft marg - margfaldar tekjur af hvalaskoðun- en þeir fengju með veiðunum .

dr. Christian Roth hafði rétt fyrir sér. Nú er hvalaskoðun öflug atvinnugrein-en hvalkjötið okkar hleður á sig geymslukostnaði í frystihúsum- illseljanlegt.

Svona getur stóriðjan átt hugmyndalega aukabúgrein... náttúrutengda.

Sævar Helgason, 3.12.2009 kl. 22:45

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Satt segirðu, Sævar. Eitt af því varasamasta sem maður gerir er að draga fólk í dilka.

Í starfi mínu hef ég kynnst mörgu ágætisfólki sem er ekki á sömu skoðun og ég í ýmsum málum en hins vegar á sömu bylgjulengd í öðrum málum.

Einu sinni var spurt: "Getur nokkuð gott komið frá Nazaret?" Við vitum svarið.

Ómar Ragnarsson, 3.12.2009 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband