14.2.2009 | 20:09
Hún "stóð vaktina" heldur betur síðustu árin.
Tvær konur, Siv Friðleifsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir, tóku það að sér fyrir Finn Ingólfsson, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson að bera ábyrgð á tveimur verstu gjörningum sjálftöku- og oftökustjórnmála helmingarskiptaflokkanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins.
Valgerður var viðskiptaráðherra þegar einkavina- og helmingarskipta sala bankanna var framkvæmd og hún var á vaktinni þegar skammgróðakerfið blés upp.
Verri var hlutur Sivjar. Þegar tveimur árum áður en hún kvað upp hinn dæmalausa úrskurð sinn um Kárahnjúkavirkjun talaði hún opinberlega um þann tíma "þegar stórum svæðum verður sökkt" á norðausturhálendinu.
Þetta var fyrirfram enginn vafi í hennar huga, úrskurðurinn gat aldrei orðið nema á einn veg.
Hlutur Sivjar var verri vegna þess að eyðileggingin sem hún ákvað verður óafturkræf um aldur og ævi en áhrif kreppunnar mun ekki vara nema örlítið brot af þeim tíma.
En það er dapurlegt fyrir jafnréttisbaráttu kvenna að einna lengst skuli þær konur ná í stjórnmálum em framkvæma stærstu skitverkin fyrir karlana.
![]() |
Valgerður ekki í framboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.2.2009 | 18:26
Sumir geta selt, - sumir þurfa ekki að hafa áhyggjur af því.
Sumir geta sett upp 2900 milljónir á húseignir sem þeir vilja selja. Aðrir geta aðeins sett einn hundraðasta af þessu á sínar eignir og þaðan af minna og geta svo jafnvel ekki selt.
Síðan eru þeir sem hafa ekkert að selja þótt þeir kannski vildu geta selt eitthvað. Það er hreint ekki eins slæmt og menn gætu haldið. Að minnsta kosti finnst mér það ekki eftir að hafa verið í þeirri stöðu undanfarin ár.
"Gætið að liljum vallarins...enginn getur aukið alin við hæð sína með áhyggjum..." var einhvern tíma sagt. Ég held að það sé hreint ekki svo slæmt að vera í félagsskap við "blómstrið eina sem upp vex af sléttri grund og verður síðan af skorið fljótt."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.2.2009 | 18:17
"...in a yellow submarine...nærbuxur Framsóknar.



Fyrst smá leiðrétting. Vegna innsláttarmistaka lenti þessi pistill í tengslum við fréttina af íbúðarmálum á Manhattan, en sá pistill er raunar hér fyrir ofan.
Eftir skemmtilegan fund á Klörubar í morgun sem Sturla hinn mikli framsóknarmaður hélt þar og hefur gert vikulega, fór ég í vettvangsferð um sunnanverða Gran Canaría vegna bókar sem ég er að skrifa.
Hér sjást systurnar Helga og Anna Jóhannsdætur við bátahöfnina á Puerto Rico, neðar sést yfir baðströndina í vognum í þessum magnaða sólarstrandarbæ, en neðst er mynd af "Yellow submarine", gulum kafbáti sem ferðamenn geta fengið að sigla í 800 metra út á allt að fimm metra dýpi í allt að 40 mínútur.
Báturinn minnir á Bítlalagið og íslensku þjóðarskútuna glæsilegu sem strandaði og sökk og siglir nú sem heimsfrægur gulur kafbátur um sinn þar til hægt verður að komast aftur úr kafi.
Á fundum Sturlu í vetur hafa þeir fengið að tala, Guðni Ágússton og Guðjón Arnar, og mér var boðið það sama í morgun.
Í lok fundarins stóð karl einn á stokk og sagði dæmisögu sem átti að lýsa endurholdgun og endurnýjun forystu Framsóknarflokksins; hinum miklu hamskiptum Framsóknar.
Hann líkti þessum hamskiptum við það þegar kerlning ein tötraleg og skítug vildi gerast virðuleg maddama og fara uppáskveruð á ball (væntanlega til að verða aftur sætasta stelpan til að fara heim með Geir af ballinu (innskot mitt) ).
Kerlingin fyrrnefnda fór úr nærbuxunum, sneri þeim við, og sagði síðan þegar hún var búin að fara aftur í þær: "Alltaf er nú munur að fara í hreint !"
Þannig sér þessi ágæti maður Framsóknarmaddömuna eftir hamskiptin.
![]() |
Selja íbúð á Manhattan |
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana. |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.2.2009 | 09:44
Hátíðisdagur í 48 ár.
14.febrúar 1961 var örlagadagur í lífi mínu og síðar hjá 27 afkomendum okkar Helgu Jóhannsdóttur. Þennan dag fyrir 48 árum hittumst við í fyrsta sinn og dönsuðum saman í danssskóla Hermanns Ragnars Stefánssonar og það var ást við fyrstu sýn.
Við héldum síðan ævinlega upp á þennan dag og urðum þannig óafvitandi fyrst Íslendinga til að halda upp á Valentínusardaginn, því að við höfðum ekki hugmynd um tilvist þessa ameríska ástardags fyrr en Valdís Gunnarsdóttir hafði um það forgöngu á Bylgjunni að gera hann að íslenskum tyllidegi.
Í dag förum við í ferð um suðurhluta Gran Canaría ásamt eldri systur Helgu, sem Helga bjó þá hjá í Kópavogi. Ferðin verður jafnframt vettvangskönnunarferð vegna bókar sem ég hef í smíðum.
Í tilefni dagsins bendi ég á lagið "Styðjum hvert annað" á tónlistarspilaranum hér vinstra megin fyrir neðan bloggpistilinn, sem hljómsveitin "Birta" flytur á samnefndum diski, sem fæst hjá Skífunni, Smekkleysu, Bónus og Olís, en allt söluandvirðið hefur runnið óskipt frá upphafi til Mæðrastyrksnefndar í Reykjavík.
Gleðilegan ástardag !
![]() |
Kærleiksganga á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)