Upplifunarferðamennska.

imgp0215_795655.jpgimgp0197_795656.jpgimgp0220.jpgimgp0221_795650.jpgFornminjar Kanarí.

"Get your hands dirty and feet wet", gerðu hendurnar skítugar og fæturna vota !

Bandarískur prófessor í ferðamálum sagði þetta í viðtali við mig fyrir tæpum tíu árum og svaraði með því spurningu minni um það hvaða svið ferðamennsku væri í mestum uppgangi.

Á þeim tíma fékk ég að heyra í blaðagreinum að það væri ekkert að marka gamla ameríska kellingu. Kynjafordómarnir láku af greinarhöfundum auk annarra fordóma gagnvart því að hægt væri að lifa af öðru en hráefnisframleiðslu. 

Í gær skoðaði ég uppi í fjöllum Gran Canaría einn af fjölmörgum ferðamannastöðum heimsins þar sem reynt er að láta ferðamenn upplifa horfna tíð og framandi aðstæður. Dæmum um slíkt fer fjölgandi og má nefna ýmislegt af því tagi heima eins og til dæmis hvernig staðið hefur verið að hlutum í Borgarnesi og víðar. 

En út um allt land eru byggðasöfn og torfbæir þar sem þarf að fríska upp á það sem ferðamenn fá að sjá og upplifa. 

Besta dæmið um slíkt sá ég reyndar á Stiklastöðum í Noregi þar sem líkt er eftir orrustunni frægu þar í söngleik utanhúss og hægt að fara inn í þorp og sjá fólk leika hlutskipti þorpsbúa og daglegt líf þeirra fyrir meira en öld. 

Í þorpinu hér á Kanarí eru myndastyttur látnar segja söguna af daglegum verkum, trúarathöfnum, leikjum og jafnvel aftökum. Eru styttan af böðlinum sem reiðir stóran stein til lofts yfir hinum bundna sakamanni eftirminnileg og maður skynjar augnablikið áður en bjargið molar haus hins seka.

Ég hef verið að reyna að tala um upplifunarferðamennsku við Leirhnjúk og Gjástykki sem gæti gefið margfalt meiri tekjur en þau fáu störf í verksmiðju í 70 km fjarlægð gæfu ef þetta umbrotasvæði sköpunar landsins verður gert að virkjanasvæði.

Þess utan mætti setja upp í Gjástykki sýningu á æfingum komandi marsfara á svæði sem tekið var frá fyrir slíkt fyrir nokkrum árum, en þó með þeim fyrirvara að ekki yrði farið lengra í norður með virkjanir en nú er. Marsfarar æfa sig ekki innan um borholur, gufuleiðslur, raflínur og stöðvarhús. 

Ég tala að mestu fyrir daufum eyrum um þetta. Flutningur á hráefni til íslands yfir þveran hnöttinn og útflutningur á hráefni til baka virðist vera stefnan sem ráðamenn þjóðarinnar trúa á.  

 


Þörf fyrir þjóðhöfðingja.

Ég hef orðið vitni að því hve margar mikilvægar dyr opnast fyrir þjóðhöfðingjum erlendis sem annars væru lokaðar og gæti sagt af því nokkrar sögur. Það breytir því hins vegar ekki að alveg kemur til greina að fækka tveimur æðstu embættum þjóðarinnar niður í eitt með því að sameina forsetaembættið embætti forsætisráðherra.

Úr því að aðeins eitt slíkt embætti þarf fyrir þúsund sinnum fjölmennari þjóð, Bandaríkjamenn, ætti það að vera hægt á Íslandi. Við erum smáþjóð sem getum notið góðs af því að hafa eitt embætti, sem nýtur réttinda þjóðhöfðingjans til jafns á við þjóðhöfðingja stórveldanna og eigum ekki að kasta því frá okkur. 


mbl.is Pétur Blöndal styður stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkarnir fái að ráða lýðræðinu innan sinna raða.

Það eru sjálfsögð réttindi að framboðsaðilar fái sjálfir að ráða því hvort þeir gefa kjósendum sínum alræði í uppröðun lista sinna í kjörklefanum eða ekki. Gallarnir við núverandi fyrirkomulag eru þeir að á þing hverju sinni velst meirihluti þingmanna, sem eru í raun í svonefndum "öruggum sætum" eftir að flokkarnir hafa raðað þeim efst á lista sína.

Spennan á kosninganótt flest mest í því hvort þessi eða hinn fótgönguliðinn er inni eða úti, t.d. í síðustu kosningum hvort Mörður Árnason eða Ellert Schram voru inni eða úti. 

Í raun hafa efstu menn á lista Sjálfstæðisflokksins allt frá stofnun flokksins verið í öruggum sætum í Reykjavík í öllum kosningum. Vandi flokkanna hefur falist í baráttunni fyrir að komast í þessi sæti í prófkjörum, á kjördæmisþingum eða há uppstillingarnefndum með öllum þeim göllum sem því fylgja. 

Oft er mikið vesen að ná sátt um röðina, sumir gera kröfur um ákveðin sæti og aðrir vilja helst ekki vera ofarlega. 

Kostirnir við persónukjör felast í beinasta lýðræði sem til er í einrúmi kjörklefans þar sem beinn atbeini hvers kjósenda ræður öllu um gengi þeirra sem eru á listanum. 

Gallarnir er líka til. Sumir óttast að falla niður í slíkri röðun og að þátttaka í uppröðuninni verði of lítil svo að hinn raunverulegi vilji kjósenda framboðsins ráði í raun ekki sem skyldi. Ótti hinna óröðuðu frambjóðenda getur bæði falist í því að þeir lendi neðar en þeir vildu eða jafnvel að þeir lendi ofar en þeir vildu. 

Ef röðunin á listanum er í stafrófsröð kann það að verða til hagsbóta fyrir þá sem eru fremst í stafrófsröðinni. Og það skiptir mjög miklu máli að alliar kjósendur listans kynni sér vel hið nýja fyrirkomulag og að sem allra flestir nýti sér hinn nýja rétt eins vel og kostur er.

Og nú er bara að treysta á að þessar umbætur nái fram að ganga fjótt og vel þannig að þetta taki gildi strax í næstu kosningum. Enn er ekki útséð um það.  


mbl.is Persónukjör í kosningunum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þekkir ekki sinn vitjunartíma.

Davíð Oddsson situr í Seðlabankanum í óþökk yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar eins og skoðanakannanir sýna. Ég efa ekki að lengi vel á ferli sínum vildi hann vinna þjóðinni og hugsjónum sínum vel og gerði það lengst af glæsilega á einstakan hátt. 

En fóstbræðralagið við Halldór Ásgrímsson færði allt á ógæfuhliðina og er ástæðulaust að rekja það enn einu sinni. Úr varð þráseta sjálftöku- og oftökustjórnmálamanna, dæmigerð fyrir tugi stjórnmálamanna um allan heim sem þekktu ekki sinn vitjunartíma, byrjuðu feril sinn glæsilega en enduðu hann með því að sitja sem fastast setunnar einnar vegna. 

Nú hafa þeir sem fremstir voru í að klúðra vaktinni hætt eða stigið til hliðar. Geir Haarde er ekki lengur forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún í óráðnu fríi, Árni Matt ekki lengur fjármálaráðherra, Björgvin Sigurðsson sá eini sem hefur axlað ábyrgð að fullu, og stjórnendur fjármálaeftirlitsins hafa vikið.

Einn situr Davíð, rúinn trausti, - maðurinn sem sagði sjálfur að stjórnmál snerust um traust og ætlaðist til að aðrir færiu eftir því en fer ekkert eftir því sjálfur.

Í stað þess að hlíta vilja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar og auðvelda þannig mannaskipti í stjórn Seðlabankans svo að það þurfi jafnvel ekki um sinn að breyta lögum um hann, ákveður hann að vera til ógagns, vegna þess að hann telur sig ómissandi eins og einræðisherrar telja sig alltaf vera.  


mbl.is Gagnrýna Seðlabankafrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband